„Eftirspurn eftir vistvænum byggingum er að aukast á markaðinum, það er greinilega aukinn áhugi á þessu hér eins og erlendis,“ segir Björn Marteinsson arkitekt og byggingarverkfræðingur á Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Því til vitnis bendir hann á fyrirhugaða byggingu Náttúrufræðistofnunar, áhugi Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands á að byggja vistvænar byggingar og ekki síst Urriðaholt í Garðabæ sem er skipulagt með tilliti til hugmynda um vistvænt umhverfi.

Þeir þættir sem skipta mestu máli til að bygging teljist vistvæn eru hollusta (t.d. gæði innilofts), áhrif byggingarinnar á umhverfi, þar með talin sjón-, ljós- og efnamengun, og svo að byggingin sé hagkvæm í rekstri með tilliti til stærðar, fyrirkomulags, viðhalds og nýtingar svo nokkuð sé nefnt. „Það er góð byrjun að fólk veji umhverfisvæn efni þegar kemur að málningu, lími og fúavarnarefnum. Þetta er það sem hefur mest áhrif á gæði inniloftsins. Það ætti einnig að vera áhugavert að menn velti fyrir sér öðrum áhrifum, s.s. ljósmengun,“ segir Björn.

Nauðsynlegt að taka tillit til íslenskra aðstæðna
Nýsköpunarmiðstöð stendur nú að tveimur rannsóknarverkefnum á sviði vistvænna bygginga, annars vegar „Vistvænt val í hönnun“ í samvinnu við Batteríið og Línuhönnun, styrkt af Íbúalánastjóði, og hins vegar Orka og sjálfbærar byggingar með Listaháskóla Íslands, styrkt af Umhverfis- og orkurannsóknarsjóði. „Það er nauðsynlegt fyrir okkur að skoða þessi mál út frá okkar forsendum á Íslandi þar sem alls ekki er augljóst hvort hægt sé að heimfæra beint erlendar hugmyndir og staðla um vistvænar byggingar á íslenskar aðstæður. Til dæmis erum við með vistvæna jarðvarma- og vatnsorku sem er mun hagkvæmari en sólarorkan, en á móti þurfum við að flytja inn nánast allar gerðir af byggingarefnum,“ segir Björn. 

Þau vottunarkerfi sem stuðst er við erlendis eru helst LEED í Bandaríkjunum, BREEAM í Bretlandi og Svanurinn á Norðurlöndunum. Af þessum kerfum er Svanurinn hvað víðtækastur, en fyrrnefndu tvö kerfin erum eð ítarlegastar leiðbeiningar til úrvinnslu og mats á einstökum byggingum.

Úr NMÍ fréttum frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands 2008.
Grafík: Vistænt hús Náttúrunnar.

Birt:
20. maí 2008
Tilvitnun:
Nýsköpunarmiðstöð Íslands „Vaxandi áhugi á vistvænum byggingum“, Náttúran.is: 20. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/20/vaxandi-ahugi-vistvaenum-byggingum/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: