Athugasemdir 1061 einstaklinga voru afhent sveitarstjórn Ölfuss í hádeginu í dag. Við það tilefni flutti Björn Pálsson eftirfarandi ræðu:

Ágætu áheyrendur!

Í tilefni þess að hér eru nú afhent 977 bréf, þar sem 1061 einstaklingar og þar af 712 með búsetu í Hveragerði mótmæla auglýstri breytingu á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss, vil ég gera stutta grein fyrir aðkomu minni að þeim málum. Þessi mótmæli beinast einkum að ætlaðri Bitruvirkjun, líklegum eituráhrifum frá henni og þeirri eyðileggingu á lítt spilltri náttúru sem bygging hennar mun valda á umhverfi sínu. Þar hef ég, frá upphafi búsetu í Hveragerði 1974, notið margra góðra stunda, einn eða með fjölskyldu og vinum. Eðlislæg forvitni mín um örnefni, sögu, og tilurð fyrirbæra í umhverfinu hefur valdið því að ég er oftlega kallaður til leiðsagnar á þessu svæði. Nefna má eignaréttarmál fyrir Óbyggðanefnd og héraðsdómi Suðurland þar sem Sveitarfélagið Ölfus hefur meðal annars þurft að verja hagsmuni sína fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Í þeim átökum sýnist mér að sannleikurinn þurfi oft að víkja og sú buddunnar lífæð sem í brjóstinu slær ráði för.  Skemmtilegra er mér þó að leiðbeina gögufólki um þau svæði sem í flestum andmælunum er lagt til að verði friðlýst.

Þar eru börnin einlægustu ferðafélagarnir. Hvaða faðir, móðir, afi, amma eða leiðsögumaður getur vænst betri launa en þegar fimm ára gamalt barn segir: „Hingað verðum við að koma fljótt aftur“. Því er vel við hæfi að ung móðir, sem hefur lagt á sig ómælda sjálfboðavinnu við söfnun andmæla, afhendi þau hér í fylgd tveggja barna sinna. Þeirra er framtíðin og ég vona að þeir sem nú ráða för í landsmálum verði ekki í hlutverkum þeirra þjóðarsona, sem síðustu gripunum farga  úr gullabúri íslenskrar náttúru. Allt frá því að hamfarir, tilbúnar af sérhyggu og græðgi, skullu yfir okkur fyrir ári hef ég óttast að í kjölfarið fylgdu þær fjölþjóða hræætur sem ætið eru tilbúnar til að gæða sér á hinu ósjálfbjarga fórnarlambi. Það vekur mér ugg þegar frændur mínir og sýslungar fyrrum í Norðurþingi kalla eftir stuðningi aðþjóðlegs álrisa til byggingar gufuaflsvirkjunar þar. Upplýsingar um að nýtanleg háhitaorka frá Reykjanestá til Hengils geti í besta falli dugað til 66% orkuþarfar álvers í Helguvík lofar heldur ekki góðu. Atburðarrás um eignarhald á HS-orku vekur einnig ugg um eignarhald á orkuverum. Er hugsanlegt að álrisar í hraðvítugri samkeppni á alþjóðamarkaði muni fljótlega kaupa skuldsett íslensk orkuver. Hvað verður þá um þjóðareign á íslenskum orkuauðlindum? Þá spurningu ættu íbúar Þorlákshafnar, sem vilja halda aflakvóta í sinni heimabyggð, að íhuga. Reynslan sýnir að undirrituð fyrirheit um vinnslu í heimabyggð hafa ekki reynst traust. Ætli svo geti ekki einnig orðið um vilyrði um nýtingu orku í heimabyggð? Og hvað þá um loforð um eyðingu eiturefna frá gufuaflsvirkjunum?

Ágætu hlustendur! Þennan pistil hef ég samið í nokkurri samvinnu við Þorstein Erlingsson skáld. Hann studdi Sigríði í Brattholti í baráttu hennar fyrir verndun Gullfoss og kvæðið, Við fossinn, mun Þorsteinn hafa ort eftir að hafa lesið Dettifosskvæði Einars Benediktssonar. Við Fossinn, kvæði Þorsteins, ætti að vera skyldulesning á náttborðum allra stóriðjusinna nú. Lokaerindið verður niðurlag tölu minnar hér:

Og því er nú dýrlega harpan þín hjá
þeim herrum til fiskvirða metin,
sem hafa það fram yfir hundinn að sjá,
að hún verður seld eða jetin;
sem hálofa „guðsneistans“ hátignarvald
og heitast um manngöfgi tala,
en átt hefur skríðandi undir sinn fald
hver ambátt sem gull kann að mala.
Og föðurlandsást þeirra fyrst um það spyr,
hve fémikill gripur hún yrði,
því nú selst á þúsundir þetta sem fyr
var þrjátíu peninga virði.

Að lokum þakkaði Björn viðstöddum áheyrnina.

Mynd: Björn Pálsson fræðir ferðafólk við Kþrgil á Hellisheiði í sínum fjölmörgu leiðangrum á heiðinni. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
5. október 2009
Höfundur:
Björn Pálsson
Uppruni:
Björn Pálsson
Tilvitnun:
Björn Pálsson „Ræða flutt við afhendingu andmæla þann 5. okt. 2009“, Náttúran.is: 5. október 2009 URL: http://nature.is/d/2009/10/05/raeoa-flutt-vio-afhendingu-andmaela-thann-5-okt-20/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: