Evrópusambandið hefur nú ákveðið að banna BPA (Bisphenol-A) í pelum frá og með miðju næsta ári. Mikil umræða hefur verið um efnið en rannsóknir benda til þess að það geti haft óæskileg áhrif á líkamann. Neytendablaðið hefur fjallað um skaðsemi BPA hér og hér

Danmörk, Frakkland. Ástralía og Kanada hafa þegar bannað BPA í pelum auk nokkurra fylkja Bandaríkjanna. Neytendasamtökin sendu yfirvöldum hér á landi erindi í janúar á þessu ári og kröfðust þess að efnið yrði bannað í pelum hér á landi. Svar barst frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti í lok júní. Taldi ráðuneytið rétt að bíða niðurstöðu Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) en Evrópusambandið hafði beðið stofnunina að meta skaðsemi efnisins. Niðurstaða EFSA var sú að efnið væri ekki skaðlegt í mjög litlum mæli en vísaði einnig til þess að lítið væri til af rannsóknum. Voru margir ósáttir við þessa niðurstöðu EFSA og töldu að túlka ætti vafann neytendum í hag.

Neytendasamtök í Evrópu fagna tillögunni sem er mjög mikilvægt fyrsta skref. Camille Hersom formaður dönsku neytendasamtakanna segir að markmiðið sé að öll efni sem hafa hormónaraskandi áhrif líkt og BPA verði bönnuð í neysluvörum. Frumkvæði framkvæmdastjórnarinnar sem lagði fram þessa tillögu í upphafi sé jákvætt en það hljóti að vera lágmarkskrafa að tekin verði upp þau viðmið sem Danir settu fyrstir Evrópuþjóða í mars á þessu ári. Í Danmörku er BPA bannað í pelum og öðrum matarílátum sem ætluð eru ungum börnum. Bann Evrópusambandsins nær eingöngu til pela.

Birt:
28. nóvember 2010
Höfundur:
Neytendasamtökin
Tilvitnun:
Neytendasamtökin „BPA bannað í pelum – ESB grípur til aðgerða“, Náttúran.is: 28. nóvember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/11/28// [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: