Aðlögun að náttúrunni

Áður en byrjað er að skipuleggja hvar og hvernig skal byggja þarf að spyrja eftirfarandi: Hvaða auðlindir eru til staðar og hvaða not eru af þeim? Val á byggingarstað getur haft mikil áhrif á orkunotkun húsa. Til dæmis getur skjól frá trjám komið í veg fyrir að hitahjúpur húss, sem myndast við upphitun, blási burtu. Þannig sparast orka sem færi í endurmyndun hjúpsins.

Best er að hafa lauftré á suðurhlið því þegar þau missa lauf á haustin nær sólin að skína inn og verma húsið. Á norðurhlið er hinsvegar betra að hafa sígræn tré sem mynda jafnt og stöðugt skjól allan ársins hring.

Hefð er fyrir því að hanna hús með tilliti til loftslags. Á heitum eyðimerkursvæðum byggði fólk sér þung hús, oft að hluta til neðanjarðar, þannig að hitastigs-munur heits dags og kaldrar nætur jafnaðist út. Í mjög köldu loftslagi eins og á Grænlandi byggðu Inúítar lítil, veleinangruð snjóhús (Igloo) með litlum yfirborðsfleti til að lágmarka kælingu.

Samfélagsgerð

Þörf er á skipulagsgerð þar sem tengsl þéttbýlis, fámennra byggða og sveita eru aukin og samgöngu- og vöruflutningaþörf lágmörkuð. Huga þarf vel að göngu- og hjólreiðaumferð á skipulagsstigi og kalla eftir örari þróun á umhverfisvænu eldsneyti og sparneytnum bílum. Borgarsamfélag nútímans verður sífellt meira uppskipt. Fólk býr á einum stað, vinnur á öðrum, eyðir frítíma sínum á þeim þriðja og verslar á þeim fjórða. Við erum sífellt háðari samgöngum sem menga umhverfið og eyða orku. Að auki er framleiðsla, úrvinnsla og vöruhús orðin stærri í sniðum og miðstýrð, sem leiðir til aukinnar flutningsþarfar.

Samfélagsþróun:

  1. Gamla landbúnaðarsamfélaginu, allt staðsett á heimilinu eða nálægt því.
  2. Vaxandi iðnaður, fólk byrjar að ferðast til og frá vinnu en allt annað gert heima.
  3. Iðnaðarsamfélag, þjónusta frá heimili til fyrirtækja.
  4. Þjónustusamfélag nútíman, fólk býr í sofandi úthverfum og öll önnur starfsemi er annars staðar.
  5. Samfélag upplýsingatækni, hugmynd að þéttbýli sem ekki kallar sífellt á flutning fólks frá einum stað til annars. Þar myndi stór hluti vinnu, afþreyingar og þjónustu fara fram á heimilinu og verslað í gegnum internetið.

Hús sem fyrir eru

Nýjar byggingar eru aðeins lítill hluti allra bygginga. Mörg gömul hús nota mikið af orku og þörf er á átaki svo þau verði heilsusamlegri og auðlinda-nýting þeirra betri. Að byggja hús hefur ákveðin umhverfisáhrif en vert er að benda á að um 85% af heildarorkunotkun húss fer fram á líftíma þess. Því er mikilvægt að einbeita sér að endurbótum sem stuðla að minni orkunotkun.

Til langs tíma, sérstaklega á 20. öldinni, voru notuð byggingarefni sem í dag flokkast sem hættuleg (hazardous). Dæmi eru geislavirk steypuefni, asbest sem getur valdið lungnakrabba, þéttiefni sem innihélt PCB (polychlorinated biphenyls), þungmálma og viðbótarefni. Nútíma enduruppbygging gengur meðal annars út á það að fjarlægja kerfisbundið þessi hættulegu efni.

Fólkið

Sjálfbært samfélag ætti ekki eingöngu að stuðla að færri umhverfisvandamálum heldur einnig bjóða upp á aðstæður fyrir gott líf. Takmarkið ætti að vera að byggja mannlegt samfélag með pláss fyrir alla. Fátækt, atvinnuleysi og félagsleg einangrun hindra ákjósanlega samfélagsýróun. Því miður finnst mörgum þeir ekki geta haft áhrif á samfélagsýróunina. Þetta er vandamál sem verður að taka alvarlega. Leita þarf leiða sem auðvelda þátttöku en þarfnast ekki mikils tíma. Við uppbyggingu á sjálfbærum samfélögum er mikilvægt að byggingar séu aðlagaðar að umhverfinu en ekki öfugt. Við skipulagsgerð skal bæði taka mið af mannlegri starfsemi og náttúru, landi og gróðri.

Úr bókinni „Byggekologi, konskaper för ett hallbar byggande“ eftir Varis Bokalders og Maria Block. Þýðing: Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir. Af vef Sesseljuhúss.

Birt:
19. nóvember 2010
Tilvitnun:
Varis Bokalders og Maria Block „Staðsetning - Vistvænar byggingar“, Náttúran.is: 19. nóvember 2010 URL: http://nature.is/d/2007/03/29// [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 29. mars 2007
breytt: 19. nóvember 2010

Skilaboð: