Nú líður senn að jólum og að mörgu að hyggja eins og vera ber. Á mögum heimilum er úr minna að moða en oft áður og einhversstaðar jafnvel skortur. Aðrir hafa úr nógu að spila og geta borist á. Það liggur svo stundum þannig í mannsins eðli að þeir eru óánægðastir sem fá mest og hinir glaðari með sitt sem áttu von á litlu eða engu. Það er hugurinn sem skipitir máli segir orðatiltækið og það sannast sí og æ. Að hafa heilsu og geta verið hjá þeim sem manni eru kærastir er mikils virði og má ekki gleymast í undirbúningnum og gjafametingnum.

Jólin eru hátíð ljóssins. Eftir vetarasólstöður tekur sólin aftur að rísa og daginn að lengja. Það er loforð um nýtt sumar. Nýtt líf. Enn eitt árið í eilífri hringrás tilverunnar. Skuggarnir sem hafa lengst og eflst frá hausti taka nú að hopa og víkja fyrir ljósinu sem styrkist og rís hærra með hverjum degi þar til á sumarsólstöðum þegar heimskautssólin rétt tyllir sér á sjóndeildarhringinn til að ná spyrnu í nýjan dag.

Hin eiginlegu áramót og jól eru á sólstöðum þótt hátíðirnar hafa hnikast til í tilraunum mannannna til að koma mælikvarða sínum á tímann. Einnig hafa geistleg yfirvöld reynt að aftengja heiðin tengsl við gang himintungla og fornar hátíðir. Það gerir ekkert til. Það er bara hið besta mál að hafa þetta eins og það er. Jól og áramót með viku millibili og þannig verður til stemning í svartasta skammdeginu þar sem allir hafa nóg að snúast og hjálpast að við undirbúning hátíðanna. Hver með sínum hætti. Sumar fjölskyldur hafa nánast skapað sér aðfangamánuð jóla og stigvaxandi undirbúningur á sér stað alla aðventuna. Aðrir draga bara upp forskreytt gervitré á aðfangadag og láta þar við sitja.

Mestu máli skiptir að við hleypum ljósinu að okkur, án gagnrýni, án efasemda, án vanþakklætis og án tilætlunarsemi. Að við fögnum ljósinu einlæglega af þakklæti og með gleði. Við getum kallað ljósið Jesúbarn, rísandi sól eða hvað sem hentar okkar heimsmynd. En öll þurfum við ljós og líf og gleði.

Njótum jólanna með þeim sem næst okkur standa og fögnum því að enn og aftur sigrar ljósið myrkrið.

Gleðilega hátíð.

Birt:
21. desember 2010
Höfundur:
Einar Bergmundur
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Jólakveðja Náttúrunnar“, Náttúran.is: 21. desember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/12/21/jolakvedja-natturunnar/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: