Ekki er öruggara að vera á nagladekkjum en öðrum vetrardekkjum á götum borga þar sem vetrarþjónusta er góð. Þetta kemur fram í nýrri könnun sænsku vegagerðarinnar (Trafikverket). Borgargötur eru yfirleitt annað hvort þurrar eða blautar en sjaldan á kafi í snjó eða ísilagðar. Könnunin sýnir jafnframt að nagladekk nýtast vel í snjó og ís utan þéttbýlis.

Reykjavíkurborg hefur í mörg ár hvatt íbúa til að vera fremur á góðum vetrardekkjum en nöglum til að draga úr loft- og hljóðmengun og kostnaði vegna viðhalds gatna. Könnun sænsku vegagerðarinnar styður þá áherslu að borgarbílinn sé einnig öruggur í borgarkeyrslu á ónegldum vetrardekkjum.

Sænska vegagerðin keyrði saman upplýsingar 2000-2010 um dauðaslys á vegum og götum í Svíþjóð, við  upplýsingar um gerð dekkja og veðurfar. Á þurrum eða blautum götum og vegum auka nagladekk nokkuð líkur á dauðaslysum (6% +/- 30). Fram kemur í sömu athugun að nagladekk minnka líkur á dauðaslysum (42% +/- 6%) í aðstæðum þar sem vegur er hulinn snjó eða ísilagður.

Einnig kemur fram í þessari könnun að ávinningur er að svokölluðu ESP- bremsukerfi. Ef bílar eru með slíkan búnað þá skiptir tegund hjólbarða ekki afgerandi máli. Af þessari könnun má draga þá ályktun að engin ástæða sé til að setja nagladekk undir bíla sem fyrst og fremst eru ætlaðir til aksturs í borgum og á snjóléttum svæðum. Reykjavíkurborg vill auk þess benda á aðra ókosti nagla eins og svifryksmengun og hljóðmengun sem hefur áhrif á heilsu borgarbúa.

Bannað er að aka á nagladekkjum í Reykjavík frá 15. apríl til 1. nóvember ár hvert. Reykjavíkurborg mælist til þess að ökumenn skoði val sitt á vetrardekkjum vel, meðal annars út frá öryggi og umhverfismálum.

Upplýsingar um sænsku könnunina, sjá glæru 8

Upplýsingar um vetrardekk

Birt:
30. október 2010
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Nagladekk ekki öruggari en önnur vetrardekk í borgum“, Náttúran.is: 30. október 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/30/nagladekk-ekki-oruggari-en-onnur-vetrardekk-i-borg/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 3. apríl 2012

Skilaboð: