Náttúruverndaröfl á Suðurlandi eru að taka málin í sínar hendur varðandi framtíð Þjórsár. Það sem hrinti baráttunni af stað er tvímælalaust ákvörðun sveitastjórnar Flóahrepps sem tekin var í byrjun júni sl. en þá tók sveitastjórnin nýjan pól í hæðina varðandi afstöðu til Urriðafossvirkjunar og reiknaði ekki með henni á aðalskipulagi. Breytti síðan um stefnu eftir þrýsting frá Landsvirkjun og kynnti áætlun með og án virkjunarinnar. Í kjölfarið stofnuðu íbúar á svæðinu Sól í Flóa.

Fyrr á árinu hafði öflug barátta átt sér stað ofar við Þjórsá, þá var Sól á Suðurlandi stofnuð og gríðarlega fjölmennir fundir haldnir þar sem ljóst var að andstaðan við virkjanir í neðri hluta Þjórsár eru ekki sjálfsögð breyta fyrir Landsvirkjun.

Það er eins og að náttúruverndarfólk (íbúar á svæðinu og á landinu öllu) hafi áttað sig á að allt snýst þetta um ákvarðanir og að ákvarðanir eru teknar af fólkinu í landinu. Áætlanir um virkjanir eru ekki einkamál einstakra fyrirtækja í orkugeiranum né alfarið á höndum stjórnmálamanna að ákveða örlög fjalla, fljóta og heilu landsvæðanna.

Lþðræðið er endurfætt í Suðurlandi og æ fleiri gera sér grein fyrir því að það hafi raunverulega vald til að taka þátt í mótun umhverfis síns og hanna framtíð sína og barna sinna.

Sólarfélögin eru öll grasrótarsamtök um náttúruvernd á ákveðnum landsvæðum, án félagatals né hefðbundinna félagsstarfa. Sólir fá að brenna og lýsa eins og þáttakendur hverju sinni sjá þörfina fyrir. Sól í Flóa og Sól á Suðurlandi sem stofnað var í kringum verndun Þjórsár fyrir frekari virkjunum hafa staðið fyrir fjölda uppákoma í allt sumar.

Má þar nefna fjölmennan íbúafund í félagsheimilinu Þjórsárverum, útifundi við Urriðafoss, fundi með ráðamönnum, uppsetningu lónshæðarskilta við Þjórsá, heimboð sumarbústaðaeiganda og margt fleira t.d.:

  • 17 Þingmenn úr umhverfis- og iðnaðarnefnd Alþingis var boðið í ferð með náttúruverndarmönnum á Suðurlandi þ. 16. og 17. ágúst. Ferðast var meðfram Þjórsá til að fræðast um virkjanir í ánni.
  • Í gær, föstudag var svo fundur með þingmönnunum ásamt fulltrúum sveitarstjórna, Sólar, náttúruverndarsamtaka og Landsvirkjunar í Árnesi. Að sögn Guðfinns í Skaftholti var það athyglisverður fundur, mikið spurt og svörin komu ýmsum þingmönnum á óvart, t.d. um framsal vatnsréttindanna rétt fyrir kosningar sl. vor.
  • Kynningarbás verður í markaðstjaldi á Töðugjöldum á Hellu frá kl. 8:00 í dag laugardaginn 18. ágúst.
  • Kynningarbás á Menningarnótt fyrir framan Yggdrasil á Skólavörðustíg. Með áletraða boli, bílrúðumiða og plaköt til kynningar
  • Sól í Rangárþingi boðar til fundur andstæðinga virkjana á Hellu fimmtudaginn 23. ágúst.
  • Kynningarbás á útimarkaði við sveitakrána Kríuna í Flóahreppi laugard. 25. ágúst.
Til að lesa meira um einstaka uppákomur sem átt hafa sér stað, skoðaðu þá tengt efni hér til hægri á síðunni!
Birt:
18. ágúst 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Líf í náttúruverndarmálum á Suðurlandi“, Náttúran.is: 18. ágúst 2007 URL: http://nature.is/d/2007/08/18/lf-nttruverndarmlum-suurlandi/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 21. ágúst 2007

Skilaboð: