Nokkrar þjóðir helga valda daga orkusparnaði. Fyrirtæki, stofnanir og heimili gera ýmislegt þá daga til að vekja athygli á aðferðum til að draga úr orkueysðlu. Ítalir leggja sig fram þennan dag og í haust munu Bretar tileinka orkusparnaði heila viku.

Ítalir halda í ár upp á Orkusparnaðardaginn föstudaginn 15. febrúar. Markmið þeirra með deginum er að vekja athygli almennings á umhverfis- og orkumálum, sporna við hlýnun jarðar, fræða um umhverfismál og efla almenning til þátttöku og aðgerða í umhverfisvernd. Á Orkusparnaðardeginum árið 2007 var slökkt á ljósum sem lýsa upp nokkur helstu minnismerki Ítala og þúsundir veitingahúsaeigenda kveiktu á kertum og buðu upp á kvöldverði sem krefjast lítillar orku við matreiðslu. Sum hver borgaryfirvöld héldu fundi án rafljósa, margir skólar drógu úr orkunotkun og verslanir dempuðu lýsingu í sýningargluggum auk þess sem fjöldi fólks lagði sitt af mörkum með því að nota fremur eigin orku en keypta. Orkusparnaður Ítala þennan dag árið 2007 jafnaðist á við eins dags orkunotkun í milljón íbúa borg. Norðurlandaráð hefur einnig beint sjónum að orkusparnaði því hann er þema náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs árið 2008.

Sjá nánar á vef Reykjavíkurborgar.

Mynd og frétt frá Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar.
Birt:
13. febrúar 2008
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Góður dagur til að spara orku“, Náttúran.is: 13. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/13/goour-dagur-til-ao-spara-orku/ [Skoðað:16. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: