Þrír Norðlenskir bændur og fyrirtæki fá vottun á lífræna framleiðslu og náttúrunytjar.

Föstudaginn 17. október voru afhent á Akureyri vottorð Vottunarstofunnar Túns til þriggja Norðlenskra framleiðenda um að þeir uppfylli alþjóðlegar kröfur um lífrænar aðferðir og sjálfbærar náttúrunytjar.

Vottun hlutu bændur á Finnastöðum í Eyjafjarðarsveit sem stunda blandaðan búskap, bændur á Höfnum á Skaga sem safna æðardún og vinna úr honum, og Urtasmiðjan á Svalbarðsströnd sem safnar villtum íslenskum plöntum.

Með vottun þessari bætast þrjú sveitarfélög, Eyjafjarðarsveit, Skagabyggð og Svalbarðsstrandarhreppur, í hóp þeirra 26 sveitarfélaga þar sem vottuð sjálfbær og lífræn framleiðsla hefur þegar náð fótfestu.

Með vottun Túns er staðfest að nytjaland og bústofn Finnastaða og söfnunarsvæði Urtasmiðjunnar uppfylla alþjóðlegar kröfur um lífrænar aðferðir, og að dúntekja og dúnvinnsla á Höfnum sé í samræmi við reglur Túns um sjálfbæra nýtingu og meðferð náttúruafurða.

Á Finnastöðum í Eyjafjarðarsveit  stunda Gunnbjörn Rúnar Ketilsson og Indíana Ósk Magnúsdóttir blandaðan búskap. Megin áhersla er lögð á nautgriparækt og mjólkurframleiðslu, en auk þess eggjaframleiðslu. Á jörðinni er talsverð ræktun á korni, þ.e. byggi, höfrum og hveiti, einkum til fóðrunar búfjár. Allt land jarðarinnar, ásamt nautgripum og varphænum, er nú vottað í lífrænni aðlögun. Sjá Finnastaði hér á grænum síðum.

Á Höfnum á Skaga stunda Helga Ingimarsdóttir og Vignir Sveinsson dúntekju og vinnslu á æðardún undir vörumerkinu „Úr hreiðri í sæng“. Dúntekja í æðarvörpum er forn íslenskur hlunnindabúskapur, en með vottun hennar er staðfest að umgengni um varplandið, aðbúnaður hinna villtu fugla og meðferð dúnsins uppfyllir kröfur um sjálfbæra nýtingu og tillit til náttúrulegra þarfa æðarfuglsins. Æðardúnn er hagnýttur til framleiðslu á sængum og skjólflíkum og er einnig verðmæt útflutningsafurð. Sjá „Úr hreiðri í sæng“ hér á grænum síðum.

Urtasmiðjan á Svalbarðsströnd, sem Gígja Kjartansdóttir rekur ásamt eiginmanni sínum Roari Kvam, hagný tir villtar íslenskar plöntur til framleiðslu á ýmsum snyrti- og heilsuvörum. Meðal þeirra má nefna Blágresi, Blóðberg, Vallhumal og Ætihvönn, sem Íslendingar hafa að fornu og nýju notað með margvíslegum hætti sér til heilsubóta. Vottunin tryggir að meðferð lands og nytjastofna sé í samræmi við kröfur um sjálfbæra nýtingu. Sjá Urtasmiðjuna hér á grænum síðum.

Lífræn framleiðsla, söfnun villtra plantna og annarra náttúruafurða
Nú eru yfir 18.000 hektarar lands vottaðir hér á landi til lífrænnar ræktunar og söfnunar villtra plantna. Um 60 aðilar stunda vottaða lífræna ræktun, vinnslu lífrænna hráefna og söfnun náttúruafurða, og framleiða þessir aðilar nokkur hundruð tegundir vottaðra afurða fyrir markað hérlendis og til útflutnings.

Vottaðar lífrænar afurðir og náttúruafurðir hafa þá sérstöðu á markaði að allur ferill þeirra, frá ræktun eða söfnun hráefna, til pökkunar í neytendaumbúðir, er undir eftirliti óháðs aðila, þ.e. vottunarstofu sem fylgist með því að uppruni og meðferð afurðanna sé í samræmi við alþjóðlegar kröfur um lífræna framleiðslu og reglur Túns um sjálfbæra nýtingu náttúruafurða.

Vottunarstofan Tún hóf vottun lífrænna afurða á Íslandi árið 1996 og í Færeyjun árið 2006. Síðan þá hafa 76 bændur og fyrirtæki hlotið vottun. Auk þess vottar Tún nú framleiðslu sex fyrirtækja á náttúruvörum og aðföngum til lífrænnar framleiðslu.

Sjá alla lífrænu vottunarflokka Túns hér á grænum síðum. Undir hverjum flokki má finna þá aðila sem stunda tiltekinn búskap/framleiðslu.

Nánari upplýsingar um vottun lífrænna afurða: Vottunarstofan Tún ehf., Gunnar Á. Gunnarsson, framkvæmdastjóri, Laugavegi 7, 101 Reykjavík, 511 1330 og  820 4130, tun@tun.is.

Birt:
20. október 2008
Tilvitnun:
Gunnar Á. Gunnarsson „Lífræn/sjálfbær framleiðsla breiðist út“, Náttúran.is: 20. október 2008 URL: http://nature.is/d/2008/10/20/lifraensjalfbaer-framleiosla-breioist-ut/ [Skoðað:18. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: