Sól á Suðurlandi lýsir mikill hneykslun á framferði Samtaka atvinnulífsins,  sem klagar umhverfisráðherra fyrir að vilja skera úr um réttaröryggi almennings í byggðunum við Þjórsá. Og ekki nóg með  það heldur ýja þau að því að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra ætti að víkja Svandísi Svavarsdóttur, úr ráðherrastóli, fyrir að vilja skýra réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingamála í kjölfar harðvítugra deilna milli almennings og sveitarstjórnar í Flóahreppi.

Sól á Suðurlandi minnir á að meirihluti kosningabærra manna í Flóahreppi lagðist gegn Urriðafossvirkjun og margir mótmæltu vinnubrögðum Landsvirkjunar og sveitarstjórnar, sem lofuðu að borga kaldavatnsveitu, gsm-samband og margt fleira færi virkjun inn á skipulag. Leitað hefur verið til Umboðsmanns Alþingis og fleiri opinberra aðila af hálfu fólks sem telur á rétt sinn gengið í undirbúningi skipulags og virkjanaframkvæmda. Umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu  að Landsvirkjun hafi keypt sér skipulag í Flóahreppi.

Það er því ekki að ófyrirsynju sem dómsmál var höfðað. Sól á Suðurlandi hefur hinsvegar aldrei áður orðið vitni að jafnmikilli heift og fordómum og fram hefur komið í garð umhverfisráðherra fyrir að leita skýrrar niðurstöðu í málinu. Aldrei í sögunni hefur verið veist að ráðherra ríkisstjórnar fyrir að vilja fara veg dómstóla eins og réttarríkið býður. Í þessu tilviki, eins og oft áður, dæma virkjanasinnar sjálfir í eigin sök, fyrirfram. Þeir gefa sér nú niðurstöðu Hæstaréttar, með því að segja að það eina sem komi út úr málaferlunum sé kostnaður og tafir á framkvæmdum.

Sól á Suðurlandi mótmælir málflutningi Samtaka atvinnulífsins harðlega og telur að eina ástæðan fyrir viðbrögðum þeirra, sé að þeir hræðist áfrýjunina og niðurstöðu Hæstaréttar. Það er fáheyrt að hafa uppi klögumál og mótmæli fyrir því að fólk geti leitað réttar síns og enn fráleitara að klaga ráðherra fyrir að leita niðurstöðu æðsta dómsstigs í alvarlegu deilumáli sem hefur rofið frið og samstöðu í byggðunum við Þjórsá í mörg ár.

Fyrir hönd Sólar á Suðurlandi.
Guðfinnur Jakobsson, s.4866002

Birt:
11. október 2010
Tilvitnun:
Guðfinnur Jakobsson „Samtök atvinnulífsins gegn leikreglum réttarríkisins“, Náttúran.is: 11. október 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/11/samtok-atvinnulifsins-gegn-leikreglum-rettarrikisi/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 12. október 2010

Skilaboð: