Flestir aka bílnum sínum stuttar vegalengdir í einu og bílvélar ná því ekki ákjósanlegum vinnsluhita. Hreyfilhitari er einfalt tæki sem sett er í bílvélina til þess að stuðla að því að vélin nái ákjósanlegu hitastigi skömmu eftir að akstur hefst. Hreyfilhitarinn er tengdur rafmagni og tímarofa sem tryggir að hitun eigi sér stað áður en bílvélin er ræst. Hreyfilhitarinn lækkar rekstrarkostnað, eykur öryggi og þægindi í akstri, nýtir innlenda orku og dregur úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Við hreyfilhitara má tengja hitablásara sem hitar bílinn að innan og eyðir móðu og hrími af rúðum áður en akstur hefst. Góð reynsla er komin á notkun hreyfilhitara í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og víðar.

Vistvernd í verki
Bílinn er þarfur þjónn en hann hefur ýmis neikvæð áhrif á umhverfið. Kolmónoxíð, köfnunarefnisambönd og sótagnir sem losna við bruna menga loftið og eru heilsuspillandi. Koldíoxíð sem einnig myndast við bruna er gróðurhúsalofttegund.

Í nýlegri danskri rannsókn kemur fram að venjulegur fólksbíll sem settur er í gang við frostmark eyðir um 1,6 lítrum af bensíni við akstur fyrstu 5 km. Við 20 gráðu hita eyðir sami bíll um 1,2 lítrum við akstur fyrstu 5 km. Við ákjósanlegan vélarhita ætti bensíneyðsla við sömu aksturslengd að vera innan við 0,5 lítrar
Í Danmörku er talið að um 50% alls aksturs séu vegalendir sem eru 5 km eða styttri. Líklega er þetta áþekkt á Íslandi. Ef vél bifreiðar er ræst við frostmark hefur hún við eðlilegar aðstæður tæplega náð ákjósanlegu hitastigi þegar ökuferð lýkur. Þetta þýðir að líklega nær vélin ákjósanlegu hitastigi í aðeins um helming ökuferða. Í ljósi dönsku rannsóknarinnar má gera ráð fyrir að ef hægt væri að nota hreyfilhitara við tvær ökuferðir á dag þá gæti losun koldíoxíðs viðkomandi bifreiðar minnkað um liðlega 400 kg á ári eða um 10%.

// -->

Ef allur bílafloti landsmanna notaði hreyfilhitara gæti árleg heildarlosun bílaflotans af koldíóxíði minnkað um 90 þúsund tonn, eða um liðlega 10% af árlegri heildarlosun bílaflotans. Landsvirkjun er að vinna að rannsókn á áhrifum hreyfilhitara á eldsneytiseyðslu bifreiða við íslenskar aðstæður. Þegar niðurstöður hennar liggja fyrir verður hægt að leggja gleggra mat á þennan þátt. En það er ekki eingöngu orkueyðslan sem er meiri þegar vélin er köld. Til að hvarfakútarnir virki þarf hiti útblásturs vélarinnar að vera 300-500 gráður. Án hreyfilhitara losar bifreið sem búin er hvarfakút álíka mikið magn af megandi efnum við eina kaldræsingu við frostmark og við 600 km. akstur. Köld bílvél í akstri þýðir óþarfa orkunotkun og meira af mengandi útblæstri í andrúmsloftinu. Notkun hreyfilhitara er því vistvernd í verki.

Reksturskostnaður bifreiðar lækkar
En notkun hreyfilhitara er meira en vistvernd í verki. Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) fullyrðir að hreyfilhitari í heimilisbíla sé mjög góð fjárfesting sem skili sér ótrúlega fljótt. Hreyfilhitari sem er rétt notaður dregur stórlega úr bensíneyðslu, mengun og vélarsliti. Bílvélar slitna mest við kaldræsingu, miklu meira en vélar sem ræstar eru eftir að fullum vinnsluhita er náð. Þegar bílvél er ræst þarf olíudælan að koma smurolíunni hratt og örugglega um alla núningsfleti vélarinnar. Í köldum bíl er olían seigfljótandi og vélin þar með þyngri í ræsingu sem aftur veldur sliti á legum, kambás, stimplum o.fl. Norræn rannsókn sem framkvæmd var við 11 stiga frost (-11 gráður C) árið 1997 sýndi að með notkun hreyfilhitara í 1,5 klst. náðist hiti smurolíunnar upp í + 14 gráður C. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að notkun hreyfilhitara eyðir kaldræsivandamálum smurolíunnar sem aftur dregur úr viðhaldi og eykur verulega líftíma bílvéla.

Vellíðan og öryggi eykst
Við þekkjum öll ónotin við það að koma út á köldum vetrarmorgni að bílnum í klaka- eða snjóbrynju. Bíllinn ræstur ­ stundum tregur í gang ­ og síðan að skafa rúður og ljós í mengandi reykjarkófi útblásturs. Bíllinn enn hrollkaldur þegar lagt er af stað og skrokkurinn stirður. Notkun hreyfilhitara og hitablásara við þessar aðstæður sér til þess að miðstöðin er heit nánast um leið og bíllinn hefur verið settur í gang. Það þýðir að ökumaður og farþegar setjast inn í hlýjan bíl, engin móða eða ísing á rúðum, sem eykur vellíðan og öryggi vegfarenda.

Rafmagn ­ vistvænn, ódýr og öruggur orkugjafi
Rafmagn hér á landi er óneitanlega vistvænni orkukostur en bensín og olía. Það er því kappsmál að nýta raforku í stað olíu og bensíns þar sem það er mögulegt. Orkuveita Reykjavíkur vill vinna að þessu markmiði.
Orkuveita Reykjavíkur hefur metið að miðað við um 1,5 klukkustunda daglega meðalnotkun hreyfilhitara noti hann um 180 kWh á ári. Sé hitablásari í bílnum og hann notaður í 180 daga á ári er áætluð viðbótar orkunotkun um 180 kWh. Samtals orkunotkun gæti því orðið um 360 kWh og árlegur orkukostnaður því um 2.700 kr.

Birt:
26. janúar 2008
Höfundur:
Orkusetur
Uppruni:
Orkusetur
Tilvitnun:
Orkusetur „Hreyfilhitari“, Náttúran.is: 26. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/26/hreifilhitari/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 18. mars 2010

Skilaboð: