Enn er hægt að komast að á námskeiðin í Lífsvefnum sem hefjast á Akureyri þ. 3. febrúar og í Reykjavík þ. 5. febrúar. Í bígerð er líka námskeið í Skagafirði ef þátttaka næst.
Byrjað verður með 20 klukkustunda grunnnámskeiði sem hægt er að fylgja eftir með 40 klukkustunda framhaldsnámi.

Lífsvefurinn – sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir konur

Lífsvefurinn er nám fyrir konur sem vilja læra að þekkja sjálfar sig betur og ná að vefa hinn margþætta vef lífsins á markvissan hátt í einkalífi og starfi.  Þetta nám hentar afar vel fyrir konur sem í störfum sínum styðja við aðrar konur.

Helstu efnisþættir námskeiðsins eru: sjálfsþekking, sjálfsmynd og samskipti; saga, hlutverk og staða kvenna; heilsa kvenna og tilfinningar; draumar og goðsagnir; fyrirmyndir og fordómar.
Markmiðin eru m.a. að: læra að þekkja og virða sjálfa sig; læra að greina og vinna úr því sem er erfitt og setja sér raunhæf markmið;  læra leiðir til skapandi samskipta;  styrkja jákvæða kvenímynd/sjálfsmynd sína;  og þekkja sögu sína, lífsgildi, lífstilgang, rétt sinn og skyldur.

Lífsvefurinn var upphaflega (1991) ofinn af þeim Valgerði H. Bjarnadóttur og Karólínu Stefánsdóttur, sem báðar eru félagsráðgjafar með mikla reynslu af vinnu með konum.  Lagt var af stað með 20 klst námskeið sem enn er haldið reglulega á ýmsum vettvangi. Námsefnið hefur síðan vaxið og þróast eins og eðlilegt er og nú er einnig boðið upp á heildstætt  60 klst. nám yfir lengri tíma. Haustið 2009 hafa tveir kvennahópar verið í þessu lengra námi og vegna fjölda fyrirspurna hefur verið ákveðið að leggja af stað með þriðja hópinn norðan heiða og bjóða einnig upp á 60 klst námið á höfuðborgarsvæðinu. Þá verður byrjað með 20 klst grunnnámskeið og síðan gefst konum tækifæri til að bæta við 40 klst framhaldi.

Grunnurinn í Lífsvefnum er heildarhugsun og hringurinn er nýttur sem grunnform. Byggt er á eigin kvenlægri þekkingu og reynslu, skapandi samtali mæðra þessa námsefnis, auk kenninga og hugmynda annarra kvenna og karla með ólíka menntun og sjónarhorn. Við nýtum okkur visku formæðranna sem enn lifir meðal frumbyggja þessa heims, auk þess sem hún lifir í fornum sögnum, goðsögum og ævintýrum. Þessi viska hefur oftar en ekki verið staðfest á síðari árum af nútímavísindarannsóknum.

Áhersla er lögð á að kynna þátttakendum skapandi lífssýn og ekki síst nýja sýn á sjálfar sig og tengsl sín við rætur, núverandi umhverfi og framtíð. Í gegnum ýmsa spegla úr draumum og menningarsögu, goðsögnum, þjóðsögum og ævintýrum, auk blákalds raunveruleikans, opnast gluggar sem veita skilning á stöðu kvenna og hverrar einstakrar konu og útsýni til nýrra möguleika. Þessi þekking verður að uppistöðu sem konurnar nýta til að vefa ný munstur í sinn lífsvef, skapa nýja sögu, um leið og þær læra að nýta efnið í lífi og starfi með öðrum konum og körlum.

*Skráning á vanadis@vanadis.is og nánari upplýsingar um verð á vefnum vanadis.is. og í síma 895 3319.

Myndin er af Valgerði H. Bjarnadóttur.

Birt:
28. janúar 2010
Tilvitnun:
Valgerður H. Bjarnadóttir „Lífsvefurinn - nám fyrir konur“, Náttúran.is: 28. janúar 2010 URL: http://nature.is/d/2010/01/28/lifsvefurinn-nam-fyrir-konur/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 29. janúar 2010

Skilaboð: