Fréttatilkynning frá Umhverfisráðuneyti:

Umhverfisráðherrar Norðurlanda samþykktu á fundi sínum í Ósló í dag yfirlýsingu, þar sem lýst er yfir áhyggjum vegna hraðrar bráðnunar hafíss á Norðurslóðum. Útbreiðsla hafíss á norðurheimskautssvæðinu hefur aldrei mælst minni en í september sl., en þá var hún 23% minni en árið 2005, þegar fyrra met var sett. Bráðnun hafíssins á þessu ári er mun meiri en Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) taldi líklegt í skýrslu sem kom út sl. vor. Vísindamenn telja erfitt að skýra þessa öru þróun eingöngu út frá náttúrulegum sveiflum, heldur sé hún merki um hlýnun lofthjúpsins af mannavöldum. Minnkandi útbreiðsla íssins getur einnig haft keðjuverkandi áhrif, þar sem ísinn endurkastar geislum sólar út í geim, en opið haf drekkur í sig sólgeislun og varma.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra gerði þessa þróun að umtalsefni á fundinum og sagði að Íslendingar fylgdust grannt með þróun mála á Norðurslóðum. Bráðnun hafíssins hefði opnun siglingaleiða í för með sér og greiðari aðgang að auðlindum á svæðinu. Nú sigldu stór olíuflutningaskip með olíu um íslensku efnahagslögsöguna og búist væri við mikilli aukningu á þessarri umferð á komandi árum vegna olíuvinnslu á Norðurslóðum. Ísland óskaði eftir samvinnu við hin Norðurlöndin og Evrópuríki um að vakta þessar siglingar og efla viðbúnað gegn hugsanlegum slysum.

Loftslagsbreytingar voru ekki einungis ræddar á fundi umhverfisráðherra, heldur eru þær fyrirferðarmiklar í umræðum á þingi Norðurlandaráðs, sem nú fer fram í Ósló, enda er þema þingsins: Hvernig bregðast Norðurlöndin við loftslagsvandanum? Í umræðum á opnunarfundi þingsins í gær ræddu forsætisráðherrar Norðurlanda og leiðtogar stjórnarandstöðuflokka þessa spurningu og áframhaldandi umræða er á þinginu um loftslagsmál í dag. Þar er m.a. rætt um tillögur um hvernig hægt sé að efla norræna samvinnu á sviði loftslagsmála og loftslagsvænnar tækni, m.a. til að styðja við undirbúning aðildarríkjafundar Loftslagssamnings S.þ. í Kaupmannahöfn árið 2009, þar sem vonast er til að gengið verði frá nýju samkomulagi ríkja heims um aðgerðir í loftslagsmálum, sem taki við eftir að gildistíma Kýótó-bókunarinnar lýkur árið 2012.

Myndin er af Snæfellsjökli. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir. 

Birt:
31. október 2007
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Norrænir umhverfisráðherrar: Hröð bráðnun hafíss veldur áhyggjum“, Náttúran.is: 31. október 2007 URL: http://nature.is/d/2007/10/31/norrnir-umhverfisrherrar-hr-brnun-hafss-veldur-hyg/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: