Helstu staðreyndir um koffín

Koffín er náttúrulegt örvandi efni sem finnst í fræjum kaffiplöntunnar. Efnið finnst einnig í um það bil 60 öðrum plöntutegundum, t.d. í telaufi, kakóbaunum, gúaranakjörnum og kólahnetum og er því í afurðum sem unnar eru úr þessum jurtum. Koffín er ekki einungis notað í framleiðslu á drykkjarvörum eins og kóladrykkjum og orkudrykkjum heldur er það oft sett í fæðubótarefni. Loks er það í ýmsum lyfjum, til dæmis lyfjum við mígreni.

Koffín hefur margvísleg áhrif en innan “skynsamlegra marka” verkar það fyrst og fremst örvandi á líkamann gegnum miðtaugakerfið. Það verkar örvandi á blóðrásina enda er aðallega sóst eftir þeim áhrifum. Æðarnar víkka út, hjartsláttur verður tíðari og því eykst blóðflæði til allra líffæra. Koffín virkar einnig á öndunarmiðstöðvar líkamans – andardráttur verður örari – æðar í lungnapípum víkka og þvagmyndun eykst. Önnur vel þekkt áhrif eru aukinn efnaskiptahraði og aukin myndun á magasýrum og adrenalíni. Stór skammtur af koffíni getur haft ýmisleg óþægileg áhrif t.d. skjálfta, hjartsláttartruflanir, jafnvel kvíðatilfinningu, einnig svima og höfuðverk.

Vitað er að fólk bregst misjafnlega við áhrifum koffíns og er misjafnlega viðkvæmt fyrir þeim. Lítill skammtur af koffíni getur valdið magaverkjum og svefntruflunum hjá einum á meðan aðrir þola koffín í stórum stíl.

Rannsóknir á langtímaáhrifum koffíns á heilbrigða fullorðna einstaklinga benda til þess að hófleg neysla (innan við 400mg á dag) sé óskaðleg fyrir heilsuna. Langtíma koffínneysla, meira en 400mg á dag (samsvarar um þremur kaffibollum) eykur hættu á skaðsemi.

Vegna hinnar almennu neyslu á drykkjum sem innihalda hátt magn koffíns og þá sérstaklega á svokölluðum orkudrykkjum sendi Vísindanefnd Evrópusambandsins um matvæli, frá sér álit um koffín og ýmis önnur efni í orkudrykkjum. Í álitinu kom fram að ólíklegt væri að neysla á orkudrykkjum þyrfti að vera áhyggjuefni ef um fullorðna væri að ræða og miðað væri við neyslutölur en bent var sértaklega á hættu þessara drykkja fyrir börn og barnshafandi konur.
Birt:
10. apríl 2007
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Koffín“, Náttúran.is: 10. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/04/10/koffn/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 17. júlí 2008

Skilaboð: