Reykjavíkurborg fagnar Degi umhverfisins 2011 með því að bjóða til náttúruleikja í Grasagarðinum og ratleikja í Laugardalnum, laugardaginn 30. apríl. „Við hvetjum fjölskyldur til að koma í skemmtilega náttúruleiki þar sem allir eru velkomnir: börn í vögnum, afar og ömmur,“  segir Hildur Arna Gunnarsdóttir fræðslustjóri í Grasagarðinum.

Félagar í Rathlaupsfélaginu Heklu kynna þennan dag fyrir gestum rathlaup og nýja varanlega rathlaupsbraut félagsins í Laugardal. Hlaupið er skemmtilegur leikur fyrir alla aldurshópa, sem stundaður er á opnum svæðum, innan borgarmarka og utan, í sátt við umhverfið og náttúruna. Þátttakendur fá kort af hlaupasvæðinu og stökkva svo af stað á milli stöðva sem merktar eru á kortið.

Tvær leiðir verða í boði í rathlaupinu, önnur fyrir hægfara og hin fyrir fótfráa. Einnig verða settar upp tvær örbrautir þar sem gestum býðst að prófa rathlaup með nýjum rafeindabúnaði fyrir tímatöku og stöðvamerkingu.

Dagskráin í Laugardalnum er þáttur í Grænum apríl og allir eru velkomnir. Gestir eru hvattir til að koma með vistvænum hætti í Laugardalinn á laugardaginn: gangandi, hlaupandi, hjólandi, með strætó eða með því að samnýta bílferð

Sjá alla þátttakendur í Grænum apríl hér á Græna Íslandskortinu.

Ljósmynd: Börn að leik í rathlaupi, Reykjavíkurborg.

Birt:
28. apríl 2011
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Fjör í Laugardalnum á laugardaginn“, Náttúran.is: 28. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/28/fjor-i-laugardalnum-laugardaginn/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: