Grein þessi birtist upphaflega í maí-tölublaði mánaðarritsins Róstur. Upplýsingar um Róstur og hvernig nálgast má blaðið má finna á vefsíðunni www.rostur.org.

Ákveðin ládeyða hefur einkennt starfsemi íslenskra náttúruverndarhreyfinga eftir ósigur í baráttunni um Kárahnjúkavirkjun. Ef til vill var ósigurinn einfaldlega of stór biti að kyngja, því þrátt fyrir að til að mynda Saving Iceland hafi haldið uppi andspyrnubúðum gegn stóriðju  og virkjanaframkvæmdum eftir að Hálslón var fyllt og álframleiðsla hófst á Reyðarfirði, hefur á heildina litið skort þann baráttuanda sem einkenndi krítísku árin í kringum framkvæmdirnar fyrir austan.

Fyrsta náttúruverndarþingið á tíu árum

Laugardaginn 24. apríl sl. var gerð tilraun til að vekja hreyfinguna upp frá dauðum þegar Náttúruverndarþing var haldið í Menntaskólanum við Hamrahlíð á vegum náttúruverndarsamtaka á Íslandi. Það er hið fyrsta síðan árið 2000 ef undanskilin er alþjóðleg ráðstefna sem Saving Iceland stóð fyrir í Ölfusi sumarið 2007.

Þingið fór fram undir yfirskriftinni „Náttúruvernd á krossgötum – vörn og sókn“ sem  lýsir stöðu náttúruverndarbaráttu hér á landi einkar vel. Eins og staðan er í dag eru fallvötn landsins og jarðhitasvæði nánast öll á teikniborði virkjanasinna, hvort sem fyrirhugað er að afla orku fyrir álver, gagnaver eða annan iðnað. Samtök iðnaðar og atvinnulífs, auk stórra verkalýðsfélaga halda uppi herskáu áróðursstríði fyrir virkjun alls landsins, sem virðist hljóta talsverðan hljómgrunn í stjórnarráðinu. Þingið var skipulagt af náttúruverndarsamtökum sem starfa undir hatti umhverfisráðuneytisins og skýrir það hvers vegna frekar einsleitur hópur náttúruverndarsinna fór með framsögu á ráðstefnunni. Allir voru þeir fylgjandi því að vinna að náttúruvernd í samvinnu við stjórnvöld. Vel yfir 100 manns voru mættir í hátíðarsal skólans þegar þingið hófst og sögðu ráðstefnuhaldarar að það væri nákvæmlega sú tala sem þau höfðu óskað eftir – hvorki fleiri né færri.

Meðal þess sem ræðumenn dagsins fjölluðu um voru hugtökin eignarréttur og þjóðareign, jarðfræðilegar náttúruminjar og vægi þeirra í samanburði við landslag og líffræðilega fjölbreytni, og rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða, þar sem náttúran er ekki skilgreind sem auðlind í sjálfu sér heldur tæki til efnahagslegrar nýtingar. Einnig var rætt um nauðsyn þess að endurheimta votlendi í þágu fuglastofna og til bindingar á kolefni, en mýrar þykja betur fallnar til kolefnisbindingar en skógar. Hátterni íslenskra stjórnvalda var líka gert að umtalsefni, þar sem þau hafi í áraraðir markvisst smeygt sér framhjá alþjóðasamningum á borð við Árósarsamninginn og Kyotobókunina, auk þess að hafa lagst harðlega gegn því að gefa frjálsum félagasamtökum aukið vægi í umræðunni um náttúruvernd og þvert á móti barið niður tilvist þeirra. Að lokum var fjallað um að grasrótarhreyfingar ættu almennt að hljóta aukið vægi.

Vandræðasysturnar Lúpína og Kanína

Líffræðileg fjölbreytni var megin inntakið í ræðu Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, enda er árið 2010 helgað því nauðsynlega málefni. Réttilega sagði Svandís náttúruvernd vera forsendu lífs og að hver sá einstaklingur sem geti séð hlutina í samhengi hljóti að vera náttúruverndarsinni. Hugmyndir hennar flutu þó algjörlega á yfirborðinu og snertu varla á því sem raunverulega skiptir máli. Þannig minntist hún á tvær lífverur sem hún sagði ógna líffræðilegri fjölbreytni íslenskrar náttúru – lúpínu og kanínu – en minntist ekki orði á þá lífveru sem helst ógnar líffræðilegri fjölbreytni jarðarinnar allrar; hinn „viti borna“ mann.

Það má reyndar segja um þingið í heild sinni að djúpa vistfræðihugsun hafi sárlega vantað og allar umræður því einskorðast við grunnar hugmyndir – og á það jafnt við um vandamálin og lausnirnar. Auðvitað er ekki við öðru að búast en yfirborðskenndri og tækifærissinnaðri náttúruverndarstefnu af ráðherra ríkisstjórnar sem hefur fjölda virkjana á stefnuskrá sinni. Og reyndar nægir alveg að benda á þá staðreynd að valdhafar sem grundvalla afkomu ríkisins á iðnaði og framleiðslu eru einfaldlega ekki færir um að stuðla að líffræðilegri fjölbreytni, enda vinnur sá grundvöllur óhjákvæmilega gegn markmiði sínu. Eina vafamálið er hversu mikill skaðinn verður í stjórnartíð hverrar ríkisstjórnar.

En á stóru þingi náttúruverndarsamtaka á Íslandi hefði maður búist við því að málflutningur ráðherra úr ríkisstjórn, hvers stefna er í mótsögn við stefnu flestra náttúruverndarsamtakanna, hefði mætt harðri andstöðu gesta. Svo var ekki og sýndi það sig einna best í  umræðunum sem fóru fram að framsögum loknum. Fundargestir komu sér saman um brýnustu málefnin sem hreyfingin þyrfti að ræða, sem svo voru sett í fjóra flokka: Náttúruvernd, frjáls félagasamtök, stjórnsýsla og umhverfisfræðsla (sem fljótt var breytt í umhverfismennt eða vitund). Málefnin voru svo rædd í með þrjár spurningar að leiðarljósi: Hvað er brýnast að eigi sér stað? Hvernig er hægt að koma því í verk? Hvað er hægt að gera strax? Umræðan fór fram í nokkrum hópum sem að þeim loknum kynntu niðurstöðurnar.

Samvinna frekar en andspyrna

Mér til furðu voru umræðurnar og niðurstöðurnar sem á endanum voru kynntar síður en svo í anda yfirskriftar þingsins. Ef náttúruvernd er á krossgötum er svo sannarlega brýn nauðsyn á að endurskoða alla þætti náttúruverndarhreyfingarinnar frá grunni, hugmyndafræði jafnt sem aðferðafræði. Þess í stað var oft eins og fundargestir væru fyrst og fremst að rifja upp hvaða hugmyndum og aðferðum hafi verið beitt í mótspyrnunni gegn Kárahnjúkavirkjun – baráttu sem tapaðist! – með það að markmiði að endurlífga þær í stað þess að stíga skref fram á við og koma með nýja og ferska strauma. Ég bjóst fastlega við því að aðalumræðuefnið þennan daginn yrði hvernig koma eigi í veg fyrir fleiri stóriðju  og virkjanaframkvæmdir hér á landi. Því miður varð ekki svo.

Ekki er hægt að fara yfir allar þær niðurstöður sem kynntar voru en það sem kannski skein einna skýrast í gegn var trú fólks á sitjandi ríkisstjórn og þá sérstaklega sitjandi umhverfisráðherra. Ég var ekki viðstaddur náttúruverndarþing hið síðasta en get ímyndað mér að árið 2000 hafi fundargestir að langmestu leyti verið í andstöðu við ríkisstjórnina sem þá sat – og að svo hefði einnig verið hefðu þessi þing átt sér stað með styttra millibili á meðan ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar sátu við völd. Nú hins vegar, þegar Vinstri græn hafa nælt sér í nokkur ráðherrasæti, virðist sem kompásinn bendi í þveröfuga átt og náttúruverndarhreyfingin öll sjái þann kost bestan að vinna með valdhöfum. Vissulega voru margir fundargestir flokksbundnir öðrum hvorum stjórnarflokknum og ætti því trúin á ríkisstjórnina kannski ekki að koma alveg á óvart – eða hvað? Hvað hefur þessi ríkisstjórn gert til varnar náttúrunni? Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, fullyrti síðasta sumar að stefna flokksins í umhverfismálum væri hreintrúnaðarstefna sem ekki hentaði í efnahagskreppu; ráðherrar flokksins segjast ekkert geta beitt sér gegn álversframkvæmdum í Helguvík þó verkefnið sé komið eins stutt og raun ber vitni; iðnaðarráðherrann Katrín Júlíusdóttir talar fyrir hvers kyns stóriðjuuppbyggingu og sat nú síðast fundi með talsmönnum kínversks álframleiðanda í tengslum við fyrirhugaða álframleiðslu á Húsavík; og þær litlu hindranir sem Svandís Svavarsdóttir hefur komið fyrir á vegi stóriðju  og virkjanafrakvæmda hefur hún ekki rökstutt út frá hugmyndafræði náttúruverndar heldur út frá skipulagsatriðum.

Þrátt fyrir allt þetta og þrátt fyrir að ekki sé útlit fyrir neina stefnubreytingu í náttúruverndarmálum hjá sitjandi ríkisstjórn frá því hægri stjórn var við völd þá virðast náttúruverndarsinnar ætla að treysta á „samvinnu“ frekar en andspyrnu. Þannig töluðu fundargestir ítrekað um hversu nauðsynlegt væri að stjórnvöld kæmu að brýnustu verkefnum baráttunnar, ekki síður en grasrótarsamtökin og að hið opinbera verði að veita meira fjármagni til náttúruverndarsamtaka. Þarna er á ferðinni algjör afneitun á valdastrúktúrum samfélagsins því auðvitað er ekkert eðlilegra en að hið opinbera veiti eins smáum fjárhæðum og það kemst upp með til samtaka sem berjast gegn áætlunum yfirvalda. Sú uppæð sem nú þegar er til staðar er auðvitað fyrst og fremst táknræn, til þess eins gerð að skapa þá ímynd að valdhafar hugi að öllum gróðrinum í garðinum – meira að segja illgresinu.

Vitundarvakning innan valdafyrirkomulagsins

Afneitunin á valdafyrirkomulaginu og eðli þess birtist einnig í hugmyndum um allsherjar vitundarvakningu á umhverfismálum. Þess konar herferð er að sjálfsögðu  bráðnauðsynleg og ætti auðvitað alltaf að vera í gangi á öllum sviðum samfélagins, en á sama tíma verður fólk  að átta sig á því að skortur á umhverfisvitund er ekki helsta forsenda þess að gengið sé á jörðina. Forstjórar fyrirtækja í þungaiðnaði og hátækni, háttsettir embættismenn ríkja, valdatoppar orkufyrirtækja og herforingjar ríkisherja vita alveg hvaða afleiðingar starfsemi þeirra hefur. Vitneskja þeirra er reyndar svo mikil að fjöldi fólks vinnur við það eitt að draga upp falsmynd af starfseminni – draga „grænt“ leiktjald fyrir framkvæmdirnar og afleiðingar þeirra. Og þetta á síður en svo aðeins við um það fólk sem hvað mestu ræður og stjórnar, heldur er þetta eitt af einkennum kerfisins sem við búum við og leiðir þannig óhjákvæmilega til þess að stór hluti fólks, sem vissulega er meðvitað um afleiðingar gjörða sinna, er einfaldlega alveg sama.

Fleiri hugmyndir voru áberandi í umræðunni, meðal annars sú að senda fólk á námskeið í siðferði og sjálfbærri þróun. Til að byrja með var þetta sagt með húmorískum tón og aðallega um valdhafa ríkis og sveitarfélaga, en þegar á leið var hugmyndin orðin alvarlegri og farin að ná utan um mun stærri hóp fólks: alla! En hugtökin tvö voru aldrei útskýrð og skilgreind. Hver myndi standa að slíkum námskeiðum? Hvers konar siðfræði á að kenna og á hvaða hugmyndum á hún að byggja? Og hvað er sjálfbær þróun? Eru gagnaver og rafmagnsbílar þáttur í sjálfbærri þróun, þó að starfsemin feli í sér álíka ágang á jarðargæðin eins og álver og bensínbílar? Þessum spurningum var ekki svarað, enda var þeim varla varpað fram? Og þegar þær bárust til tals, fyrir tilstilli örfárra einstaklinga sem fundina sátu, var þeim nánast undantekningarlaust ýtt til hliðar.

Sömu sögu má segja um nánast allar tilraunir til að koma róttækum hugmyndum um málefnið inn í umræðuna. Efasemdir um réttmæti ráðandi valdafyrirkomulags og hugmyndir um ríkan þátt þess í því náttúruníði sem viðgengst. Efasemdir um að ríkjandi skólakerfi, fjölmiðlar og önnur mótunaröfl samfélagsins muni nokkurn tímann taka upp hanskann fyrir raunverulega náttúruvernd. Efasemdir um að harðari refsingar, aukin löggjöf eða löggjöf yfir höfuð, komi einhvern tíma til með að stuðla að heilbrigðu lífi í heilbrigðum heimi, vegna þess að lögin eru sett af manninum með hagsmuni mannsins í huga og þá sérstaklega hæstu stétta mannfólksins. Nauðsyn þess að hætta að verðmerkja náttúruna, hætta að koma með „lausnir“ í formi markaðsvæðingar og iðnaðar á borð við ferðmennsku, „grænt“ hagkerfi og hátæknivæðingu. Nauðsyn þess að útrýma landamærum og elska landið óháð því innan ramma hvaða þjóðríkis það er. Öllum þessum hugmyndum og efasemdum var ýtt til hliðar og nánast engin þeirra nefnd þegar niðurstöður umræðunnar voru kynntar í lok þingsins. Það heitir einfaldlega þöggun.

Hvers vegna?

Ég ætla mér alls ekki að draga í efa raunverulegan vilja og ástríðu fundargesta í baráttunni fyrir náttúrunni. Og heldur ætla ég mér ekki að alhæfa um hvern og einn fundargest, því þarna inni  voru vissulega nokkrar róttækari raddir en gengur og gerist. En þær raddir gjörsamlega köfnuðu í meginstraum meirihlutans! Og meirihlutinn virtist sitja fastur í hugmynda  og aðferðafræði sem gengur út frá því að umbætur innan kerfisins séu ekki bara mögulegar, heldur séu þær líklegar til raunverulegs árangurs. Ég hreinlega átta mig ekki á því hvers vegna djúpar og róttækar vistfræðihugmyndir eru svona óalgengar á fundi helstu náttúruverndarsamtaka hér á landi. Er það óttinn við öfgastimpilinn? Óttinn við fylgistap? Jafnvel óttinn við tekjumissi? Óttinn við að missa virðingu innan valdakerfisins? Er það vegna þess að umræðan má ekki verða of óþægileg? Má ekki ná inn að eigin skinni? Og ef náttúruverndarsinnar koma ekki með róttæka gagnrýni á stjórnvöld og ríkjandi kerfi, hverjir gera það þá? Ég einfaldlega spyr... og óska eftir svörum

Birt:
13. maí 2010
Uppruni:
Róstur
Tilvitnun:
Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson „Hvers vegna flýtur náttúruvernd ennþá á yfirborðinu - Frá þingi náttúruverndarsamtaka á Íslandi “, Náttúran.is: 13. maí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/13/hvers-vegna-flytur-natturuvernd-enntha-yfirbordinu/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 17. september 2010

Skilaboð: