Bíllinn er tæki sem er í sífelldri framýróun, þar verður aldrei stopp á hugmyndum. Hvernig myndi það koma út ef bíllinn vissi fyrirfram leiðina og allar aðstæður á veginum. Það ætti að vera hægur vandi því að í raun keyra flestir sömu leiðir til og frá vinnu, dag eftir dag. Ein aðferð til þess væri að gefa bílnum fleiri skynfæri svo hann geti lært af reynslunni. Hugsum okkur því kerfi sem væri samtengt öllum tölvum bílsins og að auki með tækjabúnað sem mælir nákvæmlega hverja hreyfingu og hraðabreytingu bílsins. Bætum við GPS tæki og aksturstölvu sem skráir staðsetninguna hverju sinni og gott væri að hafa regnskynjara og útihitamæli, dagatal og klukku. Beygjur, veghalli, yfirborð, hraði og fleiri þættir gefa hverjum vegi sérstakan prófíl. Kerfið gæti kortlagt allar leiðir og þá opnast skemmtilegir möguleikar.

Öryggi
Skoðum öryggið fyrst. Með því að fylgjast stöðugt með veggripinu og bera það saman við leiðina framundan getur kerfið áætlað til dæmis hvort við komumst klakklaust í gegnum næstu beygju. Öll smáatriði varðandi veginn ásamt upplýsingum um veggrip og veður myndi nýtast kerfinu sem síðan gæti varað okkur við, t.d. ef hraðinn er of mikill. Annað atriði sný r að hámarkshraða. Með því að skoða meðalhraða okkar á hverjum kafla leiðarinnar fyrir sig þá gæti kerfið metið leyfðan hámarkshraða á því svæði, hvort um er að ræða húsagötu með 30 km/klst, safngötu eða hraðbraut með meiri hraða. Við gætum síðan beðið kerfið að vara við ef hraðinn verður of mikill.

Þægindi
Til er fjöðrunarbúnaður í dýrari bíla sem byggir á virkri stjórnun. Búnaðurinn skynjar hreyfingu dekkjanna og stillir dempunina á augabragði eftir því. Með þessu kerfi væri hægt að gera enn betur. Í stað þess að grípa í taumana eftir að atburðurinn gerist þá myndi kerfið stilla fjöðrunina fyrirfram. Ef kerfið veit af holu í veginum framundan gæti það gert passlegar ráðstafanir svo sem að slaka á dempurunum í augnablik meðan holan er tekin og síðan stíft dempunina vitandi það að það er sléttur kafli framundan. Þegar beygja er framundan myndi kerfið vita veghallann og hversu hversu kröpp hún er. Því mætti fyrirfram halla bílnum inn í beygjuna til að vinna á móti miðsóknarkröftunum.

Eldsneytiseyðsla
Það er ekki víst að þetta kerfi myndi hafa mikil áhrif á eldsneytiseyðslu á venjulegum bílum. Þó gæti kerfið hjálpað til við að velja réttan gír á sjálfskiptingu miðað við meðalhraða á kaflanum framundan. En á tvinnbílum og þá sérstaklega tengi-tvinnbílum mætti ná fram sparnaði. Á hverju augnabliki þarf tvinnbíll að meta stöðu rafgeymanna og hvort það þurfi að ræsa bensínvélina til að hjálpa upp á aflið og hlaða á geymana. En með þessu kerfi myndi tvinnbíllinn vita nákvæmlega hvað ökutúrinn er langur, hvort það sé hraður eða hægur kafli framundan, hvort leiðin liggi upp eða niður brekku eða hve langt er í að bílstjórinn bremsi. Í reynd gæti kerfið nýtt nóttina í að endurreikna leiðirnar til að finna betri lausnir, orkulega séð.

Eins og sjá má af þessari upptalningu þá vakna ótal möguleikar við svona kerfi. Það skemmtilega við þetta er að allir hlutar kerfisins eru til í bílum í dag. Það sem vantar er samþættingin og úrvinnslan. Kannski eigum við eftir að sjá þessa lausn í bílum morgundagsins.

Höfundur er vélaverkfræðingur.
Birt:
10. september 2007
Höfundur:
Einar Einarsson
Tilvitnun:
Einar Einarsson „Leiðarstjórinn“, Náttúran.is: 10. september 2007 URL: http://nature.is/d/2007/09/10/leiarstjrinn/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 12. janúar 2008

Skilaboð: