Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um tillögu Alcoa á Íslandi um að matsáætlun vegna álvers á Bakka við Húsavíkk Norðurþingi. Fallist er á tillöguna með athugasemdum.

Helstu athugasemdir eru um orkuöflun og flutning orku og fara þær helstu hér á eftir:

[…]
Skipulag og leyfi
Í kafla 4.2 í tillögu að matsáætlun er fjallað um leyfi og lagaskilyrði.  Fram kemur að stefnt sé að því að samhliða mati á umhverfisáhrifum verði unnið að starfsleyfi álversins í samráði við Umhverfisstofnun, að því gefnu að Skipulagsstofnun fallist á þessa tilhögun. 
Skipulagsstofnun fellst á og hvetur til þeirrar tilhögunar að tillaga að starfsleyfi verði unnin samhliða mati á umhverfisáhrifum og að drögin verði birt í frummatsskýrslu.
[…]
Umfang og áherslur mats á umhverfisáhrifum
Útblástur.  Í kafla 5.2.1 í tillögu að matsáætlun er fjallað um útblástur frá fyrirhuguðu álveri Alcoa á Bakka.  Fram kemur að gerð verði grein fyrir útreikningum á dreifingu brennisteinsdíoxíðs, loftkennds flúors (HF), svifryks (PM 10) og vokvetniskolefnis (B(a)P). 
Skipulagsstofnun bendir á að í frummatsskýrslu þarf að greina frá dreifingu fyrrgreindra mengunarefna eftir hreinsun útblásturs, þ.e. þurrhreinsun eingöngu sem og þurrhreinsun að viðbættri vothreinsun.  Koma þarf fram hvernig dreifing mengunarefnanna fellur að tölusettum viðmiðunargildum í reglugerðum fyrir skammtíma- og langtímagildi.

Vöktun. 
Í kafla 6.1 í tillögu að matsáætlun er fjallað um fyrirhugaðar bakgrunns- og vöktunarrannsóknir.  Skipulagsstofnun telur að í frummatsskýrslu skuli gera grein fyrir tilllögu að sýnatökustöðum vegna vöktunar og bakgrunnsrannsókna.  Jafnframt telur Skipulagsstofnun að þegar birtar verða spár um umhverfisáhrif þá verði notast við þá reynslu sem fengist hefur af rekstri Fjarðaáls.  Ekki síst ef tiltækar eru beinar mælingar og upplýsingar sem fengist hafa af vöktun umhverfisáhrifa.  Slík gögn eru mikils virði til að sannreyna spár um umhverfisáhrif.

Þjóðhagsleg áhrif framkvæmdanna. 
Í kafla 5.2.5 í tillögu að matsáætlun er fjallað um samfélagsleg áhrif.  Fram kemur að þjóðhagsleg áhrif byggingar og rekstrar verði metin. 
Skipulagsstofnun telur að þar sem að í 3. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum er tiltekið að þjóðhagsleg áhrif og arðsemi einstakra framkvæmda séu ekki umhverfisáhrif í skilningi laganna þá skuli ekki fjalla um þjóðhagsleg áhrif í frummatsskýrslu. 
[…]
Tengdar framkvæmdir.   Í kafla 4.3.5 á bls. 13 í tillögu að matsáætlun kemur fram að orkuþörf sé 3.650 - 5.050 GWh/ári.  Skipulagsstofnun bendir á að í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir hversu mikla orku talið er að unnt verði að fá frá jarðvarmavirkjunum í Þingeyjarsýslum og hvað sú orka dugi fyrir mikilli álframleiðslu á ári.  Jafnframt telur Skipulagsstofnun að fram þurfi að koma, eftir því sem kunnugt er, hvaða aðrir virkjanakostir komi til greina vegna álversins og hversu mikil orka er til staðar í raforkukerfinu sem gæti ný st álverinu.  Jafnframt telur Skipulagsstofnun að í frummatsskýrslu þurfi að gera grein fyrir hvort orkuöflun hefur í för með sér framkvæmdir sem falla undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, hverjar þær framkvæmdir eru og hvenær fyrirhugað er að málsmeðferð vegna þeirra hefjist samkvæmt framangreindum lögum.

Í frummatsskýrslu þurfa að koma fram sem ítarlegastar upplýsingar frá Landsneti um hvort háspennulínur anni flutningi á hugsanlegri orku sem er í orkukerfinu til álvers á Bakka.  Ef svo er ekki þá ber, í frummatsskýrslu, að gera grein fyrir takmörkunum og flöskuhálsum vegna orkuflutnings til álvers á Bakka.

Nálgast má ákvörðunina á vef Skipulagsstofnunnar

Ljósmynd Árni Tryggvason, Raflínur við álverið í Staumsvík

Birt:
27. nóvember 2008
Höfundur:
Einar Bergmundur
Uppruni:
Skipulagsstofnun
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Álver Alcoa á Bakka við Húsavík“, Náttúran.is: 27. nóvember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/11/27/alver-alcoa-bakka-vio-husavik/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: