10 km radíus frá KleppjárnsreykjumStefán Gíslason umhverfisstjórnarfræðingur með meiru heldur áfram að fræða okkur um Kleppjárnsreykjamálið á bloggsíðu sinni:

Í bloggfærslu minni 19. apríl sl. átaldi ég stjórnvöld í Borgarbyggð fyrir slælega stjórnsýslu við afgreiðslu umsagnar um tillögu Umhverfisstofnunar að starfsleyfi fyrir ORF Líftækni hf., „vegna starfsemi með erfðabreyttar lífverur í gróðurhúsi Sólhvarfa ehf., Kleppjárnsreykjum“. Hin slælega stjórnsýsla endurspeglaðist í því að stjórnvöldin fóru ekki að þeim reglum sem þau höfðu sjálf sett sér um starfshætti nefnda.

Um hvað snýst málið?
Umrætt blogg snerist fyrst og fremst um meðferð málsins en ekki innihald þess. Hér á eftir ætla ég hins vegar að fara nokkrum orðum um innihaldið og hvers vegna málið er stærra en svo að forsvaranlegt sé að afgreiða það eins og hverja aðra umsókn um undaný águ frá banni við hundahaldi. Um þetta væri hægt að hafa mörg orð, en ég læt nægja að geta um einn tiltekinn þátt sem hlýtur að skipta máli við afgreiðslu máls af þessu tagi. Þessi þáttur eru þær skorður sem ræktun á erfðabreyttum lífverum setur lífrænni ræktun í næsta nágrenni.

Erfðabreytt og lífrænt rímar ekki saman
Notkun erfðabreyttra lífvera eða afurða þeirra er bönnuð í lífrænni ræktun. En þar með er ekki öll sagan sögð. Í reglum bresku vottunarstofunnar Soil Association fyrir lífræna ræktun kemur fram, að séu erfðabreyttar lífverur ræktaðar í minna en 6 mílna fjarlægð (9,6 km) þurfi sá sem sækir um lífræna vottun á framleiðslu sína að tilkynna um þetta nábýli og í framhaldinu að fara í gegnum sérstakt áhættumat, þar sem skoðað er hvort erfðabreytt efni geti hugsanlega mengað framleiðsluna og þannig komið í veg fyrir að unnt sé að votta hana sem lífræna. (Umræddar reglur er hægt að nálgast á http://www.soilassociation.org/LinkClick.aspx?fileticket=U4dYxI6QZqw%3d&tabid=353, sjá kafla 3.6).

10 km áhættusvæði?
Evrópskar vottunarstofur fyrir lífræna ræktun fylgja allar sömu reglum í öllum aðalatriðum. Verði ræktun erfðabreyttra lífvera leyfð á Kleppjárnsreykjum, þýðir þetta því að öllum líkindum að aðilar sem staðsettir eru innan við 10 km frá Kleppjárnsreykjum og vilja fá lífræna vottun á framleiðslu sína, þurfa að sæta sérstöku áhættumati. Það þýðir ekki að þeir geti ekki fengið vottun, en hins vegar er ljóst að þeir eru ólíklegri til þess en framleiðendur á öðrum svæðum og þurfa væntanlega að bera meiri kostnað.

Þrengir að lífrænni ræktun á Varmalandi
Eins og sést á meðfylgjandi korti af www.ja.is (neðst í þessari færslu) liggja nokkur mikilvæg ræktunarsvæði í Borgarfirði, þ.á.m. Varmaland, í innan við 10 km fjarlægð frá Kleppjárnsreykjum. Þó að hugsanleg ræktun á erfðabreyttum lífverum á Kleppjárnsreykjum útiloki ekki að bændur á Varmalandi fari út í lífræna ræktun, þá gerir hún þeim augljóslega erfiðara fyrir en ella.

Sem sagt: Stefnumótandi ákvörðun!
Þetta er ein ástæða af mörgum fyrir því að líta verður á það sem stefnumótandi ákvörðun af hálfu sveitarstjórnar að lýsa sig fylgjandi eða mótfallna því að leyfð verði ræktun á erfðabreyttum lífverum innan marka sveitarfélagsins. Auðvitað er það lágmarkskrafa að slík ákvörðun, eins og allar aðrar ákvarðanir á vettvangi sveitarstjórnar, séu teknar með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í þeim lögum og reglum sem viðkomandi stjórnvald starfar eftir. Og vegna eðlis málsins er full ástæða til þess að gefa sér tíma til að kanna sem flestar hliðar þess, jafnvel enn lengri tíma en þá tvo sólarhringa sem þurfa að líða frá því að fundur er boðaður með dagskrá og þangað til hann er haldinn.

Lokaorð
Ég endurtek því lokaorð mín úr umræddu bloggi: Úrbóta er þörf í stjórnsýslu Borgarbyggðar! Gaman væri líka að heyra hvort ég sé einn um þá skoðun, eða hvort einhverjum öðrum þyki e.t.v. ástæða til að hafa áhyggjur af málinu í ljósi þess sem hér hefur verið rakið. Á þeim dögum sem liðnir eru frá því að margnefnd bloggfærsla birtist, hefur enginn minnst orði á málið svo ég hafi heyrt eða séð, ef frá er talinn efsti maður á lista Samfylkingarinnar í Borgarbyggð fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 29. maí nk. Henni kann ég bestu þakkir. Vissulega á ég enga heimtingu á að fólk rjúki upp til handa og fóta út af einu einasta bloggi. Geri mér heldur engar grillur um slíkt. En ég er þakklátur fyrir hverja hreyfingu sem bendir til þess að fólki sé ekki sama.

Hringurinn á myndinni afmarkar það svæði sem liggur nær Kleppjárnsreykjum en 10 km.

Birt:
28. apríl 2010
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Þrengir að lífrænni ræktun“, Náttúran.is: 28. apríl 2010 URL: http://nature.is/d/2010/04/28/threngir-ad-lifraenni-raektun/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: