Að hjóla er ekki aðeins holl íþrótt heldur ákaflega umhverfisvænn ferðamáti. Hægt er að gera flest á hjóli. Minni innkaup má bera í bakpoka eða í hliðartöskum á hjólinu. Einnig er hægt að tengja kerru við hjólið.

Það sama gildir um hjólið og bílinn þ.e. að það þurfi að vera gott og öruggt farartæki.

Hjólreiðar eru vítt svið og hið sama gildir um hvar þær eru stundaðar. Alþjóðlegar umferðarsamþykktir gera ráð fyrir að reiðhjólið sé flokkað sem ökutæki, og að aðalstaður þess sé á almennum vegum. Það er gaman að hjóla á rólegum götum þar sem litil umferð er, en flestum þykir þægilegra og öruggara að hjóla á stígum þar sem bílaumferð er mikil.

Síðan á fyrsta og öðrum áratug aldarinnar hefur sérstökum hjólreiðastígum sífellt fjölgað á höfuðborgarsvæðinu en samkvæmt lagabreytingu frá 2007 tekur Vegagerðin þátt í kostnaði við lagningu hjólreiðaveganna ásamt sveitafélögunum.

Tillitssemi er lykilatriði í umferðinni, en aðalregla umferðarlaganna fjallar um tillitssemi og varúð. Á samnýttum stígum og ekki síst á gangstéttum, eiga hjólreiðamenn að hægja vel á sér nálægt gangandi fólki. Tillitssemi er mikilvæg gagnvart öllum sem fara hægar yfir. Á almennum vegum eru það bílstjórarnir sem þurfa að sýna smá þolinmæði, aðlaga hraðann aðstæðum og fara ekki of nálægt hjólreiðafólki þegar tekið er fram úr. Bæði á stígum og götum er sjálfsagt að kurteisi sé sýnd á báða bóga.

Samtök hjólreiðamanna hafa á undanförnum árum unnið að því að fræða almenning um þarfir hjólreiðamanna og leiðrétta fordóma í þeirra garð. Hræðsla við að lenda í slysi er eitt af því sem getur fælt frá því að nota hjólið. Staðreyndin er samt sú að það að ferðast í bíl er fyrir ákveðna aldurshópa miklum mun hættulegra en að hjóla, og að það að hjóla lengir lífið og eykur lífsgæði.

Á tímabílinu 1998 til 2012 jukust hjólreiðar til muna, en enginn lést þó á reiðhjóli í umferðinni. Á sama tíma létust allt of margir ökumenn og farþegar í bílum sem og gangangi vegfarendur.

Samkvæmt tölum frá Umhverfis- og samgöngusviði  Reykjavíkurborgar er 60% ferða á bíl innan við 3 kílómetrar.

Birt:
23. júní 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Morten Lange „Reiðhjól“, Náttúran.is: 23. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2007/06/21/reihjl/ [Skoðað:27. maí 2018]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. júní 2007
breytt: 19. maí 2014

Skilaboð: