Einn frambjóðanda Framsóknarflokksins til næstu Alþingiskosninga, Bjarni Harðarson bóksali á Selfossi, sem sækist eftir 2. sæti á listanum í Suðurlandskjördæmi, boðaði til fundar við Urriðafoss í dag kl. 15:00.

Hann bendir á að „allavega í þessari atrennu“ eigi að þyrma Urriðafossi. Framóknarmaðurinn Bjarni getur þó ekki farið út í umhverfisbaráttu sína án þess að lítillækka aðra umhverfissinna og uppnefna þá sem „öfgasinna“. Það er í raun sorglegt að Bjarni þurfi að byrja „umhverfisverndunarátak sitt gegn virkjunum í byggð“ á þann hátt að lítilsvirða þá sem reynt hafa að benda fólki á stöðuna nú um áraraðir. Því ekki að þakka frekar umhverfissinnum fyrir að hafa óbilandi kraft og úthald og fyrir að hafa hvað sem á dynur og þó að kosningar, atkvæði og hugsanlegt þingsæti hafi ekki beðið handan við hornið, blásið í lúðrana, án nokkurrar eiginhagsmuna. Það eina sem að skyggir á slíka umhverfisverndarfundi eins og þennan er að sami maður skuli vera til þessa dags 100% fylgjandi Kárahnjúkavirkjun og öllu sem henni fylgir en bjarta hliðin er sú að 300 manns sóttu fundinn, margir af þeim líklega kjósendur flokksins sem að beðið hafa eftir breytingu í átt til meiri virðingar fyrir náttúrunni en verið hefur. Sumir vilja þó enn virkja fossinn, ef það borgar sig! (Sjá frétt um fundinn á Mbl.is). En fólk í öllum flokkum er farið að vilja fá afgerandi svör varðandi umhverfisstefnu síns flokks til framtíðar. 

Það er ekki rétt sem að Bjarni Harðarson heldur fram um að umhverfissinnar hugsi ekki um virkjanaframkvæmdir og umhverfisspjöll í nágrenni byggðar eða í byggð. Þó er rétt að margt fékk að grassera óáreitt vegna tímans sem fór í að vinna gegn Kárahnjúkavirkjun og Hálslóni. Hér á síðum Grasaguddu var þó fljótt fjallað um Þjórsárver, Reykjanesskagann, fyrirthugaða stækkun Alcan í Hafnarfirði, Ingólfsfjallsmálið og Hellisheiðarvirkjun um leið og ljóst var að umhverfisröskun kom að óvörum, og allt sem er að ske á þéttbýlisslóðum í rúmt ár og ekki látið hjá líða að gagnrýna allt það sem gagnrýna þarf út frá umhverfissjónarmiðum. Auk þess hafa Landvernd, Sól í Straumi, Framtíðarlandið, Íslandsvinir, Náttúruverndarsmtök Íslands, Náttúruvaktin og fleiri félög og ótal einstaklingar í þjóðfélaginu (t.d. Ómar Ragnarsson og Andri Snær Magnason) unnið gríðarlega mikið starf til að vekja þjóðina af værum blundi.
-
Myndin er af Urriðafossi í klakaböndum þ. 20. 03. 2006. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir

Birt:
7. janúar 2007
Uppruni:
Árvakur hf
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Bjarni stendur nú vörð um Þjórsá en hvað svo?“, Náttúran.is: 7. janúar 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/16/vord_tjorsarver/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. mars 2007
breytt: 30. apríl 2007

Skilaboð: