Yfir þrjátíu þúsund manns sóttu tónleikana Náttúru í köldu blíðskaparveðri í Laugardalnum í kvöld. Fólk tók að streyma í Laugardalinn seinnipartinn og um þann mund sem Sigur Rós steig á svið var hlíðin á móti sviðinu orðið þétt setinn. Jafnvægi og kærleikur lá í loftinu enda tilefni tónleikanna stuðningur við náttúruna og allt sem við verndun hennar styður. Þegar Björk steig á svið var mannfjöldinn búinn að sjá glefsur úr mynd Andra Snæs á stóra tjaldinu og bæði myndmál og textar vöktu mikla athygli. Staðreyndir um landsvæði sem eru í bráðri hættu og önnur sem þegar hafa verið lögð undir stóriðjustefnuna kallaði fram sterk viðbrögð fuss og svei.

Björk tók hverja perluna á fætur annarri og þrátt fyrir hálsbólgu tókst henni að koma þeim frá sér á magný runginn hátt við mikinn fögnuð bæði innlendra sem erlendra gesta í hlíðunum fyrir ofan þvottalaugarnar. Náttúran vill þakka öllum sem studdu við tónleikana og sérstaklega Björk Guðmundsdóttur fyrir framlagið til náttúruverndar á Íslandi. Í dag opnaði fyrsta útgáfa af vefnum nattura.info en undir henni er m.a. að finna frábært náttúrukort af stöðu mála á landinu. Náttúran.is opnaði einnig enska vefinn Nature.is í dag og klárar innsetningu efnis á næstu dögum.

Á tónleikunum Náttúran. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
29. júní 2008
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Náttúrutónleikarnir tókust frábærlega“, Náttúran.is: 29. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/29/natturutonleikarnir-tokust-frabaerlega/ [Skoðað:23. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: