Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands boðaði til opinnar samræðu 7. október um niðurstöður nefndar um orku- og auðlindamál sem ríkisstjórnin skipaði til að rannsaka söluna á HS orku. Í skýrslunni er sýnt fram á hvernig hið svokallaða Magma-mál snýst um grundvallarákvörðun sem Íslendingar þurfa að taka um sjálfræði þjóðarinnar og almannahag til frambúðar. Erindi og umræður voru mjög góðar og margir þankar spruttu upp af hugarhreiðri sínu, meðal annars þessir:

Andi íslenskra laga mælir alfarið gegn gjörningum á borð við  sölu á HS Orku hf og framsali á nýtingarétti. Markmið og tilgangur  laganna segir kveða á um full yfirráð yfir landi og verðmætum auðlindum.

Gjörningurinn er lagasniðganga. Íslensk lög eru gróflega sniðgengin og almenningi er gefið langt nef. Allir vita að Magma Energy Sweden AB er tóm skúffa í Stokkhólmi og að eigendurnir eru kanadískir. Ekki er fjárfestingarsamningur í gildi á milli Íslands og Kanada. Magma Energy Kanada er óneitanlega aðili að kaupunum en opnaði skúffufyrirtækið til að fá heimilisfesti á ESB svæðinu.

Greinilegt er að íslensk stjórnvöld hafa brugðist þjóð sinni með því að vera bæði svifasein og óvarkár gagnvart þessum gjörningi. Hagsmunir almennings urðu undir og af þeim sökum átti skilyrðislaust að fara með málið fyrir dómstóla eða afturkalla ákvörðunina um söluna eða setja lög um eignarnám eða finna betra ráð.

Kaup Magma Energy Sweden AB á eignarhlutum í HS Orku hf er slæmt fordæmi fyrir aðra og því er almenningsþörf á eignarnámi núþegar fyrir hendi. Nefnd um orku- og auðlindamál hefur greint söluferlið ítarlega og afhjúpað óljósa íslenska löggjöf,.m.a. um takmarkanir erlendra aðila á fjárfestingum í auðlindum, löggjöf um orkuauðlindir og nýtingu þeirra og alvarlegan skort á stefnu í orku- og auðlindamálum sem brýnt er að vinna að áður en það verður of seint.

Óljós og illa samin íslensk lög – leyfðu nefndinni, sem rannsakaði söluna, ekki að kveða sterkara að orði en þetta: að kaupin séu líklega ólögleg og að venjulegir almannahagsmunir mæli með því að ákvörðunin sé afturkölluð. Öll venjuleg skynsemi og heilbrigð rökfærsla kveður hins vegar upp skýran úrskurð í málinu:

Kaupin stríða alvarlega gegn hagsmunum almennings. Íslensk lög voru alvarlega sniðgengin. Fyrirtækið er kanadískt en ekki sænskt á ESB svæðinu. Kaupin eru afar slæmt fordæmi. Gjörningur eins og þessi gengur í berhögg við hagsmuni almennings og komandi kynslóða. Óhæft ósýnilegt fólk hafði eftirlit með þessum gjörningum og brást öllum almenningi.

Sjónarmið sniðgöngu og óljósra laga til að selja og nýta auðlindir almennings á Íslandi  –  þarf umsvifalaust að kveða niður. (Hver samdi öll þessu loðnu og óljósu lög?) Niðurstaða nefndarinnar var eins afdráttarlaus og óljós lög leyfa. Niðurstaða rökhugsunar en hins vegar vafalaus.

Fram kom á fundinum í HÍ að fjölmiðlar hafi kokgleypt fréttatilkynningar um að kaup Magma Energy á eignarhlutum HS Orku hf. hafi verið í lagi og að “frá lagalegum sjónarhóli sé ekki tilefni til að gera athugasemdir við samningana sem slíka.” Frá öllum öðrum sjónarhólum voru kaupin vafasöm en fjölmiðlar höfðu ekki tíma til að kanna það þrátt fyrir að vera fulltrúar
almennings í landinu.

Hvers vegna eiga óljós, loðin, gloppótt, mótsagnarkennd lög að ráða fremur en ljós rökhugsun og staðfast siðvit? Það var spurningin sem sveif yfir salnum eftir að umræðum var slitið.

Höfundur er rithöfundur.

Sjá skýrsluna á vef forsætisráðuneytisins.

Ljósmynd: Ólafur Páll Jónsson í pontu. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
11. október 2010
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Þankar Gunnars Hersveins eftir Magma skýrslufund“, Náttúran.is: 11. október 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/11/thankar-eftir-magma-skyrslufund-gunnar-hersveins/ [Skoðað:16. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 12. október 2010

Skilaboð: