Sem viðbrögð við auglýsingu hér að ofna hefur Lára Hanna Einarsdóttir hrundið af stað eftirfarandi ferli sem verður rakið hér að neðan, í réttri tímaröð:

Sæll, Sigurður,

Mig langar að biðja um upplýsingar um tvö atriði í sambandi við auglýsingu
um breytt aðalskipulag í Sveitarfélaginu Ölfusi.

  1. Ég hef undir höndum tvær auglýsingar úr Morgunblaðinu sem fylgja hér með. Önnur er frá 19. mars sl. og hin frá 31. mars. Þrátt fyrir að hafa leitað bæði í Fréttablaðinu og 24stundum finn ég þær ekki þar. Birtust auglýsingarnar aðeins í Lögbirtingablaðinu og Morgunblaðinu - eða víðar
  2. Í báðum auglýsingunum er þess skilmerkilega getið hvar tillögurnar voru til sýnis. En í hvorugri er gefið upp hvert á að senda athugasemdir, sem er mikill galli. Skipulagsstofnun heimilar að athugasemdir séu sendar í tölvupósti, sem og önnur sveitarfélög - t.d. Reykjavík - þegar um skipulagsbreytingar er að ræða. Ég geri því eðlilega ráð fyrir að svo eigi einnig við með Sveitarfélagið Ölfus. En spurningin er: Á að senda athugasemdir á almennt netfang Sveitarfélagsins Ölfuss, olfus@olfus.is - eða til þín á sigurdur@olfus.is þar sem þú skrifar undir auglýsinguna? Eða eitthvert annað netfang? Á að senda afrit á annað/önnur netföng - kannski Skipulagsstofnun?

Bestu kveðjur með von um skjót svör,
Lára Hanna Einarsdóttir.

______

Svar Sigurðar við bréfi Hönnu Láru:

Auglýsingarnar birtust í Mbl, Lögbirtingablaðinu og síðan í lokalblöðum á Suðurlandi. Seinni auglýsingin er vegna lengri athugasemdarfrests. Fram kemur í auglýsingunni, að senda skuli inn skriflegar athugasemdir og þá til undirritaðs, eins og almennt er gert við svona auglýsingar frá skipulagsfulltrúa. Sendir þú þær í tölvupósti er einnig kallað eftir að þær komi með almennum pósti og þá undirritaðar.
kv.

Sigurður Jónsson
skipulags- og byggingarfulltrúi Ölfuss

______

Bréf sent til Sigurður Jónsson, skipulags- og byggingarfulltrúi,
Sveitarfélagsins Ölfuss, Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn:

Erindi mitt er tveir liðir í auglýsingu Sveitarfélagsins Ölfuss um breytingu á aðalskipulagi.
Auglýsingarnar eru reyndar tvær, vegna galla sem mér er ókunnugt um þurfti að auglýsa aftur.
Þær birtust í Lögbirtingablaðinu og Morgunblaðinu 19. og 31. mars 2008 og fylgja með í viðhengi.
Frestur til athugasemda samkvæmt seinni auglýsingunni rennur út 13. maí næstkomandi.

Í báðum auglýsingunum er 2. mgr. 18. gr. laga nr. 73/1997 - Skipulags- og byggingalaga -
brotin að tvennu leyti, en sá hluti laganna sem hér á við hljóðar svo:

"Tekið skal fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi gerir athugasemdir
við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni."

Í auglýsingunum er tekið fram hvar tillagan var til sýnis en ekki hvert skal senda athugasemdir.
Ekki er heldur tekið fram að sá sem eigi gerir athugsemdir teljist samþykkur tillögunni.
Þetta eru augljós brot á 2. mgr. 18. gr. laga nr. 73/1997 og greinilegt að auglýsa þarf aftur.

Þriðji liður erindis míns varðar ekki lög en er alvarlegur galli engu að síður
sem ég fer fram á að verði leiðréttur í nýrri auglýsingu.

Ég sendi skipulags- og byggingafulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss fyrirspurn í tölvupósti
og spurði m.a. á hvaða netfang senda skal athugasemdir.
Tölvupóstur minn og svar fulltrúans er hér að neðan.

Ég geri alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð Sveitarfélagsins Ölfus í þremur liðum
sem ég dreg saman þannig:

Ljóst er að tvennt í auglýsingu Sveitarfélagsins Ölfuss stenst ekki lög og þriðja atriðið orkar mjög tvímælis
þótt ekki sé það beinlínis lögbrot.

  1. Þótt greint sé frá því hvar tillagan verður til sýnis - hjá Ölfusi og Skipulagsstofnun - má allt eins leiða að því líkur að senda megi athugasemdir til Skipulagsstofnunar, en svo er þó ekki með vísan til svars skipulags- og byggingafulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss sem sjá má hér að neðan. Það kemur því alls ekki nógu skýrt fram í auglýsingunni hvert skal senda athugasemdir.
  2. Ljóst og óumdeilanlegt er að það er klárt lögbrot að taka ekki fram í auglýsingunni að hver sá sem ekki gerir athugasemd sé samþykkur tillögunni. Auglýsingin er því ólögleg og marklaus.
  3. Það hlýtur að teljast í hæsta máta vafasamt að leyfa ekki að athugasemdir séu sendar í tölvupósti. Í raun er tölvupóstur öruggari en hefðbundinn póstur. Ef vilji minn stæði til þess að semja 40 athugasemdir, prenta þær út, falsa undiskriftir og senda í hefðbundnum pósti væri það hægur vandi og engin leið fyrir móttakanda að rekja póstinn. Tölvupósti fylgja aftur á móti IP tölur og auðvelt að rekja hvort verið væri að senda 40 athugasemdir frá sömu IP tölunni. Að þessu leyti er tölvupóstur mun öruggari en hefðbundinn póstur. Að auki hefur sendandi afrit af tölvupóstinum til sönnunar þess að hann hafi sent inn athugasemd.

Ekki eru gerðar formkröfur um sendingu athugasemda í lögum og t.d. Skipulagsstofnun, og fleiri sveitarfélög leyfa athugasemdir við sams konar mál í tölvupósti. Það er því rökrétt að álykta sem svo að með því að heimila ekki tölvupóst sé Sveitarfélagið Ölfus vísvitandi að gera almenningi erfitt fyrir og það eitt og sér stríðir gegn anda Skipulags- og byggingarlaga og sjálfsagt fleiri laga, s.s. um mat á umhverfisáhrifum og tilskipun Evrópusambandsins (2001/42/EB) um áhrif og aðkomu almennings, aðgengi að ákvörðunum yfirvalda um umhverfið og tjáningarfrelsi almennings.

Annað sem vert er að íhuga í sambandi við hefðbundinn póst. Á höfuðborgarsvæðinu búa 195.970 manns. Samkvæmt heimasíðu Íslandspósts eru aðeins 11 póstafgreiðslustaðir sem þeim þjóna. Þar af eru íbúar Reykjavíkur 117.721 og þeir hafa aðeins 6 póstafgreiðslustaði innan borgarmarkanna. Það er því ljóst að æði margir þurfa að fara langar leiðir til að finna pósthús og vitaskuld er þessi fækkun pósthúsa afleiðing af tölvupóstvæðingunni sem hefur að miklu leyti komið í stað hefðbundins pósts. Póstkössum hefur líka verið fækkað töluvert.

Ljóst er að mun færri athugasemdir munu berast ef fólki er meinað að senda þær inn í tölvupósti. Það er óumdeilanlegt. Í hraða nútímaþjóðfélags er hefðbundinn póstur orðinn mjög fjarri öllum almenningi, sem hefur vanist því að flesta hluti sé hægt að afgreiða á netinu.

Ég þekki stjórnsýslulög ekki nægilega vel til að leggja mat á hvort þessi vinnubrögð stangist á við ákvæði eða anda þeirra, en umræddar auglýsingar Sveitarfélagsins Ölfuss um breytingu á aðalskipulagi eru klárlega tvíþætt brot á Skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.

Ég geri því þá kröfu til Sveitarfélagsins Ölfuss að breyting á aðalskipulagi sem hér um ræðir
verði auglýst aftur vegna alvarlegra formgalla á fyrri auglýsingum, með lögboðnum fresti
til athugasemda eigi skemmri en 6 vikur eins og lög kveða á um, með því fororði
að þær athugasemdir sem þegar hafa borist og berast í millitíðinni verði teknar fullgildar.


Einnig geri ég þá sjálfsögðu kröfu til Sveitarfélagsins Ölfuss að leyft verði að senda athugasemdir
með tölvupósti eingöngu eins og önnur sveitarfélög og margvíslegar stofnanir heimila.

Með von um skjót viðbrögð og svör,

Lára Hanna Einarsdóttir

Afrit sent Skipulagsstjóra ríkisins.

______

Svar Sigurðar til Hönnu Láru:

Lára, svona eru auglýsingar byggðar upp til auglýsingar. Það þarf þá að taka allar auglýsingar sem birtar hafa verið undir þá meðferð sem þú ert að ræða. Eftir auglýsingartímann, þ.e. 13. maí verður þín athugasemd tekin með öðrum til umfjöllunar.

kv

Sigurður Jónsson
skipulags- og byggingarfulltrúi

____

Sjá bloggsíðu Láru Hönnu Einarsdóttur. Sjá viðtal við Láru Hönnu í Morgunblaðinu í dag.

Hér að neðan má sjá dæmi um auglýsingu þar sem löglega er auglýst:

Birt:
11. maí 2008
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Lára Hanna gerir athugasemdar um lögmæti auglýsingar“, Náttúran.is: 11. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/11/hann-lara-gerir-athugasemdar-um-logmaeti-auglysing/ [Skoðað:18. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: