Óflokkað heimilissorp í Reykjavík dróst saman um 14% fyrstu níu mánuði ársins 2009 í samanburði við árið 2008. Þá hefur magn í grenndargáma og bláu tunnuna (fyrir pappír) dregist saman um helming á tveimur árum.

Meginástæða þessara breytinga er falin í bankahruninu því breytingin verður í október 2008. Minni neysla, betri nýting á mat og minni sóun er stór þáttur í þessari breytingu en matarleifar eru um 22% þess sem fer í sorptunnur heimilanna.

Almennt heimilissorp var til að mynda 2.070.400 kg í september 2007, 2.111.100 í september 2008 og 1.830.140 kg í september 2009. Aftur á móti eru nóvembermánuðir 2008 og 2009 með svipuðu móti.

Magn efnis sem fer í grenndargáma og bláar tunnur hefur einnig dregist saman og er nú svipað og það var árið 2004. Í desember 2007 fóru 350 tonn af dagblöðum, tímaritum og auglýsingabæklingum í grenndargámana. Árið 2009 fást aðeins 150 tonn á mánuði jafnvel þótt nú megi skila fleiri pappírsflokkum í grenndargámana og bláum tunnum hafi verið bætt við.

Í svartar tunnur í Reykjavík fer almennt sorp en þó ekki spilliefni, garðaúrgangur og stórir timbur og málmhlutir. Í bláar tunnur í Reykjavík fer pappír og pappi.

Magn heimilssorps

Pappír og pappi línurit

Birt:
17. desember 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Minna í heimilistunnur en áður“, Náttúran.is: 17. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/17/minna-i-heimilistunnur-en-aour/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: