Talið er að 30% af neysluúrgangi heimila séu matarleifar sem hægt er að jarðgera, en það er loftháð og líffræðileg ummyndun á lífrænum úrgangi. Þannig verður til jarðvegsbætir (molta) með mjög hátt áburðargildi sem hægt er að nota til ræktunar og uppgræðslu.

Nýverið tók Gámaþjónustan hf í notkun nýja jarðgerðarstöð að Berghellu 1 í Hafnarfirði. Stöðin byggir á tækni sem hefur verið að ryðja sér rúms erlendis og gengur út á að jarðgera lífrænan úrgang í stórum lokuðum gámum. Jarðgerðinni er stjórnað af iðnaðartölvum sem fá boð frá nemum sem er komið fyrir í gámnum. Nemarnir nema hitastig og súrefnismettun. Tölvan stýrir síðan loftflæði til gámsins út frá þeim upplýsingum sem tölvunni berast með reglubundnu millibili. Ferlið við jarðgerðina tekur átta til tíu vikur. Fyrstu tvær vikurnar er hið lífræna efni í gámum, þar sem ýmiss útvermin efnaferli hækka hitann og er gert ráð fyrir að hitinn fari í uþb 60-65°C í nokkra daga. Með því er tryggt að óæskilegir gerlar hafi verið drepnir. Eftir tvær til fjórar vikur í gámnum er efnið umhlaðið í aðra gáma til að fá áframhaldandi niðurbrot með aukinni loftun. Eftir fjórar til sex vikur er efnið (jarðvegsbætirinn eða moltan) tilbúið fyrir sigtun og hreinsun. Efni sem er sigtað frá er notað aftur í jarðgerðarferlið.

Þessi aðferð hefur marga kosti fram yfir eldri aðferðir svo sem að jarðgera í múgum, en íslenskt veður stóð þeirri aðferð að nokkru fyrir þrifum. Þessi nýja aðferð tryggir ábyrgan endurvinnslufarveg fyrir lífrænan úrgang jafnt sumar sem vetur. Aðal hráefni til jarðgerðarinnar eru grænmetis og ávaxtaafgangar frá verslunum, garðaúrgangur frá heimilum, jólatré og síðast en ekki síst lífrænn úrgangur frá skólum og leikskólum. Þetta er stórt framfaraskref í endurvinnslu og til mikilla hagsbóta fyrir náttúru landsins.

Birt:
18. júlí 2008
Höfundur:
Gámaþjónustan
Tilvitnun:
Gámaþjónustan „Ný jarðgerðarstöð Gámaþjónustunnar hf“, Náttúran.is: 18. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/18/ny-jarogeroarstoo-gamathjonustunnar-hf/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 23. júlí 2008

Skilaboð: