Fyrir rétt rúmum þrem árum síðan var haldinn Baráttufundur í Borgarleikhúsinu til að sýna fram á andstöðu stórs hóps landsmanna gegn stóryðju- og virkjanastefnu ríkisstjórnarinnar. Fullt var út úr dyrum á fundinum og fjöldi listamanna og baráttufólks fyrir náttúru landsins kom þar við sögu og sameinaðist í baráttuanda sem var engu líkur. Fundurinn var stórkostleg upplifun og efldi þá trú okkar sem unnu að því að reyna að stoppa Kárahnjúkavirkjun og allar þær hörmungar sem henni myndi fylgja, að við gætum haft áhrif. Flest okkar vildu að þjóðin fengi lengri tíma til að skoða málið og að öllum þeim atriðum sem kalla mátti vafaatriði væri ekki einfaldlega sett í skúffu eða haldið leyndu heldur tekin inn í umræðuna. Það hefur nú sýnt sig að málið var ekki eins þaulhugsað af ríkisstjórn Íslands eins og haldið var fram né heldur fékk þjóðin að taka þátt í ákvörðununum. Það að farið hafi verið af stað með framkvæmdir þrátt fyrir sterka andstöðu var eins og að lenda undir valtara og ég get persónulega lýst því hér yfir að barátttan gegn Kárahnjúkavirkjun er enn í gangi í huga mér og er miklu mikilvægari en sú liststköpun sem líf mitt hefur hingað til snúist um. Þessi vefur er afsprengi þeirrar ástar á landinu og vilja til að gera „eitthvað annað“ en bora hausnum í sandinn og láta stjórnvöld um að gefa tóninn í atvinnusköpunar- og náttúrverndarmálum. Auðvitað var fundurinn í Borgarleikhúsinu hvorki upphafið né endirinn af baráttunni sem stóð í mörg ár fyrir janúar 2003 og er enn í fullum gangi. Nú er sem betur fer aftur farið að tala um þessa heimskulegu náttúrueyðileggingarstefnu ríkisstjórnarinnar og sölu (gjöf) landsins í hendur auðhringa sem er nákvæmlega sama um hvað verður um Ísland eftir að þeir hafa gert sín stykki hér. Tónleikarnir „Ertu að verða náttúrulaus?“ eru á morgun og það er ólýsanlega ánægjulegt að sjá að fjölmiðlar eru að vakna til meðvitundar um að taka þurfi mark á þessum áðurnefndu „öfgasinnum“ sem vilja ekkert fyrir austfirðinga gera. Nú þarf að berjast fyrir stækkun friðlands Þjórsárvera og vekja landann til umhugsunar um stóryðju- og virkjanastefnuna sem kaffærir landið og eyðileggur ósnortna náttúru landsins á nokkrum árum á óafturkræfan hátt ef stefna ríkisstjórnarinnar fær fram að ganga. Í Kastljósi gærdagsins voru frábær viðtöl við Margréti og Björk og auðvitað Damon Albarn o.fl. Í forsíðufrétt Fréttablaðsins í morgun er frétt um að umhverfisnefnd Alþingis sé farin að skilja að hlusta þurfi á þjóðina og bera virðingu fyrir „tilfinningum“ hennar gagnvart landinu. Það var einmitt það sem var notað gegn okkur Kárahnjúkaandstæðingum fyrir þremur árum síðan, að hafa „tilfinningu fyrir landinu“. Þótti mörgum það vera aumingjaskapur sem ekki væri hlustandi á. Alltaf skal ég taka afstöðu með náttúrunni og um það snýst vefurinn Náttúran.is, að standa með nátttúrunni og umhverfisvænni lausnum auk þess að upplýsa um hvað hver getur lagt til í því sambandi. Lifi landið!

Myndirnar sýna auglýsingu og plakat fyrir fundinn í Borgarleikhúsinu þann 15. janúar 2003. Hönnuður: Guðrún Tryggvadóttir. Ljósmynd á auglýsingaefni: Jóhann Ísberg.

Birt:
6. janúar 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Leggjum ekki landið undir - Ertu að verða náttúrulaus?“, Náttúran.is: 6. janúar 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/22/verda_natturulaus/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2007
breytt: 4. maí 2007

Skilaboð: