Söfnun
Nokkur atriði er nauðsynlegt að hafa hugfast við söfnun plantna. Ekki er sama hvar eða hvenær plönturnar eru teknar né heldur á hvern hátt. Tína ber plönturnar eingöngu þar sem tryggt er að þær séu svo lausar við hugsanlega mengun, sem mögulegt er.

Ágætt er að hafa til viðmiðunar, að tína ekki plöntur í þéttbýli eða nær vegum en 50 m til að forðast ryk og hugsanlega blýmengun, einnig er rétt að halda sig utan 5-10 km radíus frá álveri eða öðrum stóriðjuverum. Einnig ber að forðast öll svæði landsins sem hafa mátt þola tilbúinn áburð eða skordýraeitur.

Almennt gildir að aðeins á að tína heilbrigðar plöntur lausar við skemmdir af völdum sjúkdóma, veðurs eða sný kjudýra.
Best er að tína plönturnar þurrar, þ.e. ekki í rigningu eða skömmu eftir rigningu, bæði er að þá eru þær kraftmeiri og eins tekur þá skemmri tíma að þurrka þær.
Hverja plöntu skal tína í kjörlendi hennar eða þar sem hún dafnar best. Sé jurtin tekin öll ofan rótar, þ.e. ef aðallega á að nýta blöð hennar s.s. mjaðurt, maríustakk og vallhumal, skal taka hana rétt fyrir blómgun.


Hér á eftir kemur upptalning algengara te- og nytjaplantna ásamt blómgunartíma þeirra, þess ber þó að geta að blómgunartími getur verið breytilegur eftir árferði og staðháttum og ekki er óalgengt að þar geti skeikað 2-3 vikum til eða frá.
Rætur ber að taka snemma vors áður en sprettur upp af þeim, eða að hausti þegar plantan er fallin. Fræ s.s. hvannafræ, er best að taka um það bil er það nær fullum þroska, þó áður en það fer að missa vökva og þorna.
Hvar sem plöntur eru teknar ber ávallt að gæta þess að skilja nægilega mikið eftir á hverjum bletti til að jurtin nái að blómstra og viðhaldast á svæðinu.

Verkfæri
Þegar plöntum er safnað eru rétt verkfæri nauðsynleg bæði til að tryggja góðan árangur við tínsluna og ekki síður til að koma í veg fyrir skaða á viðkvæmri náttúru landsins.
Beitt sigð eða stuttur hnífur nýtast best við skurð háplantna, trjáklippur til að taka birkikvisti, lítil skæri eða hnífur á lyng s.s. sortulyng, rjúpnalauf og blóðberg og mjó stunguskófla við rótatöku.
Flestar plöntur er best að tína í pappakassa, lérefts- eða strifapoka, forðast ber þó að troða í þessi ílát vegna hættu á ofhitnun í ferskum jurtum. Einstaka tegundir s.s. lyng og rætur má þó tína í plastpoka.

Þurrkun
Ef þess er gætt að tína eingöngu þurrar plöntur auðveldar það mjög þennan þátt grasasöfnunarinnar. Dreifið plöntunum á tau eða striga svo loft vel um þær, á heitum og dimmum stað þ.e. í flestum tilvikum verður að forðast að plönturnar þorni í sólarljósi. Sumar tegundir er best að hengja upp í litlum knippum til þerris.

Þurrkunin getur, eftir tegundum plantna, tekið frá nokkrum dögum til nokkurra vikna. Þurrkaðar plöntur geymast best á köldum og þurrum stað, í glerkrúsum með skrúfuðu loki. Fyrstu vikurnar þarf að fylgjast náið með krúsunum, ef þær döggvar að innan hafa plönturnar ekki verið nægilega þurrkaðar.
Fullþurrkaða og frágengna vöru má senda til kaupenda hvort sem er í nýjum hreinum pappakössum, vel lokuðum eða í léreftspoka sem hlíft er með plastpokum. Við sendingu þarf að taka fram að um matvöru sé að ræða, til að tryggja hreinlega meðferð í flutningi.

Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
28. júní 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Einar Logi Einarsson „Nýting villigróðurs - Leiðbeiningar um söfnun og verkun“, Náttúran.is: 28. júní 2011 URL: http://nature.is/d/2007/04/10/nting-villigrurs-leibeiningar-um-sfnun-og-verkun/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 10. apríl 2007
breytt: 27. júní 2011

Skilaboð: