Vottunarstofan Tún var sett á laggirnar árið 1994 en starfsmenn hennar annast meðal annars eftirlit með lífrænni framleiðslu. Vottun Túns er viðurkennd hér á landi sem/og á erlendum vettvangi en Gunnar Á. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Túns, skýrði frá markmiðum og reglum lífrænna aðferða.

Lífræna aðferðin felst í því að framleiða og rækta afurðir þannig að lífríkið styrkist, möguleikar á endurnýtingu verði sem mestir, neysla vörunnar hafi jákvæð áhrif á heilsufar neytandans og úrgangur falli á ný inn í umhverfið án þess að valda mengun.

„Vottun lífrænna afurða hérlendis fylgir í meginatriðum reglum Evrópusambandsins, og þar með þeim reglum sem unnið er eftir í V-Evrópu og á Norðurlöndunum. Reglur Evrópusambandsins voru formlega teknar upp á Íslandi árið 2002 en höfðu í reynd verið notaðar hér áður. Þær ná til landbúnaðarframleiðslu í flestum greinum en þó ekki til fiskeldis og ýmissa greina náttúruvöruframleiðslu,“ útskýrir Gunnar.

Aðstæður á hverju býli skipta máli
„Í stórum dráttum er vottað eftir alþjóðlegum stöðlum. Það sem einkennir lífræna framleiðslu er að unnið er í samræmi við fremstu
þekkingu manna á umhverfi og samspili landbúnaðar og vistkerfa. Þar er ekki notaður tilbúinn áburður og eiturefni til varnar skordýrum, sveppum og illgresi. Lífrænn úrgangur er nyþttur í safnhaugamold og skiptiræktun ástunduð, og heilnæmi og frjósemi jarðvegs er í fyrirrúmi. Lögð er mikil áhersla á velferð búfjár, mótstöðuafl þess og heilbrigði er eflt með góðum aðbúnaði og lífrænu fóðri.

Rannsóknir sýna að heilbrigði og frjósemi er að nást og þessar aðferðir eru að skila sér í auknu næringargildi afurðanna,“ segir Gunnar. Í dag eru tiltölulega fáir sem stunda lífræna ræktun hérlendis, enda lítill stuðningur við greinina. Það liggur beinast við að spyrja Gunnar hvort mikil umskipti þurfi til að hefja lífræna ræktun. „Það er ekki hægt að gefa sér að það þurfi mikla breytingu og til dæmis sauðfjár- og nautgriparækt og einnig matjurtarækt standa nokkuð nærri því að geta skipt yfir án mikilla breytinga. Í þessum greinum hefur enn ekki þróast sami stórbúskapur eða þéttleikabúskapur með mikilli efnanotkun og ofurtækni sem við erum að sjá í nágrannalöndunum. Þetta er erfiðara í til dæmis svína- og alifuglarækt og fiskeldi þar sem lengra er í land og kostnaðarsamara að skipta yfir. Þetta fer einnig mikið eftir því hver viðhorf og þekking bóndans eru, því með jákvæðu hugarfari verður lífræn aðlögun búrekstursins öll auðveldari,“ segir Gunnar.

Efri myndin er af lífrænni rauðrófurækt í Skaftholti. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir og neðri myndin er af merki Túns á lífræna ræktun. 

Birt:
28. febrúar 2008
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
Erla Hjördís Gunnarsdóttir „Umskipti ekki alltaf mikil yfir í lífræna ræktun“, Náttúran.is: 28. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/28/umskipti-ekki-alltaf-mikil-yfir-i-lifraena-raektun/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: