Opið bréf til Árna Mathiessen fjármálaráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, Einars K. Guðfinnssonar, landbúnaðarráðherra og Kristjáns Möller, ráðherra sveitarstjórnarmála.

Samþykkt aðalskipulag Skeiða-og Gnúpverjarhrepps er nú til skoðunar hjá Skipulagsstofnun. Í ljós hefur komið að skipulagsvinnan var ekki unnin í héraði eins og almennt gerist. Aðalskipulag sem gerir ráð fyrir þremur virkjunum í neðri hluta Þjórsár er unnið að ósk og á kostnað Landsvirkjunar. Enn verra var að athugasemdir sem almenningur gerði við skipulagið voru sendar til lögfræðings á vegum Landsvirkjunar, sem fyrirtækið greiddi fyrir að svara athugasemdunum á þann veg sem því hentaði.

Eins og maður sem grunaður er um ofbeldi dæmi sjálfur í eigin sök og komist að þeirri niðurstöðu að stúlkan sem hann beitti valdi hefði sjálf beðið um það - og niðurstaðan stendur.
Eins og maður sem byggir á lóð nágrannans, og borgar lögfræðingi fyrir að segja að lóðareigandanum komi málið ekki við.

Þetta er ekki lýðræði og það er óeðlilegt að Landsvirkjun svari athugasemdum sem eru gagnrýni á skipulag vegna framkvæmda Landsvirkjunar sjálfrar.

Ráðherrar lýðræðisríkisins Íslands hljóta að sjá það. Sjái þeir það ekki er í meira lagi tvísýnt um lýðræðið, eignaréttinn, mannhelgina, að ekki sé talað um Þjórsá og náttúruna eins og oft hefur verið bent á.

Það hlýtur að vera réttlætismál að hlutlausir aðilar fjalli um aðalskipulag sem hundruð manna hafa gert athugasemdir við. Eðlileg krafa er að ríkisstjórnin tryggi að þeir sem telja sér ógnað af fyrirhuguðum framkvæmdum Landsvirkjunar í byggðum Suðurlands, fái sama tækifæri til að verja sig og Landsvirkjun hefur fengið til að verja áætlanir sínar. Við krefjumst þess að ríkisstjórnin leggi til fé svo andstæðingar virkjana geti ráðið sér lögfræðing til að svara athugasemdum við skipulagið til mótvægis við svör Landsvirkjunar. Ríkisstjórnin yrði svo sjálf að finna lendingu að fengnum báðum þessum lögfræðiálitum. En því miður er aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjarhrepps ekkert annað en lögfræðiálit Landsvirkjunar um framkvæmdir sem Alþingi hefur ekki samþykkt.
Birt:
1. september 2008
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Mismunun og opinber valdbeiting við Þjórsá - bréf Sólar á Suðurlandi sent ráðherrum 29. ágúst 2008 “, Náttúran.is: 1. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/01/mismunun-og-opinber-valdbeiting-vio-thjorsa-bref-s/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: