Undir moldinni, djúpt inni í jörðinni á meðal róta trjánna höfðu litlu rótarbörnin steinsofið allan liðlangan veturinn. Þau fundu ekkert fyrir bítandi vindinum, köldum snjónum eða stingandi haglélinu. Þau sváfu friðsamlega í mjúkum rótarrúmunum sínum. Þeim dreymdi sólskinið sem þau höfðu leikið sér í allt síðasta sumar. Þetta voru dásamlegir draumar.

Þegar loksins veturinn leið undir lok og sólin byrjaði að bræða snjóinn kom Móðir jörð með kertið sitt til að vekja börnin sín.
"Vaknið börn" kallaði hún vinarlega. "Það er kominn tími til að fara á fætur. Þið hafið sofið nógu lengi. Vorið er komið og við höfum verk að vinna. Ég hef komið með skæri, nálar, tvinna og efni til að þið getið öll gert ykkur ný föt.

Vaknið nú!
Um leið og allt er tilbúið mun ég ljúka upp hurðinni að yfirborði jarðar."
Börnin geispuðu og teygðu úr sér. Þau hoppuðu á fætur gleðilega. Húrra vorið er komið!

Móðir Jörð var með efnisbúta í öllum regnbogans litum í fallegu körfunni sinni. Hvert rótarbarnanna valdi sér lit til að gera sér skikkju. Baldursbráin valdi sér hvítt efni, Gleymmér- ey valdi sér himinblátt, Túnfífillinn valdi sér sólargult, Lúpínan fjólublátt, Hundasúran rautt og gasið grænt. Svo settust þau öll saman í hring á jörðinni og hófust handa við fötin sín. Þau klipptu, þau saumuðu, pressuðu og skreyttu þar til allt passaði vel. Og á meðan þau unnu sungu þau alla vorsöngvana sína.

Um leið og þau höfðu lokið við að búa til fötin sín fóru þau í langa röð fyrir framan Móður jörð til þess að sýna henni afraksturinn. Móðir jörð leit yfir stórkostlegu börnin sín hissa á því hve fljótt þau voru búin. "Jæja, jæja, þið hafið verið fljót" sagði hún, "og ofboðslega lítur allt fallega út". Jafnvel litlu köngulærnar sem höfðu verið að hjálpa Móðir jörð að spinna ullina horfðu á frá sér numdar af hrifningu, þær höfðu aldrei séð svona stórkostleg föt.

En það var enn fullt sem þurfti að gera. Litlu grænu lirfurnar, járnsmiðirnir og býflugurnar höfðu einnig sofið undir moldinni og voru nú vöknuð. Þau varð að þrífa, bursta og mála svo að þau yrðu skínandi falleg. Moldin var full að lífi, allir unnu vel og voru duglegir. Uppi á yfirborði jarðarinnar var hlý sólin byrjuð að hjálpa nýju grænu laufum trjánna að
vakna. Myndu rótarbörnin verða tilbúin í tíma?

Loksins var tími til kominn að fara út!
Móðir jörð opnaði dyrnar. Sólargeislarnir læddust inn um gættina og dönsuðu fallegum dansi. Í fallegu hlýju vorloftinu kom löng röð af grænum lirfum, járnsmiðum, köngulóm og rótarbörnum með grasið sitt og blómin sín í höndunum. Býflugurnar komu dansandi allt í kringum þau fallega svartar og gular, syngjandi lagið sitt í fagurbláum himninum, Bbzzzzzzzz......

Inni í skóginum flugu fiðrildin glöð í kringum blómin. Bjölluliljurnar fundu sér kaldan og rakan stað í skugga trjánna í grasinu og þar leyfðu þær blómunum sínum að klingja. Þar kom snigillinn skríðandi og kallaði, "Ha! þarna eruð þið þá börnin góð, verið velkomin í stóra skóginn". Lítil Skógfjóla leit feimnislega á hann frá öruggum stað sínum á bakvið tréð. Hún hafði aldrei áður séð svona veru.

Sumarið kom. Í litla læknum sem leið milli engjanna lét vatnaliljan ána bera sig eins og prinsessu. Stráin hvísluðu í golunni. Heiðadúnurtirnar komu og stigu varlega í ána en litlu sílin í ánni muldruðu: " Það er að verða troðið hér. Farið og leikið ykkkur annars staðar."!

Á blómaengjunum voru rótarbörnin að skemmta sér konunglega. Þau dönsuðu léttum dansi í heitu sólskyninu. "Hoppa og valsa Jibbíí! En gaman! Bara að það væri alltaf sumar"!. Fiðrildin flögruðu fyrir ofan þau og jafnvel mýflugurnar hættu sér í dans. Suð býflugnanna var tónlistin þeirra, þær sátu makindalega á háu stránum."Passaðu þig strá, ekki detta niður".

En sumarið tók einnig enda.
Beittur haustvindurinn blés marglituðu laufunum um loftið þar sem þau dönsuðu fallega og
festu sig í fötum rótarbarnanna. "FffffffOOOO" , kallaði vindurinn, "flýtið ykkur heim litlu börn það er að verða kalt hér, það er kominn tími til að fara aftur að sofa". Öll rótabörnin og skordýravinirnir þeirra héldu nú aftur af stað heim í langri röð. Móðir jörð stóð við dyrnar að djúpi jarðar og faðmaði hvert barn að sér.

"Komið inn börnin mín og þið líka járnsmiðir, fiðrildi og býflugur, það er hlýtt og notalegt hér niðri og ég er búin að hafa til fyrir ykkur mat og ljúffengan heitan drykk. Þegar allir eru búnir að borða og drekka verðið þið að fara að sofa þar til vorið gleður okkur aftur með nærveru sinni". Og öll litlu rótarbörnin fóru aftur niður í jörðina til Móður jarðar og sofnuðu sínum
langa, væra svefni.

Þýðing og skrif Sigrún Gunnarsdóttir
Unnið upp úr bókinni "The story of the root children", en heimfært á íslenska náttúru.

Birt:
25. júní 2012
Tilvitnun:
Sigrún Gunnarsdóttir „Sagan um rótarbörnin“, Náttúran.is: 25. júní 2012 URL: http://nature.is/d/2009/06/04/sagan-um-rotarbornin/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 4. júní 2009
breytt: 25. júní 2012

Skilaboð: