Ráðstefnan „Hreinn ávinningur - hvernig græða fyrirtæki á umhverfisstarfi“ var haldin á Grand Hóteli þann 28.09.2005. Þar voru m.a. fulltrúar fjölda fyrirtækja sem fjölluðuðu um umhverfisstjórnun, þýðingu umhverfisstarfs fyrir ímynd fyrirtækja, menningu og samkeppnishæfni og um fjárhagslegan ávinning fyrirtækja af umhverfisstarfi.

Biðröð var út úr dyrum á ráðstefnuna kl. 8:30 um morguninn og yfir hundrað manns sátu ráðstefnuna. Þrátt fyrir að 30-40% íslendinga segist hafa áhuga á umhverfismálum komast þau skilaboð greinilega ekki til eigenda fyrirtækja í landinu.

Aðeins fimm íslensk fyrirtæki hafa innleitt ISO-14001 (alþjóðlegt umhverfisstjórnunarkerfi) vottun í rekstur sinn, 30-40 aðilar hafa lífræna vottun Túns (faggilt íslenskt lífrænisvottunarfyrirtæki), svansmerkingu (opinbert umhverfismerki Norðurlanda) hafa sjö fyrirtæki, eitt fyrirtæki hefur Green Globe 21 (alþjóðleg umhverfisvottun í ferðaþjónustu) og við fjögur fyrirtæki blaktir bláfáninn (alþjóðlegt umhverfismerki fyrir baðstrendur og smábátahafnir). Allir þessir aðilar virðast þó vera einróma um að það að fara í umhverfisvottunarferlið og fá vottun hafi verið mikil lyftistöng og í því falinn bæði sparnaður, gróði og siðferðisleg vitundarvakning fyrir eigendur og starfsmenn fyrirtækjanna. Finnur Sveinsson umhverfis- og viðskiptafræðingur benti m.a. á að það gengi ekki upp fyrir fyrirtæki að selja vottaðar vörur ef þau hafi ekki umhverfisstefnu sjálf. Með tilkomu „græns bókhalds“ öðlist fyrirtækin yfirsýn yfir þá sóun sem óvistvænir viðskiptahættir stuðla í rauninni að og gefur þeim tæki til að fylgjast með gróðanum af vistvænu leiðinni.

Í kynningu Steins Kárasonar háskólakennari og umhverfisstjórnunarfræðings m.a. fram að Ísland sé álíka aftarlega á merinni og Simbabwe og Grænland þegar kemur að prósentuhluta fyrirtækja með umhverfisvottun. Steinn birti einnig niðurstöður könnunar sem gerð var á því hvort að bankar í landinu taki tillit til þess hvort að fyrirtæki sinni umhverfisstefnu og var niðurstaðan mun verri en samsvarandi bankar á Norðurlöndunum en ekki var hægt að fá Stein til að leysa frá skjóðunni um hvaða bankar á Íslandi stæðu sig best í þeim efnum. Sem er bagalegt fyrir umhverfismeðvituð fyrirtæki og almenna neytendur.

Greinarhöfundur skorar á banka í landinu að gera stefnu sína um umbun við viðleitni íslenskra fyrirækja sem fylgja umhverfisstefnu kunna. Eins voru flestir frummælendur sammála um að stjórnvöld gæfu fyrirtækjum engin stig fyrir að stunda ábyrga umhverfisstefnu, hvorki skattalega né á sviði ívilnana á lögbundnu eftirliti sem í mörgun tilfellum fer þegar fram í fyrirtækjunum „undir eftirliti viðurkenndra alþjóðlegra aðila“. „Fyrirtækin eru komin langt fram úr stjórnvöldum“ heyrðist oft á ráðstefnunni. Í samanburði við nágrannalöndin erum við bæði óvirk og ómeðvituð í umgengni við umhverfið og þrátt fyrir vaxandi áhuga má betur ef duga skal, einn þáttur í að verða meðvitaðari er að huga að umhverfisvottunum fyrirtækja og velja frekar umhverfisvottaða vöru og þjónustu, sé þess nokkur kostur.

Að ráðstefnunni stóðu SA, SI, Umhverfisfræðsluráð og ASÍ. Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA, flutti opnunarávarp þar sem hann lýsti áhyggjum sínum yfir stefnu- og sinnuleysi stjórnvalda gagnvart fyrirtækjum sem sinntu siðferðislegum skildum sínum gagnvart umhverfinu en lokaorð flutti Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra. Skilaboð Sigríðar Önnu enduðu á að umhverfisstarf fyrirtækja væri ekki eingöngu í fyrirtækjanna þágu heldur okkar allra. Fundarstjóri var Katrín Jakobsdóttir. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir

Birt:
28. september 2005
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „„Hreinn ávinningur“, hvernig græða fyrirtæki á umhverfisstarfi“, Náttúran.is: 28. september 2005 URL: http://nature.is/d/2007/03/22/hreinn_avinningur/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2007
breytt: 2. október 2014

Skilaboð: