Kjötbollur eiga ekkert sameiginlegt nema nafnið þegar kemur að næringargildi og hollustu. Í heimatilbúnum bollum er ferskleikinn í fyrirrúmi, við ráðum hlutfalli kjöts og annarra hráefna. Kjötbollur ætti alltaf að búa til úr nýju hakki - helst sem við hökkum sjálf. Keyptar kjötbollur eru oft úr kjötfarsi sem við vitum ekki hvað inniheldur og getur verið of salt.

Kjötbollurnar eru bestar heimatilbúnar og þessar eru ljúffengar og fljótlegt að elda þær. Þær eru ennþá betri daginn efitr í nestisboxið.

  • 1 kg grísahakk
  • 2 egg
  • 2 brauðsneiðar bleyttar í mjólk
  • börkur af 3 sítrónum
  • 5 pressuð hvítlauksrif
  • 2 tsk sítrónusafi
  • handfylli af ferskri íslenskri steinselju
  • kryddið með sjávarsalti og nýmöluðum svörtum pipar
  • bragðlítil kókosolía/önnur olía til steikingar

Blandið öllu hráefninu vel saman í skál með höndunum. Kreistið mjólkina úr brauðinu og rífið þa út í deigið. Kælið í um klukkustund. Einnig er gott að útbúa blönduna daginn áður og láta hana standa í kæliskáp yfir nótt. Mótið bollur og steikið á pönnu upp úr kókosolíu.

Kartöflu-eplasalat

Það er fátt betra á haustin en nýuppteknar soðnar kartöflur með hýðinu á og örlítilli smjörklípu. Það er um að gera að nota nýjar kartöflur með hýðinu á í kartöflu-eplasalatið, þannig eru þær hvað næringarríkastar, best er að kartöflurnar séu lífrænt ræktaðar.

  • 1 dós sýrður rjómi (18%)
  • paprikuduft á hnífsoddi
  • karrýduft á hnífsoddi
  • 400 gr kartöflur
  • 2 epli
  • 1/5 hluti púrrulaukur, ljósi og græni hlutinn
  • 1 msk ferskur íslenskur graslaukur
  • nýmalaður svartur pipar

Sjóðið kartöflurnar, kælið og flysjið. Hrærið kryddinu saman við sýrða rjómann og smakkið til. Setjið kartöflurnar, eplin, púrrulaukinn og graslaukinn saman við sýrða rjómann, ásamt dálitlum pipar og blandið varlega.

Uppskrift úr bókinni „Hollt nesti heiman að„ eftir Margréti Gylfadóttur, Sigurrósu Pálsdóttur og Sigurveigu Káradóttur.

Mynd: Forsíða bókarinnar. Mynd tekin af vef Bókaútgáfunnar Sölku ehf.

Birt:
5. október 2011
Tilvitnun:
Móna Róbertsdóttir Becker „Hollt nesti heiman að: Heimagerðar kjötbollur“, Náttúran.is: 5. október 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/29/hollt-nesti-heiman-ad-heimagerdar-kjotbollur/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 29. september 2011

Skilaboð: