Áformað er að hefja olíuleit á úthafinu norðan við Ísland. Olíuleit krefst vandaðs undirbúnings og ítrustu aðgæslu í umhverfismálum. Það er alls óvíst hvort olía finnist á Drekasvæðinu og líklegast eru áratugir í að vinnsla þar gæti hafist, ef leitin ber á annað borð árangur. Rannsóknir þarf að undirbúa af kostgæfni, því ef rannsóknarborun hittir á lind byrjar olían strax að streyma. Fyrirætlanirnar krefjast þess að við íhugum kosti okkar vandlega og undirbúum framtíðina af fullri ábyrgð og með hagsmuni komandi kynslóða og lífríkisins alls að leiðarljósi.

Við þurfum líka að spyrja okkur gagnrýninna spurninga. Viljum við verða olíuvinnsluþjóð? Viljum við taka áhættu af mengunarslysi sem gæti orðið á kostnað fiskimiðanna okkar? Viljum við mótsögnina sem fylgir því að skipa okkur í fremstu röð þeirra sem vilja draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna jarðaefnaeldsneytis og á sama tíma standa fyrir leit að því?

Þversögn í loftslagsmálum

Augu manna beinast í auknum mæli að olíulindum á norðurslóðum, þar sem þær verða sífellt aðgengilegri vegna bráðnunar íss, sem orsakast einmitt fyrst og fremst af hlýnun vegna brennslu jarðefnaeldsneytis. Með öðrum orðum: Afleiðingar alvarlegra loftslagsbreytinga af mannavöldum ýta undir kapphlaup til að ná í afganginn af eldsneytinu sem orsakar þær. Þessi þversögn er sláandi og má spyrja hvort ekki sé ástæða til að staldra við þess vegna.

Eitt mikilvægasta verkefni samtímans er að ná tökum á loftslagsvandanum og búa svo í haginn að hægt sé að svara orkueftirspurn framtíðarinnar sem mest með orku sem unnt er að nýta á sjálfbæran hátt. Vilja Íslendingar verða olíuþjóð og eiga þar með á hættu að missa sérstöðuna sem við höfum skapað okkur í orkumálum?

Mengun og áhætta fyrir lífríki

Fleiri ástæður eru til þess að fara varlega við olíuborun á norðurslóðum. Þar eru sérstaklega mikilvæg varúðarsjónarmið í ljósi þeirra hagsmuna sem Ísland á varðandi lífríki og hreinleika hafsins. Aðstæður eru erfiðar, þar sem ógn stafar af hafís og óblíðu veðurfari. Slysið í Mexíkóflóa árið 2010, þegar olía lak stjórnlaust úr lind neðansjávar í þrjá mánuði, er mönnum í fersku minni. Sambærilegt slys á norðurslóðum hefði enn alvarlegri afleiðingar. Lífríkið er viðkvæmara og veruleg hætta er á að olían mengi hafís, sem myndi dreifa henni víða og lengi.

Ekki þarf að fjölyrða um nauðsyn þess að fyrirbyggja slík slys í hafinu við Ísland. Lífríki hafsins er helsta fjöregg okkar Íslendinga og olíuslys myndi greiða okkur gríðarlegt högg. Ef boranir verða í augsýn eftir einhver ár eða áratugi þarf að stórefla viðbúnað hér til að tryggja eins og hægt er að þær valdi ekki tjóni.

Heilbrigður vöxtur reynist best

Brýnt er að huga vel að umhverfismálum áður en borað er eftir olíu við Íslandsstrendur. Það er líka ástæða til að minna á að stórbrotin áform eru eitt og varanleg velferð annað. Auðvelt er að vera ginnkeyptur fyrir skyndilausnum í risapakkningum. Um þetta eru dæmin mörg. Hröð uppbygging stóriðju á árunum fyrir hrun skapaði einhver störf, en með miklum kostnaði fyrir umhverfið og gífurlegri skuldsetningu orkufyrirtækja, sem enn kemur niður á sveitarfélögum og almenningi.

Á Íslandi er uppbygging. Uppbygging eftir hrun sýnir að vel er hægt að ná viðspyrnu án stórkarlalegra og skuldsettra framkvæmda af því tagi. Hún er ekki tilkomin vegna þess að við höfum hitt á einhverja töfralausn til að taka við af bankabólunni. Þúsundir Íslendinga hafa lagt sitt af mörkum með því að finna og nýta sér tækifæri í ferðaþjónustu, hugbúnaðargerð, fiskeldi, skapandi greinum og fjölmörgum öðrum atvinnugreinum. Þetta fólk hefur fundið sér viðspyrnu í efnahagslegum endurreisnaraðgerðum stjórnvalda eftir hrunið, sem sannarlega er ekki að fullu lokið. Atvinnuleysi fer minnkandi og grænum vaxtarsprotum fjölgar.

Heilbrigður vöxtur á fjölbreyttum grunni hefur alltaf reynst affarasælli en skyndilausnirnar.

Grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra sem birtist í DV 17. desember 2012.
Ljósmynd: Svandís Svavarsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra á Alþingi. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Birt:
19. desember 2012
Tilvitnun:
Svandís Svavarsdóttir „Viljum við vera olíuþjóð?“, Náttúran.is: 19. desember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/12/19/viljum-vid-vera-oliuthjod/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: