Dagana 21. - 31. júli verða haldnir Fjölskyldudagar Íslandsvina við Snæfell.
Tilgangur daganna er að gefa fólki kost á að upplifa stórkostlega náttúru Kárahnjúkasvæðisins fyrir þann tíma sem áformað er að fylla Hálslón.
Fjölskyldudagarnir hefjast með dagsferð um svæðið sem fer undir vatn þegar/ef Hálslón verður fyllt. Skipuleggjandi göngunnar er Ásta Arnardóttir en hún er löngu þjóðkunn fyrir skipulagðar ferðir sínar um Kárahnjúkasvæðið. Gist verður eina nótt við Töfrafoss og komið til baka að Snæfelli að kveldi 22. júlí. Gönguhópnum gefst kostur að sjá alla fegurstu staði Kringilsárrana og aðrar náttúruperlur í bráðri hættu. Þetta er því einstakt tækifæri fyrir alla þá sem ekki hafa tök á að ferðast um svæðið einir síns liðs en þrá að sjá landið sem er í hættu. Þátttaka í göngunni er ókeypis, en fólk er beðið að hafa með sér mat. Gangan er fyrir alla aldurshópa.

Dagarnir við Snæfell eru ætlaðir fyrir alla fjölskylduna. Þar verða ýmis umhverfis- og náttúruverndarsamtök með aðstöðu í upplýsingatjaldi og geta gestir kynnt sér áhrif stóriðju á samfélag og umhverfi. Ýmsir góðir gestir, bæði tónlistarmenn og fræðimenn, munu heiðra fólk með nærveru sinni meðan á dögunum stendur. Efnt verður til ljóðasamkeppni barna og boðið verður upp á létta fyrirlestra og stuttar gönguferðir auk sköpun umhverfislistaverks svo eitthvað sé nefnt.

Miðhálendi Íslands er stærsta ósnortna landsvæði í Evrópu og náttúrugersemi á heimsmælikvarða. Enginn Íslandsvinur ætti að missa af þeirri stórkostlegu upplifun að berja þessar náttúruperlur augum. Með fjölskyldubúðum Íslandsvina gefst nú öllum kostur á að dvelja á miðhálendinu, njóta, fræðast, ganga um svæðið, komast í nálægð við hreindýr, sjá og upplifa.

Keyrt er frá Lagarfljóti í átt að Kárahnjúkum um veg 910. Þegar komið er langleiðina að Kárahnjúkum er beygt til vinstri um veg 909 í átt að Snæfelli.
Staðsetning: Tjaldstæði við Snæfellsskála.

Myndin er af Kárahnjúkum. Ljómynd: Jón Ísberg.

Birt:
8. júlí 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Fjölskyldudagar Íslandsvina“, Náttúran.is: 8. júlí 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/20/fjolskyldud_islandsvina/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. mars 2007
breytt: 11. maí 2007

Skilaboð: