Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur ákveðið að setja reglugerð, sem kveður á um skyldu til að merkja sérstaklega allar matvörur sem markaðsfærðar eru hér á landi og innihalda hráefni úr lífverum sem flokkast undir að vera erfðabreyttar. Stuðst verður við samsvarandi reglur Norðmanna og mun ný reglugerð taka gildi fljótlega, með nauðsynlegum aðlögunartíma fyrir framleiðendur og söluaðila. Undirbúningur að setningu reglna í þessum tilgangi hefur staðið yfir í ráðuneytinu um alllanga hríð.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er því lýst yfir að tryggja skuli „að erfðabreytt matvæli séu merkt þannig að neytendum sé ljóst innihald matvæla við innkaup.”

Það er mat Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra  að með tilkomu þessara reglna verði komin heildstæð löggjöf um merkingar efðabreyttra matvæla, en eins og staðan er nú er Ísland eina landið í Vestur-Evrópu sem ekki hefur sett sér heildstæðar reglur á þessu sviði. Með innleiðingu reglnanna aukast möguleikar neytenda verulega til að taka upplýstar ákvarðanir með hliðsjón af innihaldi fæðu. Hér er því um mjög mikilvægt neytendamál að ræða, sem unnið verður í góðu samráði við Neytendasamtökin, en þau hafa verið mjög hvetjandi í þessum efnum.

Birt:
10. ágúst 2010
Tilvitnun:
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið „Skylt verði að merkja erfðabreytt matvæli sérstaklega“, Náttúran.is: 10. ágúst 2010 URL: http://nature.is/d/2010/08/10/skylt-verdi-ad-merkja-erfdabreytt-matvaeli-serstak/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: