Starfmenn undirritaðra hvalaskoðunarfyrirtækja harma mjög þá ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra um að leyfa veiðar á langreyðum og hrefnum til ársins 2013. Hvalaskoðun er nú orðinn einn af vinsælli afþreyingarkostum fyrir erlenda ferðamenn. Á síðasta ári fóru yfir 115.000 farþegar í hvalaskoðun á landinu og starfa um 200 manns í greininni. Hvalaskoðun er mikið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn og hefur íslenskum farþegum einnig fjölgað nokkuð síðustu ár og þá einkum skólahópum. Hvalaskoðun er atvinnuskapandi grein og góður vettvangur fyrir fræðslu og rannsóknir á lífríki hafsins og umhverfinu. Enn fremur rennur greinin styrkari stoðum undir rekstur veitingastaða og önnur þjónustufyrirtæki.
 
Í skýrslu Samgönguráðuneytisins frá árinu 2003 er tilgreint að helstu þættir í skynsamlegri uppbyggingu ferðaþjónustu séu náttúra, menning og fagmennska. Þá segir að sjálfbær þróun sé forsenda þess að sérstaða og ímynd landsins verð efld. Frá því að fyrrverandi sjávarútvegsráðherra tók þessa afdirfarríku ákvörðun hafa lykilviðskiptavinir fyrirtækjana, þ.e. ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur, lýst áhyggjum sínum og vísað til vonbrigða og reiði sinna viðskiptavina; viðskiptavinir sem geta skipt sköpum fyrir öflun erlends gjaldeyris. Hrefnur eru sú tegund hvala sem oftast sjást í ferðum okkar og því höfum við áhyggjur af afleiðingum veiðanna. Rannsóknir um borð í ferðum frá Reykjavík sýna þau dýr sem sjást eru ekki þkja mörg og að sömu dýrin sýna sig aftur og aftur. Frá því að atvinnuveiðar hófust árið 2006 höfum við merkt breytingar á hegðun hvalanna og þeim hefur fækkað verulega í ferðum okkar. Hrefnuveiðar eru að mestu stundaðar í Faxaflóa, á svipuðum slóðum og hvalaskoðunin fer fram, þrátt fyrir ítrekuð loforð um annað. Þessar tvær greinar geta ekki dafnað hlið við hlið og við teljum einsýnt að rekstri hvalaskoðunarfyrirtækja verði stefnt í voða ef ákvörðun f.v. sjávarútvegsráðherra verður ekki dregin til baka.
 
Við teljum að ferðaþjónusta sé góð leið til að nýta náttúruauðlindir Íslands með sjálfbærum hætti. Hvalveiðar eru ekki sjálfbærar enda markaður fyrir afurðirnar ekki fyrir hendi. Ímynd Íslands hefur beðið hnekki og hvalveiðar munu ekki bæta þar úr. Við teljum að hvalveiðar séu mikili ógn við ferðaþjónstu á Íslandi.
 
Einfaldasta og öflugasta leiðin til að efla ímynd Íslands er að stjórnvöld lýsi því yfir þegar í stað að hvalveiðum verði ekki leyfðar. Slík ákvörðun myndi jafnframt vera besta hugsanlega markaðssetning fyrir Ísland sem áfangastaður ferðamanna og upprunaland sjávarafurða.
 
Starfsmenn eftirfarandi fyrirtækja: Eldingar / Hvalaskoðunar Reykjavík, Hvalalífs, Gentle Giants, Norðursiglingar, Sjóferða Snorra ehf.
 Myndin sýnir hrefnu. Ljósmynd: Elding hvalaskoðun.
Birt:
2. febrúar 2009
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Starfsmenn hvalaskoðunarfyrirtækja harma fyrirhugaðar hvalveiðar“, Náttúran.is: 2. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/02/starfsmenn-hvalaskoounarfyrirtaeki-harma-fyrirhuga/ [Skoðað:16. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 3. febrúar 2009

Skilaboð: