Svandís í pontu aðalfundar Landverndar 2010Landvernd hvetur stjórnvöld og orkufyrirtæki landsins til að fara gætilega með orkuauðlindir. Tímabundnir efnahagsörðugleikar réttlæti ekki að náttúruverðmætum sé fórnað.

Á aðalfundi Landverndar nýverið var samþykkt ályktun um orkuöflun og almenna umgengni við náttúru landsins þar sem brýnt er fyrir ráðamönnum, sveitarstjórnum, framkvæmdaraðilum, aðilum vinnumarkaðarins og landsmönnum öllum að tímabundnir erfiðleikar í efnahagslífi séu engin réttlæting til að fórna náttúruverðmætum með óafturkræfum hætti fyrir skammtíma hagvöxt. Fara þurfi gætilega með orkuauðlindir sem nú er mikil ásókn í, og huga að siðferðislegri skyldu landsmanna að varðveita náttúru Íslands og hlífa henni sem mest við hvers konar átroðningi, hvort sem er vegna stórframkvæmda, utanvegaaksturs, eða annarrar háttsemi sem rýrir gildi náttúrunnar um ókomna tíð.

Fundurinn minnti í þessu sambandi á eyðingu skóga fyrr á öldum og uppblástur jarðvegs. Einnig minnti fundurinn á eyðingu votlendis á síðustu öld. Ennfremur á ástand fiskistofna við landið miðað við það sem áður var.

Aðalfundurinn skoraði síðan á stjórnvöld og orkufyrirtæki landsins að virða þarfir þjóðarinnar um ókomna tíð og gæta aðsjálni og fyrirhyggju í nýtingu og virkjun orkuauðlinda landsins, einkum vatnsafls og jarðhita, í samræmi við viðurkennda stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun.

“Auðlindir þessar eiga að standa komandi kynslóðum til boða og afnota”, eins og stendur í ályktuninni. “Því ber að forðast skammtíma gróðahyggju og stofna ekki til útsölu á dýrmætum orkuauðlindum. Forðast ber rányrkju orkuauðlinda. Þótt þær séu í eðli sínu að miklu leyti endurnýjanlegar eru þær endanlegar að magni, heildarorku og afli. Þetta á ekki síst við um framleiðslu raforku á háhitasvæðum með háhitagufu, þar sem nýting varmaorkunnar getur farið niður undir 10% og gífurlegri orku er sóað, orku sem betur væri varðveitt til framtíðar.”

Ályktun aðalfundar Landverndar 2010

Ljósmynd: Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra í pontu á aðalfundi Landverndar þ. 26. maí sl., Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
2. júní 2010
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Stjórnvöld og orkufyrirtæki fari gætilega með orkuauðlindir“, Náttúran.is: 2. júní 2010 URL: http://nature.is/d/2010/06/03/stjornvold-og-orkufyrirtaeki-fari-gaetilega-med-or/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 3. júní 2010

Skilaboð: