Búlandsvirkjun mun hafa verulega neikvæð áhrif á þann búskap sem stundaður er í Skaftártungu, að mati íbúa.

Frá íbúum í Skaftártungu: „Í framhaldi af umræðu í fjölmiðlum og vegna fyrirhugaðrar umfjöllunar og afgreiðslu Rammaáætlunar á Alþingi viljum við íbúar í Skaftártungu koma skoðunum okkar á framfæri.“Í framhaldi af umræðu í fjölmiðlum og vegna fyrirhugaðrar umfjöllunar og afgreiðslu Rammaáætlunar á Alþingi viljum við íbúar í Skaftártungu koma skoðunum okkar á framfæri. Okkur hafa þótt þessi sjónarmið verða undir í umfjöllun fjölmiðla um Búlandsvirkjun undanfarið.

Það er ljóst að Búlandsvirkjun mun hafa verulega neikvæð áhrif á þann búskap sem stundaður er í Skaftártungu. Það land sem áætlanir gera ráð fyrir að fari undir miðlunarlón á Þorvaldsaurum og á austurhluta Ljótarstaðaheiðar er mjög mikilvægt beitiland nokkurra jarða. Bæði vegna legu landsins skammt innan afréttargirðingar og þess gróðurlendis sem fer undir vatn. Einnig mun veruleg breyting á rennsli Tungufljóts í byggð hafa áhrif á þær jarðir sem að því liggja og á fiskgengd í ánni. Tungufljót er eina vatnsmikla bergvatnsáin á þessu svæði, allt í kring eru jökulár. Eftir virkjun verður hún vatnslítil en jökullituð þegar lónið er fullt og rennur um yfirfall þess. Auk þess vekur ugg sú áhætta sem skapast vegna rennslisstýringa við stíflumannvirki lónsins í Tungufljóti og í farvegum Skaftár. Sandfok úr lónstæðinu og frá farvegum Skaftár þar sem áformað er að taka ána úr farvegi sínum verður verulegt. Það sandfok verður ekki heft nema með gríðarlegum aðgerðum, ef það reynist þá mögulegt.

Í umræðu um Búlandsvirkjun hefur verið látið að því liggja að búið sé að semja við landeigendur og vatnsréttarhafa á svæðinu. Það er stórlega orðum aukið. Einungis hefur verið samið við minnihluta þeirra aðila sem málið varðar. Samningar hafa verið gerðir við vatnsréttarhafa í Skaftá en engan vatnsréttarhafa við Tungufljót og ekki hefur verið samið um það land sem fer undir lón. Auk þess eru ekki fyrirliggjandi neinar tillögur eða samningar um staðsetningu og legu annarra mannvirkja tengdra virkjuninni, s.s. línu- og vegalagnir.

Samfélagsleg áhrif Búlandsvirkjunar eru víðtæk og að okkar mati ljóst að núverandi störfum við landbúnað verður að einhverju leyti fórnað á kostnað skammtímavinnu við uppbyggingu virkjunar. Um langtímaatvinnutækifæri er ekki að ræða. Þessi virkjun er mun nær byggð en aðrar stórar virkjanaframkvæmdir sem ráðist hefur verið í. Einnig má benda á mikinn fjölda ferðamanna sem leggur leið sína um Fjallabaksleiðir og heimsækir Skaftárhrepp og Skaftártunguafrétt til að skoða náttúru svæðisins.Ágúst Eiríksson, Svínadal,

Ásta Sverrisdóttir, Ytri-Ásum,
Björn Eiríksson, Svínadal,
Elín Heiða Valsdóttir, Úthlíð,
Helga Bjarnadóttir,
Ljótarstöðum,
Jón Geir Ólafsson, Gröf,
Jónína Jóhannesdóttir, Hvammi,
Lilja Guðgeirsdóttir, Borgarfelli,
Ólöf Ragna Ólafsdóttir, Gröf,
Páll S. Oddsteinsson, Hvammi,
Sigfús Sigurjónsson, Borgarfelli,
Sæmundur Oddsteinsson, Múla,
Þuríður Gissurardóttir, Múla.
F.h. Tungufljótsdeildar veiðifélags Kúðafljóts:
Rafn F. Johnson, Hemrumörk,
Sigfús Sigurjónsson, Borgarfelli,
Sigurgeir B. Gíslason, Flögu.

Sjá nánar um svæðið þar sem Búlandsvirkjun ætti að rísa á Náttúrukortinu.

Birt:
29. mars 2012
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Íbúar Skaftártungu styðja ekki Búlandsvirkjun“, Náttúran.is: 29. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/29/ibuar-skaftartungu-stydja-ekki-bulandsvirkjun/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: