Í gærmorgun hófu verktakar á vegum Kópavogsbæjar að grafa 10 -15 m. breiða skurði í miðri Heiðmörk til að leggja nýjar vatnsleiðslur fyrir Kópavogsbæ. Felld voru fjölmörg tré þ.á.m. í „Þjóðhatíðarlundi“ sem gróðursettur var árið 1974 í tilefni ellefu hundruð ára afmæli Íslandsbyggðar. Áætlað er að vatnsleiðslurnar liggi þvert yfir útivistarsvæðið.

Helgi Gíslason skógfræðingur og framkvæmdastjóri Skógræktar Reykjavíkur sem hefur umsjón með Heiðmörk kom af fjöllum þegar að hann tók eftir pallbílum með 6-10 m. háum trjám keyra frá Heiðmörk enda hafði hann ekki verið látinn vita af framkvæmdunum. Ekkert framkvæmdaleyfi liggur fyrir. Það er ekki auðvelt að gera sér grein fyrir hvernig hægt er að ganga svo langt og hefja slíkar framkvæmdir yfirleitt, hvað þá að hefja þær án leyfis.
Framkvæmdirnar voru stöðvaðar þegar að upp um þær komst en eftir stendur eyðilagt skóglendi m.a. skógræktarsvæði sem UNIFEM stóð fyrir gróðursetningu ný s skógar á í sumar sem leið, til styrktar börnum í Afríku. Umsókn um framkvæmdaleyfið liggur fyrir hjá borgarstjórn Reykjavíkur en hefur ekki enn verið afgreitt. Landið er í eigu Reykjavíkurborgar og hefur „hingað til“ verið talið eitt verðmætasta útivistarsvæði borgarinnar og náttúrperla allra landsmanna.
Hönnun hf. vann umhverfismatsskýrslu fyrir Kópavogsbæ sem gerir ráð fyrir vatnsleiðslum á yfir 100-200 m. vegalengd (skógarlengd) þar sem ryðja þarf í burtu 10-15 m. breiðum kafla til að leggja leiðslurnar í jörðu. Nú spyr Grasgudda: Hver tekur á sig sökina í þessu máli, er það Borgarstjórn eða Skipulagsráð Reykjavíkur, bæjarstjórn Kópavogs, Hönnun hf., verktakafyrirtækið sem framkvæmdi eyðilegginguna, verkstjóri framkvæmdanna, gröfustjórarnir eða vörubílastjórarnir? Allir þessir aðilar eru menntir og því hefði heilbrigð skynsemi átt að leiða til þess að af þessu hefði ekki orðið. Grasagudda telur því að allir þessir aðilar hafi sýnt vítavert gáleysi og umhverfisblindu og beri því að koma svæðinu í samt lag, hið fyrsta, og að Kópavogsbæ beri að velja vatnsveitukerfi sínu leið þar sem þegar hefur verið hróflað við svæðinu s.s. meðfram vegaslóðum, gangbrautum og allavega alls ekki í gegnum útivistarsvæði af slíkum gæðum sem Heiðmörk er.

Myndin er skjáskot af umfjöllun um málið í kvöldfréttum sjónvarpsins þ. 09.02.2006.


Birt:
10. febrúar 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hvernig gat þetta gerst? - Innrásin í Heiðmörk“, Náttúran.is: 10. febrúar 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/16/innrasin_i_heidmork/ [Skoðað:23. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. mars 2007
breytt: 29. apríl 2007

Skilaboð: