100 GrænfáninnFöstudaginn 2. júlí sl. afhenti mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, 100. Grænfánann fyrir hönd Landverndar. Leikskólinn Skýjaborg í Hvalfjarðarsveit, sem verið hefur Skóli á grænni grein síðan í upphafi þessa skólaárs, er 100. skólinn á Íslandi sem hlýtur þessa alþjóðlegu viðurkenningu. Leikskólinn Skýjaborg er nú einn 175 skóla á grænni grein á öllum skólastigum vítt og breitt um landið. Lætur því nærri að 40% allra leik- og grunnskólabarna á Íslandi séu þátttakendur í verkefninu sem er að klára sitt 9. starfsár um þessar mundir. Ef fer sem horfir má þess vænta að skólar á grænni grein verði orðnir 200 á öllu landinu á 10. starfsári verkefnisins, skólaárið 2010-2011.

Landvernd, verandi frjáls félagasamtök, kom verkefninu á koppinn árið 2001. Þá voru einungis 12 grunnskólar sem tóku þátt í því. Verkefnið hefur allar götur síðan notið stuðnings ráðuneyta mennta-, menningar- og umhverfismála.

Á myndinni má sjá Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, aðstoða nemendur í Skýjaborg við að draga sinn fyrsta Grænfána að húni.

Ljósmynd: Helena Óladóttir

Birt:
8. júlí 2010
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Hundraðasti Grænfáninn“, Náttúran.is: 8. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/08/hundradasti-graenfaninn/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. september 2010

Skilaboð: