Bíódísilfyrirtækið Encore BioRenewables stofnað í Bandaríkjunum

Örar hækkanir á heimsmarkaðsverði eldsneytis, sem byggja að mestu á spákaupmennsku en ekki eldsneytisskorti, hafa þtt hressilega við hugmyndum um nýtingu á öðrum orkugjöfum en jarðolíu. Þannig hefur framleiðsla á bíódísil og metanóli stóraukist og valdið öðrum vanda sem er sprenging á verðlagningu á korni.

Nýjustu fréttir herma að tvö bandarísk fyrirtæki hafi nú sameinast um framleiðslu á bíódísil í stórum stíl úr notaðri jurtaolíu og feiti frá veitingahúsum.

Bíódísil úr úrgangsfeiti
Tellurian Biodiesel sem er leiðandi dreifingar- og markaðssetningarfyrirtæki á hágæða bíódísil í Bandaríkjunum hefur farið í samstarf við Golden State Foods (GSF), einn stærsta birgi skyndibitastaðanna þar í landi. Samstarfið byggir á því að endurvinna notaða steikingarolíu frá veitingastöðunum til að framleiða bíódísil.

Í þessu augnamiði hafa fyrrnefnd fyrirtæki stofnað félagið Encore BioRenewables sem hyggst setja á fót fyrstu verksmiðju sína í Suður- Kaliforníu snemma á næsta ári. Í framhaldinu er síðan ætlunin að opna verksmiðjur í sama tilgangi víða um Bandaríkin.

Verða verksmiðjurnar staðsettar á svæðum þar sem mest er um skyndibitastaði og notkun á steikingarolíu. Encore BioRenewables hyggst selja bíódísilinn sem það framleiðir til trukkafyrirtækja og eins mun olían verða notuð á flutningabílaflota GSF.

Risastór markaður
Fyrstu verksmiðjunni er ætlað að framleiða 5 milljónir gallona (US) af bíódísil á ári, eða sem nemur 18.926.500 lítrum eða 18.926,5 tonnum. Ráðgera forsvarsmenn Encore BioRenewables að framleiðslan verði komin í að minnsta kosti 100 milljónir gallona á ári þegar búið verður að koma upp verksmiðjum um öll Bandaríkin, eða um 378.530 tonn (378.530.000 lítra).

Markaðurinn fyrir dísilolíu í Bandaríkjunum er gríðarlega stór eða 62 milljarðar gallona eða 234,7 milljónir tonna á ári. Þá vex eftirspurnin í flutningageiranum um 2% á ári.

Markaður fyrir bíódísil eykst líka hröðum skrefum, eða um 300% á ári. Framleiðslan á bíódísil í Bandaríkjunum nam á síðasta ári um 225 milljónum gallona eða nærri 852 þúsund tonnum. Er því spáð að bíódísilframleiðslan í landinu verði orðin fimmfalt meiri árið 2010 eða 4,3 milljónir tonna. Nefna má í þessu sambandi að fjölmargir bændur í Bandaríkjunum hafa tekið í gagnið einfalda tækni til framleiðslu á bíódísil til heimabrúks.

Á samkeppnishæfu verði
Tellurian Biodiesel gerði nýlega tilboð í Superior Process Technologies (SPT), en ráðgert er að ganga endanlega frá kaupunum í vor. Tækni SPT mun gera Tellurian Biodiesel kleift að vinna hágæða bíódísil úr lélegri hráefnum en áður hefur verið mögulegt. Það er olíu sem stenst hæstu gæðakröfur og er jafnframt samkeppnishæf í verði við dísilolíu sem unnin er úr jarðolíu.

Samhliða nýtingu á notaðri steikingarolíu frá veitingahúsum mun Encore BioRenewables einnig endurvinna ýmsa aðra olíu og dýrafitu í bíódísilframleiðsluna. Bíódísilolíuna er hægt a nota beint á dísilbíla, eða til íblöndunar í venjulega dísilolíu.

Birt:
17. apríl 2008
Tilvitnun:
Hörður Kristjánsson „Mun nýta úrgangsolíu skyndibitastaðanna“, Náttúran.is: 17. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/17/mun-nyta-urgangsoliu-skyndibitastaoanna/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: