„Reykjanes er einstakur staður á jörðinni því þar má sjá flekaskil milli meginfleka jarðskorpunnar, Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans.  Flekaskilunum fylgir eldvirkni, jarðhitavirkni, sprungur, misgengi og jarðskjálftar og flekarnir fjarlægjast hver annan um tvo sentímetra á ári,“ segir Páll Einarsson, prófessor við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og einn helsti sérfræðingur landsins í jarðskjálftum.

Hann er annar tveggja leiðsögumanna í skoðunarferð sem farin verður um Reykjanes laugardaginn 9. apríl. Ferðin er liður í afmælisdagskrá Verkfræði- og náttúruvísindasviðs í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands.

„Svæðið er stöðugt viðfangsefni vísindamanna, bæði innlendra og erlendra, sem koma til að rannsaka þau ferli sem skapa nýja jarðskorpu á flekaskilum. Í ferðinni á laugardag verður m.a. skoðað þversnið í gegnum eldgíga og gossprungur  og mismunandi gerðir sprungna athugaðar,“ segir Páll og bætir við að meðal annars verði stoppað í Sandvík og á Reykjanestá.

Gunnar Þór Hallgrímsson fuglafræðingur annast leiðsögn ásamt Páli. Gunnar hefur unnið að doktorsverkefni um máfa og tófur á Reykjanesi ásamt því að rannsaka fuglalíf svæðisins fyrir  Náttúrustofu Reykjaness í Sandgerði. „ Á Reykjanesi er eitt fjölbreyttasta fuglalíf á landinu yfir vetrartímann og það er viðkomustaður fjölmargra farfugla á haustin og vorin. Þar eru líka nokkur fuglabjörg þar sem finna má mikinn fjölda sjófugla,“ segir Gunnar og bætir við. „Í ferðinni sjáum við flesta þá vetrargesti sem enn eru til staðar og einnig fyrstu farfuglana, eins og sílamáf og lóu.“

Ferðin er öllum opin og fólki að kostnaðarlausu. Lagt verður af stað kl. 10:00 á laugardagsmorgun frá náttúrufræðahúsinu Öskju við Sturlugötu og má reikna með að ferðin taki ríflega sex klukkustundir. Skráning er í ferðina og eru áhugasamir beðnir um að senda póst á netfangið von@hi.is

Birt:
8. apríl 2011
Höfundur:
Háskóli Íslands
Tilvitnun:
Háskóli Íslands „Jarðfræði og fuglalíf á Reykjanesi “, Náttúran.is: 8. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/07/jardfraedi-og-fuglalif-reykjanesi/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 7. apríl 2011
breytt: 8. apríl 2011

Skilaboð: