Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, undirritaði í dag ásamt fleirum viljayfirlýsingu um samstarf við Mitsubishi-samsteypuna um innleiðingu rafmagnsbíla og þjónustunets.

Við sama tækifæri var undirrituð yfirlýsing um að Mitsubishi þrói hér á landi DME-eldsneyti (demethyl ether), dísel-eftirlíkingu sem unnin verður úr kolefnisútblæstri álvera.

Iðnaðarráðherra sagði gamlan draum sinn um lausn á ýmsum umhverfisvandamálum loks rætast með samstarfinu, sem hann þakkaði forseta Íslands fyrir að hafa átt frumkvæði að.

„Að losa sig við olíuna, það hefur verið draumurinn,“ sagði Össur í ávarpi sínu. Hann sagði það hafa komið sér á óvart hversu langt Mitsubishi-samsteypan væri komin í þróun annarra eldsneytismöguleika.

Takist að fanga og nýta allan útblástur íslenskra álvera mætti með þessari aðferð knýja allan fiskiskipaflotann, sagið Össur. Hann sagðist vera mjög stoltur af samstarfinu við Mitsubishi, en fyrirtækið hefur lengi framleitt túrbínur fyrir íslenskar jarðvarmavirkjanir.

Mitsubishi starfrækir þegar fjórar DME-framleiðslustöðvar, og mun Mitsubishi Heavy Industries leiða uppbyggingu slíkrar stöðva hér á landi.

Mynd: Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra undirritar viljayfirlýsingu við Mitsubishi Motors Corporation og Mitsubishi Heavy Industries um prófanir á rafbílum af gerðinni i-MiEV, uppsetningu þjónustunets fyrir rafhleðslu bílana og tilraunir með nýja eldsneytistegund.
Birt:
19. september 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Fyrsta skrefið í löngu samstarfi“, Náttúran.is: 19. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/20/fyrsta-skrefio-i-longu-samstarfi/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. september 2008

Skilaboð: