Nikulás þessi er hálfþjóðsagnakenndur biskup, sem á að hafa verið uppi í Litlu Asíu á 4. öld. Hann var frægur í Evrópu, þegar jarðneskar leifar hans áttu að hafa verið fluttar til Bari (Bár) á Ítalíu árið 1087. Upp frá því var hann brátt einn dáðasti dýrlingur síðmiðalda, einkum sem verndari fátæklinga, góðra gjafa og barnavinur mesti. Víða í Evrópu á hann að birtast á messudegi sínum og umbuna góðum börnum, en veita hinum ráðningu. Á síðustu öldum hefur hann svo tekið að sér hlutverk þeirrar persónu, sem færir börnum gjafir á jólum. Heitir hann víðast heilagur Nikulás, en nafn hans er stytt í Claus í enskumælandi löndum. Búningur þessa alþjóðlega jólasveins er einmitt runninn frá biskupsskrúða heilags Nikulásar.

Á Íslandi var Nikulás mikið tignaður sem annars staðar, svo ekki voru færri en 44 kirkjur og kapellur helgaðar honum í katólskum sið. Einungis María mey, Pétur postuli og Ólafur helgi stóðu honum framar að þessu leyti. Ein Nikulásarkirkjan var í Odda á Rangárvöllum. Í Sturlungu segir svo af háttum Sæmundar Jónssonar í Odda (Loftssonar Sæmundssonar fróða), “ að hann hafði veisludag hvern vetur Nikulásmessu og bauð til öllu stórmenni þar í sveit.” Ekki hafa enn fundist önnr dæmi um Nikulásgildi á Íslandi.

Tvær íslenskar sögur eru til af Nikulási, ein heil drápa og brot af annarri. Hinsvegar hefur hann sjálfur aldrei orðið jólasveinn á Íslandi.
Í þessu sambandi á við að geta um þann nýlega sið, að börn setji skó sinn út í glugga nokkru fyrir jól í þeirri von, að jólsveinar láti eitthvert góðgæti í hann. Eftir því sem næst verður komist hefur þessi siður borist til Íslands á þriðja áratug þessarar aldar, líklega frá Þýskalandi. Hans mun fyrst getið á prenti í jólakvæði eftir Ragnar Jóhannesson sem er ort kringum 1940. Hann hefur svo á síðustu áratugum breiðst út einsog eldur í sinu, fyrst í Reykjavík og öðrum bæjum. Mjög er misjafnt úti í Evrópu, hvenær þetta er gert. Sumir gera þetta aðeins á hverjum laugardegi í jólaföstu, en aðrir byrja á degi Nikulásar. Á Íslandi er auðvitað engin hefð til um þetta atriði, en þó virðist það ætla að verða algengast að miða við þann dag, þegar jólasveinar taka að koma af fjöllunum, hvort heldur það er þréttán eða níu dögum fyrir jól.

Birt:
6. desember 2013
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Nikulásarmessa“, Náttúran.is: 6. desember 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/nikulsarmessa/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 1. janúar 2013

Skilaboð: