Í starfi mínu sem hómópati hef ég oft fengið að verða vitni að því hversu fljótt börn bregðast við hómópatískri meðferð. Þau eru fljót að finna aftur sinn rétta tón ef þau eru minnt á hann og þau eru fljót að komast aftur upp á veginn ef þeim er beint í réttu áttina. Þetta er fyrst og fremst vegna þess að börn eru mjög orkumikil og því yfirleitt miklu fljótari að yfirvinna veikindi en við sem höfum kannski með aldrinum dreift orkunni í allar áttir.

Líkt bætir líkt
Hómópatía byggir á þeirri hugmyndafræði að líkt geti læknað líkt. Efni eða remedía sem í stórum skömmtum veldur einkennum sem eru lík eða eins og þau sem þú finnur fyrir er líkleg í örsmáum skömmtum til að efla líkamann nóg til að hann geti flýtt fyrir eigin bata.  Þannig er remedía búin til úr kaffi notuð við svefnleysi og laukur er notaður við ofnæmisviðbrögðum sem lýsa sér í miklu tárarennsli og nefrennsli.  

Stofngerðir
Í hómópatíu er talað um stofngerð eða “constitution” (hugtakið constitution stendur fyrir bæði líkamsgerð, skaplag og eðli okkar) sem lýsir því hvernig við erum byggð, hvar veikleiki okkar og styrkur liggja og hvernig við erum líkleg til að bregðast við undir álagi. Þessar stofngerðir speglast svo hver um sig í ákveðinni remedíu – sem er þá líkleg til að vera gagnleg ef við förum úr jafnvægi. Stofngerðin kemur skýrast fram hjá börnum og unglingum og hjá fólki sem hefur náð að halda góðu jafnvægi hvað varðar heilsu og orku.  Oft flakka börn á milli tveggja eða fleiri stofngerða eða remedíumynda:  Á mismundandi þroskaskeiðum og í gegn um ýmis áföll og erfiðleika.  Stundum leggst þá önnur mynd ofan á stofngerðina og þá getur verið flóknara að sjá hvað er hvað.

Stutt saga
Til að gefa betri mynd af því hvernig hómópati vinnur ætla ég að byrja á því að segja frá einni lítilli 4 ára stelpu sem kom til mín fyrir nokkru síðan.  Það sem mamma hennar vildi fá í lag var krónískt stíflað nef og eyrnamergur sem þurfti að hreinsa út á hverjum degi.  Ég tók hins vegar eftir því þegar hún kom í fyrsta sinn að hún var eins og límd við mömmu sína og vildi helst ekkert við mig tala. Hún var til í að leika sér að kubbunum mínum aðeins ef mamma hennar sat alveg hjá henni og helst á milli mín og hennar.  Mamma hennar sagði að þetta væri dæmigerð hegðun hjá henni; í kirkjustarfi lék hún ekki með hinum krökkunum nema límd við mömmu sína og í leikskólanum var hún mjög mikið ein og blandaði lítið geði við hina krakkana. Ég gaf henni remedíu sem speglaði bæði þetta hegðunarmynstur hennar að vera svona háð mömmu sinni og mikla slímmyndun í nefi auk annarra einkenna sem mamma hennar lýsti fyrir mér.  

Mánuði seinna
Hún kom aftur eftir mánuð og þá mætti mér alveg nýtt barn. Hún gekk á móti mér og spurði hvort hún mætti fá kubbana mína lánaða, leyfði mér að lyfta sér upp á bekkinn minn og svo dundaði hún sér á meðan við mamma hennar ræddum saman. Mamma hennar sagði að þessi breyting hefði verið mjög skýr á öllum sviðum.  Í kirkjustarfinu hljóp hún nú með hinum krökkunum, áhyggjulaus að sjá og í leikskólanum var hún meiri þátttakandi í öllu starfi og gaf sig meiraðsegja að hinum foreldrunum þannig að þeir höfðu líka orð á þessari breytingu sem hafði orðið á henni.  Lítil breyting var hins vegar á nefi og eyrum en þó aðeins. Þetta hljómar kannski dálítið eins og kraftaverk. Ég tek það fram að það er ekki alltaf sem við sjáum svona afgerandi breytingar. Ég vil alls ekki vekja tálvonir hjá foreldrum sem eru að glíma við veikindi eða erfiðleika hjá börnunum sínum.  Oft gerast breytingarnar líka hægt og á meira falinn hátt en í þessu tilfelli.  En allir hómópatar kannast við svona sögur.  Og það er rétt að taka það fram að það hafði ekki orðið nein önnur breyting á högum stúlkunnar sem gat skýrt þessi stakkaskipti.  

Líkaminn forgangsraðar á eigin forsendum
Ég hitti þessa litlu stúlku einu sinni í mánuði í eina 8-9 mánuði og hún hélt áfram að taka skýrum framförum í þroska og félagslegri hegðun. Nefrennslið og eyrnamergurinn sem í upphafi varð að hreinsa út í stórum skömmtum á hverjum degi smáminnkuðu á þessum tíma og að lokum virtist það ekki vera vandamál lengur. Þetta var þó það síðasta til að lagast.  Þannig virkar líkaminn eða þetta heildarvistkerfi sem manneskjan er; fyrst þegar orkan eykst þá byrjum við á að laga það sem mestu máli skiptir og smám saman náum við að taka til alls staðar.  En í réttri forgangsröð miðað við hvað skiptir mestu máli til að lifa af.    

Læknir læknaðu sjálfan þig
Hómópatía er mjög mild aðferð sem hefur þó ótrúlega öflug áhrif ef hún hittir í mark.  Hún á einmitt að ýta við líkamanum svo lífskrafturinn í okkur finni sjálfur leið til að leiðrétta skekkjuna. Samkvæmt vestrænni læknisfræði myndi það kannski teljast ónákvæmt eða óvísindalegt að tala um lífsorku eða lækningamátt líkamans. Þetta er hugtak sem virðist ekki enn eiga hljómgrunn í vestrænum læknavísindum. Í hugmyndafræði annarra menningarsamfélaga þar sem fjallað er um heilsurækt og lækningar af ýmsum toga er yfirleitt til hugtak sem lýsir þessari grunnlífsorku mannsins; í indverskri ayurvedameðferð er talað um prana og í kínverskum náttúrulækningum er það kallað chi og hefur því höfuðhlutverki að gegna að halda orkuflæði líkamans gangandi. Heildræn meðferðarform eins og hómópatía, nálastungur og ayurvedísk meðferð byggja fyrst og fremst á því að styrkja heildina, efla orku mannsins í því skyni að líkaminn finni leið til að lækna sig sjálfur.  Hómópatía byggir á að skoða heildina frekar en hluta af heildinni.  Hún gerir alltaf ráð fyrir að líkamleg veikindi eigi sér andleg einkenni og að andlegir kvillar eigi sér líkamleg einkenni.  Þannig er manneskjan alltaf skoðuð í heild sinni og öll einkenni hennar eru séð sem leið líkamans til að finna jafnvægi og bata. Í dæminu hér að ofan kemur þessi hugmyndafræði skýrt fram í verki.

Meginstofngerðirnar
Meginstofngerðirnar eru nokkrar og ber ekki öllum saman um hvar eigi að draga línuna milli þeirra og annarra algengra remedía. Við tölum um að barn sé Sulphur eða Lycopodium þó að auðvitað séu lýsingarnar sem fylgja remedíunni ekki lýsing á ákveðnu barni heldur eins konar leiðarljós sem hjálpar okkur að greina eina stofngerð eða remedíu frá annarri.      

Að skilja betur barnið sitt
Það getur komið sér ágætlega fyrir foreldra að þekkja stofngerð barnsins síns.  Hún getur hjálpað okkur að skilja betur hvar veikleiki barnsins liggur og hvernig við getum sem best hjálpað og leiðbeint barninu að nýta sem best þann styrk sem í því býr. Við hómópatíska meðhöndlun næst bestur árangur ef við skoðum heildina og styrkjum stofngerð barnsins. Í því skyni ráðlegg ég fólki eindregið að leita til hómópata sem lært hefur fagið til að fá aðstoð við greiningu og meðhöndlun. Hins vegar geta foreldrar lært að þekkja þær remedíur sem líklegt er að barnið þurfi ef það veikist t.d. af flensu, eyrnabólgu eða öðrum tímabundnum kvillum.  
Hér á eftir fer lýsing á tveimur stofngerðum barna. Calcarea Carbonica og Sulphur.  Eins og sjá má á lýsingunum eru þetta afar ólíkir einstaklingar sem eiga þó eitthvað sameiginlegt.  

Calcarea Carbonica
Calc-carb er gagnleg fyrir börn sem vaxa eða þroskast hægt; eru lengi að taka tennur, tala seint eða fara seint að ganga.  Þetta eru börn sem vilja melta hlutina og fá að gera þá á eigin hraða.  Þau hafa oft lítið mótstöðuafl gegn sýkingum, fá tíðar eitlabólgur, kvef, eyrnabólgur og öndunarfærasýkingar.  

Glaðlynd, skapgóð og hlédræg
Calc-carb börn eru venjulega mjög glaðlynd, skapgóð og auðveld í samskiptum við þá sem þau þekkja.  Þau eru oft frekar þybbin, með bústnar rauðar kinnar.  Stundum eiga þau erfitt með að melta mjólk og geta lést af þeim sökum. Þau eru oft með stórt höfuð sem svitnar auðveldlega og það er oft súr lykt af svitanum.
Þau skortir úthald og eru ekki eins virk í leik og önnur börn. Þau eru oft hlédræg, sérstaklega innan um ókunnuga og frekar illa við breytingar.  Þetta endurspeglar fyrst og fremst þörf Calc-carb einstaklinga til að melta og átta sig á hlutum á eigin hraða.        

Ótti og þrjóska
Calc-carb börn geta verið hrædd við alla skapaða hluti.  Þau eiga það til að vakna um miðja nótt með martröð og fullyrða að það sé skrímsli undir rúminu. Þau hafa oft mikinn áhuga á yfirnáttúrulegum hlutum og geta verið afar draughrædd. Ógnvekjandi bíómynd eða óvænt áfall getur setið í þeim árum saman eða þar til þau fá skammt af Calc-carb.
Þau eru ákaflega viðkvæm fyrir gagnrýni en fara þó ekki í vörn eða mótmæla.  Þau draga sig frekar inn í skel og neita að reyna aftur seinna. Annað einkenni á Calc-carb börnum er þrjóska.  Þeim verður yfirleitt seint haggað ef þau hafa bitið eitthvað í sig.  Þessi þrjóska á oft rætur sínar að rekja til áðurnefnds óöryggis og til þessarar þarfar fyrir að fá að gera hlutina á eigin hraða. Og þau geta átt það til að fá heiftarleg skapköst.  
Þessi börn eru oft sólgin í egg og svo alls kyns kolvetni, eins og pasta og sætindi.  Þau geta átt það til að fitna auðveldlega.

Charlie Brown
Ég get nefnt dæmi um lítinn strák sem kom fyrst til mín fyrir nokkrum árum með ýmis umkvörtunarefni. Eitt af þeim var krónískt kvef og annað var martraðir.  Mamma hans kemur til mín nokkuð reglulega í dag og kvartar einstaka sinnum yfir því að hann sé aftur farinn að fá martraðir. Þá gefum við honum aftur Calc-carb og martraðirnar hverfa.
Charlie Brown úr teiknimyndasögunum um Smáfólk er ágætis dæmi um Calc-carb persónuleika. Ástríkur og ljúfur, dálítið einfaldur og alltaf svolítið seinn að taka við sér, hissa á hávaðanum og erilsseminni í öðrum börnum og á illskunni sem getur einkennt þennan heim.  

Sulphur

Sulphur börn eru venjulega mjög heitfeng, segja að hlý föt séu eitthvað til að fara í þegar mömmu þinni er kalt og stinga heitum iljum undan sænginni eða kasta henni alveg af sér á nóttunni.  Þetta hitaþema birtist líka á fleiri sviðum. Sulphur börn sækja í sterkan mat eins og pizzu með pepperoni og eru afhuga mat sem er bragðdaufur eins og soðið grænmeti og egg.

Forvitni og fyrirferð

Þessi börn eru gædd óslökkvandi forvitni og vilja stöðugt hafa eitthvað fyrir stafni.  Þau eru mjög sjálfstæð, vilja alls ekki láta hefta sig og reyna að sjá til þess að þau séu stöðugt miðpunktur athyglinnar.  Sulphur börn skortir yfirleitt ekki sjálfstraust og eru mjög oft leiðtogar. Þau eru yfirleitt hugmyndarík, geta fundið upp flóknustu leiki og breytt reglunum ef það hentar þeim. Oftast eru þetta ánægðir og glaðir einstaklingar, óhræddir við nýjar aðstæður og með óvenju mikla orku svo fullorðna fólkið á fullt í fangi með að halda í við þau og er sífellt að reyna að lækka niður í hávaðaseggnum. Þarna geta mörkin verið óljós – hvenær er offramboð af orku komið úr böndunum? Og Sulphur getur líka verið gagnleg remedía við ofvirkni. En þar koma líka fleiri remedíur til greina.  

Óreiða og hroki
Óreiða er annar eiginleiki sem fylgir sulphur-einstaklingum. Þeim er alveg sama um hvernig þeir líta út og herbergið þeirra er iðulega á hvolfi. Sulphur krakkar eru safnarar og afar illa við að henda hlutum. Þrátt fyrir alla þessa orku geta Sulphur börn líka verið mjög löt og sömuleiðis óþreytandi í að koma sér undan skyldum sínum og jafnvel koma þeim yfir á önnur systkini. Sulphur einstaklingi finnst hann stundum yfir það hafinn að sinna venjulegri tiltekt eða öðru álíka hversdagslegu. Hann er önnum kafinn við mikilvægari verkefni.

Denni Dæmalausi
Líkamlegir kvillar sem hrjá Sulphur krakka tengjast oft húðinni. Roði, kláði, hiti, sviði í húðinni getur birst sem exem, útbrot, psoriasis eða bólur.  Yfirleitt gerir ull, baðvatn og hvers kyns hiti eins og heit sæng bara illt verra. Niðurgangur, sérstaklega snemma morguns og rauður bleyjurass hjá ungbörnum.
Ég sá nýlega mynd gerða eftir teiknimyndasögunum um Denna Dæmalausa.  Hann var tvímælalaust gott dæmi um Sulphur strák.  

Niðurlag

Þessi tilraun til að lýsa stofngerðum Sulphur og Calc carb er ekki tæmandi listi heldur aðeins gróf skyssa. Í næstu tölublöðum Uppeldis verður reynt að bregða upp mynd af fleiri stofngerðum. Auk þess bendi ég á fjöldann af bókum sem hafa verið skrifaðar um hómópatíu. 
Birt:
25. febrúar 2009
Höfundur:
Guðrún Arnalds
Uppruni:
Andartak
Tilvitnun:
Guðrún Arnalds „Hómopatía og stofngerðir barna“, Náttúran.is: 25. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/25/homopatia-og-stofngeroir-barna/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: