Á næstu vikum verður Íslenski fjallahjólaklúbburinn, öflugasti samgönguhjólreiðaklúbbur landsins, með þrjú námskeið fyrir hjólreiðamenn sem vilja takast á við hjólreiðar að vetrarlagi. Tveir af öflugustu hjólreiðamönnum klúbbsins leiða námskeiðin, þeir Magnús Bergsson og Fjölnir Björgvinsson.

Fim. 9. okt. kl. 20 verða 2 námskeið í klúbbhúsinu að Brekkustíg 2. Grunnnámskeið um vetrarundirbúning og á sama tíma, efri hæðinni; Grunnnámskeið um teiningar.

Fim. 23. okt. verður síðan framhaldsnámskeið í vetrarundirbúning á sama stað, sama tíma.

Vetrarundirbúningsnámskeið - Grunnur verður haldið 9. október á neðri hæð í viðgerðaraðstöðu. Á þessu námskeiði fer Fjölnir Björgvinsson yfir það helsta og algengasta sem ber að hafa í huga þegar hjól og knapi er búinn undir veturinn. Tekin verða fyrir helstu þættir eins og ljós, nagladekk, val á bremsum, gírhlífar, bretti, ryðvörn ofl fyrir hjólið. Eins talað um fatnað sem hentar knapa í mismunandi veðurfari yfir haust og vetrarmánuðina. 

Teiningarnámskeið verður haldið 9. október á efri hæð í setustofunni. Þá mun Magnús Bergsson sýna hvernig teinuð er upp gjörð frá grunni. Farið verður yfir lögmálið sem gerir gjörðina svona sterka. Mismunandi teiningaraðferðir og uppbygging gjarða og tegundir teknar fyrir. Þeir sem sækja námskeiðið eru hvattir til að taka með sér gjarðir sem þarfnast lagfæringar og fá tilsögn um rétta aðferð í viðkomandi viðgerð.

Vetrarundirbúningsnámskeið – Framhald verður haldið 23. október í fyrirlestrarformi í setustofu. Magnús Bergsson talar út frá sinni reynslu um vetrarútbúnað; hjóls, knapa og viðlegubúnað. Magnús er einn reyndasti hjólreiðamaður landsins og deilir með okkur góðum ráðum um það hvernig það verður leikur einn að hjóla yfir köldustu vetrarmánuðina. Námskeiðið er sjálfstætt framhald af byrjendanámskeiðinu sem er á dagskrá 9. október. Þar sem þessi viðburður verður eingöngu á efri hæð verður viðgerðaraðstaðan opin félagsmönnum á sama tíma á 1. hæð.

Heitt á könnunni og eitthvað gott í gogginn á boðstólnum.

Sökum gríðarlegrar ásóknar í námskeið klúbbsins verður takmarkaður fjöldi sem kemst að á hvert námskeið. Skráning fer fram hjá Sesselju Traustadóttur í síma 864 2776 eða á netfang sessy@alfto.is

www.ifhk.is.

Birt:
3. október 2008
Tilvitnun:
Íslenski fjallahjólaklúbburinn „Hjólreiðaveturinn genginn í garð“, Náttúran.is: 3. október 2008 URL: http://nature.is/d/2008/10/03/hjolreioaveturinn-genginn-i-garo/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: