Sama dag og 3,5 - 5% þjóðarinnar gekk niður Laugaveg til að sýna samhug sinn um að þyrma náttúru landsins fyrir „græðgi velferðarríkis“, kynnti ríkisstjórn Íslands loks hvernig hún hefur samið við Bandaríkjamenn um viðskilnaðinn á Keflavíkurflugvelli. Niðurstaða varnarviðræðanna felur í sér „hreyfanlegt öryggi“ sem þýðir að því er virðist að bandaríski herinn komi þegar nauðsyn beri til. Það á eftir að koma í ljós hvort að íslenskar og bandarískar skilgreiningar á „nauðsyn“ séu þær sömu þegar til kemur.

En það sem hér er gert að umtalsefni er að sjálfsögðu viðskilnaðurinn út frá umhverfissjónarmiðum. Þrátt fyrir að engin yfirsýn sé yfir það hve kostnaðarsamt verður að hreinsa upp vallarsvæðið er hreinsun alfarið á kostnað okkar, f.v. gestgjafanna. Með hreinsun er átt við bæði niðurrif ónýtra eða ónothæfra bygginga sem og hreinsunar jarðvegsmengunar á svæðinu. Í staðinn fáum við „hrakvirði“ mannvirkja upp á 11 millj. króna. Þar er verðmiði en ekki á hreinsuninni sem við fáum í skilnaðargjöf. Í viðtali við Michael Corgan prófessor við Boston University í Kastljósi á mánudagskvöld bendir hann einmitt á að reynslan annars staðar frá sýni og sanni að mikil og margvísleg jarðvegsmengun hljótist af viðveru herliðs, þar komi margt til. Kostnaðurinn hafi t.a.m. hlaupið á hundruðum milljóna dollara við hreinsun á herstöð í 8 km. fjarlægð frá Boston. Á herstöðvarsvæðinu sem lokaði fyrir 10-15 árum síðan er enn verið að uppgötva nýja tegund mengunar sem enginn vissi af áður. Varðandi umhverfismálin á vallarsvæðinu segir Carol van Voorst sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi að Íslendingar og Bandaríkjamenn muni hafa samráð komi fram vitneskja um að heilbrigði og öryggi manna sé í hættu vegna umhverfismengunar á næstu fjórum árum.

Birt:
28. september 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Varnirnar ósýnilegar og mengunin líka“, Náttúran.is: 28. september 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/varnir_osyn/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 2. maí 2007

Skilaboð: