Saving Iceland ræðst gegn Alcoa - ,,Eina leiðin til raunverulegra breytinga liggur í verndun náttúrunnar!“ segir í fréttatilkynningu frá samtökunum.

Í gær réðst Saving Iceland gegn álfyrirtækinu Alcoa. Við bönkuðum upp á skrifstofu fyrirtækisins við Suðurlandsbraut en enginn kom til dyra, svo græna skyrið og annar óþrifnaður sem við höfðum með okkur, endaði á hurðum, veggjum og gólfinu fyrir framan skrifstofuna. Í samanburði  við þátt Alcoa í eyðileggingu íslenskrar náttúru og öðrum umhverfis- og mannréttindabrotum um víða veröld, er þetta minnsta mögulega refsing.

Þó álver Alcoa á Reyðarfirði starfi nú af fullum krafti, keyrt áfram af fullkláraðri Kárahnjúkavirkjun, er rík ástæða til þess að ráðast áfram gegn fyrirtækinu. Álverið á Reyðarfirði var upphafið á stóriðjubrjálæðinu, fyrsta merkið um áhrif auglýsingaherferðar stjórnvalda á ódýrri orku landsins og lítilli sem engri andspyrnu íbúa þess. (1) Álverið á Reyðarfirði var boltinn sem ýtti af stað þeirri hugmynd að álframleiðsla sé forsenda lífs. Eftir byggingu Kárahnjúkavirkjunar líta allar aðrar orkuframkvæmdir út fyrir að vera svo smáar að fæstir sjá ástæðu til þess að spyrna frekar á móti. Og meðferð lögreglunnar á þeim sem voguðu sér að setja fót sinn fyrir framkvæmdirnar fyrir austan hvatti fólk varla til að halda andófinu áfram.

Alcoa stjórnar nú Austurlandi. Ekkert markvert virðist eiga sér þar stað nema álframleiðandinn komi nálægt því. Það er jú einmitt þannig sem stórfyrirtæki vinna sér inn traust og vinsældir. Í nafni fólksfjölgunar, aukinnar velferðar og blómlegra menningarlífs var Austfirðingum talið í trú um að samfélagið þyrfti á Kárahnjúkavirkjun og álverinu að halda. Sömu brögðum var beitt til að sannfæra Húvíkinga um að kalla yfir sig álver, með ókeypis aðstoð fjölmiðla sem gáfu markvisst þá mynd af málum þar á bæ að ekki nokkur manneskja hefði nokkuð út á framkvæmdirnar að setja. (2) Nýlegar fréttir sanna hið gagnstæða: Fjöldi fólks er mótfallið byggingu álversins og samhliða orkuframkvæmdum sem munu koma til með að rústa jarðvarmasvæðum eða jökulám Norðurlands eystra - líklega hvoru tveggja!
(3, 4)

Taumhald Alcoa á samfélaginu fyrir austan er svo sem ekkert öðruvísi en annars staðar hér á landi eða í hinum vestræna heimi yfirhöfuð, þar sem stórfyrirtæki hafa bókstaflega tekið völdin yfir samfélögum manna og náttúrulega umhverfinu. Stórfyrirtæki eru orðin stærri og oft mun valdameiri en ríkisstjórnir. Við völdum að ráðast gegn Alcoa vegna þess hversu augljós yfirtaka fyrirtækisins á samfélaginu er; hversu augljóslega háður áli stríðsrekstur ríkisherja og starfsemi hergagnaframleiðanda er; hversu augljóst er að álframleiðsla er ein af rótum umhverfisvandans sem við glímum við.

Í nýjasta hefti Fjarðarálsfrétta, sem kom út í júní sl. má sjá hvert ofurvald Alcoa er á samfélaginu fyrir austan. Í blaðinu er dregið upp hvert dæmið á fætur öðru um svokölluð jákvæð áhrif álversins. Góðgerðastarfsemi starfsmanna Alcoa, samfélagsstyrkir, aukin þjónusta, þekking og menningarstarfsemi, samgöngubætur, fólksfjölgun, stærsta leiklistarhátíð landsins, strandablakvöllur, íbúafundir um umhverfismál, jafnrétti og ekkert rusl – allt saman í boði Alcoa! Svo furðar fólk sig á þeirri samfélagsmynd sem gefin er upp í kvikmyndinni Draumalandinu og sakar höfunda hennar um áróður. Alcoa má vera stolt af einu verka sinna: Að gefa íbúum Austurlands þá hugmynd að án fyrirtækisins væri þar ekkert
líf. (5)

Forsvarsfólk Alcoa á Íslandi hefur markvisst reynt að hylma yfir þá staðreynd að fyrirtækið er ein af undirstoðum nútíma stríðsreksturs. Því hefur opinberlega verið haldið fram af talsmönnum fyrirtækisins að Alcoa framleiði bara ál en hafi ekkert að segja um framhaldslíf þess. (6) Saving Iceland hefur bent á hið gagnstæða og spurt hvers vegna Alcoa á Íslandi dettur í hug að ljúga svona blákalt þegar staðreyndirnar liggja á borðinu. (7) Alcoa Defense, vopnadeild fyrirtækisins, er eitt helsta stolt þess ef marka má heimasíðu Alcoa. Fyrirtækið skrifar undir – og montar sig í hvert sinn - hvern samninginn á fætur öðrum við helstu vopnaframleiðendur og hernaðarstofnanir heimsins, varðandi hönnun, viðgerðir og framleiðslu á öllum tegundum vopna á landi, sjó og lofti. Tilraun forsvarsfólks fyrirtækisins hér á landi til að halda sannleikanum frá fólki var dauðadæmd frá upphafi. (8)

Önnur ímyndarherferð fyrirtækisins – og í þetta sinn á heimsvísu – er græný votturinn. Eins og í Fjarðarálsfréttum gefur kynningarefni fyrirtækisins það til kynna að Alcoa sé partur af lausninni, alltaf og alls staðar. Sama hvort um er að ræða björgun dýrategunda í útrýmingarhættu, sjálfbærni, hreinsun drykkjarvatns eða að minnka, jafnvel koma í veg fyrir frekari gróðurhúsaáhrif - alls staðar treður Alcoa sér. Með fjölda manns í vinnu við ímyndarsköpun og meira að segja sjálfboðaliða sem samkvæmt Alcoa ,,taka á mest ögrandi umhverfisvandamálum“ jarðarinnar, heldur fyrirtækið uppi grænni og umhverfisvænni ímynd. (9)

En það er ekkert grænt og umhverfisvænt við ál. Það er ekkert umhverfisvænt við báxítgröft, súrálsframleiðslu, flutning hráefna heimsálfa á milli, álframleiðslu og lokavinnslu álvöru. Það er ekkert grænt við virkjun jökuláa og jarðhitasvæða. Það er ekkert samfélagslega jákvætt við álframleiðslu. Allt þjónar þetta þeim eina tilgangi að skapa aukinn gróða fyrir örfáa aðila og til að halda uppi ósjálfbæru efnahagskerfi. Ímynd álfyritækjanna er fölsk frá upphafi til enda. 
 Aðgerð okkar er lítil og við áttum okkur á því. En hún getur haft mun máttugri áhrif ef við gerum Alcoa það ljóst að markvisst verði ráðist gegn fyrirtækinu láti það ekki af frekari framkvæmdum. Nokkrar skyrslettur duga ekki einar og sér, enda er það ekki einungis í okkar verkahring að berjast gegn því skrímsli sem stóriðjuvélin er.

Það er lítil sem engin andófshefð hér á landi en uppreisnin í janúar sl. var góð upphitun. Fólk lærði að steyta hnefann gegn valdinu – og það af miklum krafti. Við vonum að aðgerðin virki sem hvatning til fólks, svo það átti sig á því að uppreisninni sem átti sér stað hér á landi í janúar lauk ekki með alþingiskosningum. Uppreisnin var bara forsmekkur af því sem koma skal ef við ætlum okkur að knýja fram raunverulegar breytingar. Raunverulegar breytingar  felast ekki í því að skipta um ríkisstjórn heldur að gjörbylta heiminum sem við búum í, hætta að álíta það heilagan rétt mannskepnunnar að leggja plánetuna í rúst fyrir fjárhagslegan gróða og uppfyllingu gerviþarfa neyslusamfélagsins.

Í Fjarðarálsfréttum segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi: ,,Styrkur Íslands liggur í nýtingu náttúruauðlinda.“ Þar á hann við að halda eigi áfram að virkja íslenskar náttúruauðlindir fyrir álframleiðslu. Við höfnum þessari heimsku og segjum í staðinn: Eina leiðin til raunverulegra breytinga liggur í verndun náttúrunnar!

Heimildir:

(1) An Agency of the Ministry of Industry and Energy and the National
Power Company (1995). Lowest Energy Prices!! In Europe For New Contracts
Mikil ánægja á Húsavík með ákvörðun Alcoa, rrétt Mbl.is,
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2006/03/01/mikil_anaegja_a_husavik_med_akvordun_alcoa/
Hvað er þetta hitt?, frétt á Mbl.is,
http://mbl.is/mm/folk/frettir/2009/05/08/hvad_er_thetta_hitt/
Jaap Krater, Fleiri álver og virkjanir leiða af sér óstöðugan efnahag,
grein í Morgunblaðinu, http://savingiceland.puscii.nl/?p=3440&language=is
Fjarðarálsfréttir,
http://www.alcoa.com/iceland/ic/pdf/2009-06-30_fjardaalsfrettir.pdf
Erna Indriðadóttir, Álið, Björk og Alcoa, grein í Morgunblaðinu,
http://www.alcoa.com/iceland/ic/news/whats_new/2008/2008_06_bjork.asp
Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson, Lygar og útúrsnúningar, grein í
Morgunblaðinu http://savingiceland.puscii.nl/?p=1543&language=is)
Vefsíða Alcoa Defense, http://www.alcoa.com/defense/en/home.aspVefsíða Alcoa, http://www.alcoa.com/global/en/eco_alcoa/eco_overview.asp

Mynd: Grænar skyrslettur við skrifstofu Alcoa, frá Saving Iceland.

Birt:
5. ágúst 2009
Höfundur:
Saving Iceland
Uppruni:
Saving Iceland
Tilvitnun:
Saving Iceland „Saving Iceland ræðst gegn Alcoa “, Náttúran.is: 5. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/06/saving-iceland-raeost-gegn-alcoa/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. ágúst 2009
breytt: 15. júní 2011

Skilaboð: