Ein af merkustu konum síðustu aldar var líffræðingurinn og rithöfundurinn Rachel Louise Carson en hún fæddist í Bandaríkjunum árið 1907. Tímaritið „The Time“ taldi Carson meðal 100 mikilvægustu frumkvöðla á síðustu öld en útgáfa bókar hennar „Raddir vorsins þagna“ markaði tímamót í sögu umhverfisverndar og er gjarnan talin upphaf umhverfishreyfingarinnar eins og við þekkjum hana í dag.

Til að forvitnast nánar um þessa merku konu er rétt að fara til baka í tíma.
Skordýraeitrið DDT (díklór-dífený l-tríklóretan) var fyrst búið til árið 1873 en það var ekki fyrr en mörgum áratugum síðar að Paul Müller uppgötvaði notagildi þess og fékk síðar nóbelsverðlaunin fyrir. Efnið DDT er öflugt skordýraeitur sem drepur margar tegundir skordýra og var aðallega notað til að koma í veg fyrir malaríu og aðra sjúkdóma sem smitast með skordýrum. Efnið þótti slíkt kraftaverkameðal að fólk var jafnvel aflúsað með því að baða það upp úr efninu.

Þegar skordýraeitrið DDT kom á markað fyrir almenning eftir seinni heimsstyrjöldina fóru bændur að nota efnið óspart. Fáir höfðu uppi nokkur varúðarorð en til var fólk sem hafði sínar efasemdir. Einn þeirra var Edwin Way Teale sem benti á að 90% skordýra hefðu góð áhrif á lífríkið og jafn öflugt skordýraeitur og DDT gæti hæglega komið lífríkinu úr jafnvægi og valdið miklum skaða. Rachel Carson hafði líka sínar efasemdir. Hún reyndi að fá birtar greinar um skaðsemi DDT í tímaritinu „Readers Digest“ en án árangurs.

Í lok sjötta áratugarins fékk Carson sent bréf frá manni sem furðaði sig á dauðum fuglum á akrinum fyrir utan heimili sitt eftir að flugvélar höfðu flogið yfir og dreift þar eiturefni. Carson tók málið upp að nýju og reyndi aftur að fá birtar greinar um DDT en varð ekki ágengt þrátt fyrir að vera þá metsöluhöfundur, en bók hennar „The Sea Around Us“ sat  á metsölulista „The New York Times“ í 86 vikur. Carson átti mikið rannsóknarefni og ákvað því að skrifa bók um áhrif DDT á lífríkið. Hún hafði þó aðallega unnið við rannsóknir á sjávarlíffræði og taldi aðra færari til að skrifa um skaðleg áhrif DDT. Hún lét þó slag standa.

Bókin „Silent Spring“ (Raddir vorsins þagna) kom út árið 1962. Í bókinni gagnrýnir Carson óhóflega notkun skordýraeitursins því engin þekki í raun áhrif þess á lífríki og náttúru til lengri tíma. Hún útskýrir hvernig sterkustu skordýrin lifa eitrunina af sem verður til þess að grípa þarf til enn sterkara eiturs. Hún segir frá því hvernig þrávirk efni safnast upp í fæðukeðjunni, hlaðast upp í vefi og fitu manna og dýra, mest í stærstu lífverurnar efst í keðjunni. Í bókinni er því haldið fram að notkun DDT og annars skordýraeiturs í landbúnaði (parathion, heptachlor, malathion) geti valdið krabbameini og ógnað lífríkinu, sérstaklega fuglum.

Bókin vakti gríðarlega mikla athygli bæði meðal vísindamanna og almennings. Margir urðu þó til að gagnrýna skrif Carson og fór eiturefnaiðnaðurinn þar fremstur í flokki. Landbúnaðarráðuneytið og margir þingmenn gagnrýndu hana einnig og henni var hótað ótal lögsóknum. Carson undirstrikaði að hún væri ekki á móti notkun eiturefna í sjálfu sér heldur væri það gegndarlaus notkun sem hún gagnrýndi og notkun á efnum sem lítið væri vitað um. Andstæðingar hennar hikuðu ekki við að kalla hana móðursjúkan öfgasinna og var öllum brögðum beitt til að gera lítið úr henni sem vísindamanni. Er ljóst að kynferði hennar var einnig notað í þeim tilgangi og í „The Time“ var hún t.d. gagnrýnd sérstaklega fyrir að nota orð af tilfinningarlegum toga eins konum er jú víst gjarnan lagið.

Skilaboð Carson voru m.a. þau að manneskjan getur ekki haft fullkomna stjórn á náttúrunni og útrýmt þeim tegundum sem hún kann ekki við. Það verði allavega ekki gert án alvarlegra aukaverkana. Þessum skilaboðum kom hún á framfæri á yfirvegaðan og sannfærandi hátt og lét gagnrýnisraddir aldrei telja úr sér kjarkinn.

„Raddir vorsins þagna“ kom sem fyrr segir út í Bandaríkjunum árið 1962 og í íslenskri þýðingu árið 1965. Í ný legri enskri útgáfu skrifar Al Gore áhugaverðan inngang. Því miður er bókin ekki fáanleg á íslensku en vonandi mun einhver framtaksamur bókaútgefandi ganga í málið því þetta tímamótaverk á auðvitað að fást í íslenskum bókaverslunum.

Birt:
10. maí 2008
Tilvitnun:
Brynhildur Pétursdóttir „Upphaf umhverfisverndar“, Náttúran.is: 10. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/10/upphaf-umhverfisverndar/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: